Varnir gegn mengun hafsins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 13:53:50 (5566)


[13:53]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir að vekja athygli á máli sem vissulega er náskylt því sem hér er til umræðu. Hann víkur að Parísarsáttmálanum og gerðardómsákvæðum hans í deilumálum sem upp kunna að rísa varðandi mengun sjávar frá landstöðvum og rifjaði upp umræðu sem fram

fór á Norðurlandaþingi um þetta mál. Spurningin er síðan um viðbrögð íslenskra stjórnvalda.
    Eins og hv. þm. vék að olli það vonbrigðum íslenskum stjórnvöldum og Íslendingum almennt að umhverfisráðherrar Norðurlanda skyldu ekki bregðast einarðlegar við þessari hættu sem stafar að okkar umhverfi, ekki síst þegar um er að ræða kjarnorkuendurvinnslu í Bretlandi þar sem þau ríki sem þar hafa hagsmuna að gæta taka sér vald sem gæti orðið meiri háttar spillir á okkar umhverfi og þar með þeim þáttum sem varða lífsafkomu okkar þjóða og ýmissa annarra.
    Ég get ekki á þessari stundu svarað því hver þessi viðbrögð voru. Ég hef ástæðu til að ætla, þó ég þori ekki að fullyrða það, að það hafi ekki verið samkomulag innbyrðis meðal umhverfisráðherra Norðurlanda um þau viðbrögð sem hv. þm. greindi frá. Hæstv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson er í dag farinn í opinbera heimsókn til Bretlands í boði breska umhverfisráðherrans. Við ræddumst við áður en hann fór og hann mun taka þetta mál upp og hann mun nota tækifærið til að koma þar á framfæri milliliðalaust harðri og eindreginni gagnrýni okkar. Ég geri ráð fyrir því að ákvörðun um viðbrögð af okkar hálfu hafi t.d. um það sem hv. þm. spyr um hvort við hyggjumst eða getum nýtt okkur gerðardómsleiðina samkvæmt Parísarsáttmálanum og hvort við viljum beita því verði niðurstaðan eða ekki. Ég get ekki svarað því á þessari stundu, en ég endurtek þakkir mínar til hv. þm. fyrir að vekja athygli á málinu og ég ítreka það sem ég hef áður sagt að íslensk stjórnvöld líta á þetta mál sem mjög alvarlegt milliríkjavandamál og við munum skoða alla hluti sem í okkar valdi eru tiltækir til þess ekki einasta að koma mótmælum á framfæri heldur til að fylgja þeim eftir þannig að tillit verði til þeirra tekið.