Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 00:07:04 (5553)


[00:07]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég skal viðurkenna það að það er náttúrlega sérkennilegt að ræða um þetta sem fundarstjórn forseta því það er verið að fást hér við um þingsköp.
    Ég vil aðeins segja þetta: Ef þetta hefði verið byggðamál í þeim skilningi sem hér er verið að leggja í hugtakið byggðamál þá hefði málið verið flutt af forsrh. En málið er flutt af fjmrh. og þess vegna hafna ég því að málið eigi að fara til allshn. Ég get hins vegar tekið undir það með hv. 2. þm. Austurl. að það eru ýmis rök fyrir því að málið sé sent til fjárln. Og til þess að allir komist nú að þessu máli sem vilja að því koma þá finnst mér eðlilegt að það sé staðið við það sem ég stakk upp á í umræðunni fyrr að málið fari til efh.- og viðskn. en hún sendi málið til fjárln. Þetta er sá gangur og ekkert öðruvísi en mál hafa verið send til nefnda áður. Það er verið að minnast hér sérstaklega á sjávarútvegsfyrirtæki í þessu frv., það gerir ekki þetta mál að sjávarútvegsmáli þannig að það eigi að fara til sjútvn. Það hafa orðið til hefðir hér í þinginu og ég held að við séum að fylgja þeim eins og oftast áður. ( PBj: E r þetta ekki sérstök aðgerð í byggðamálum?)