Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 15:04:06 (5587)


[15:04]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það eru örfáar athugasemdir vegna þessa frv. á þessu stigi máls. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að það er mjög sérkennilegt að stjfrv. sem flutt er vorið 1993 hér á Alþingi eftir að hafa verið í deiglu mjög lengi skuli nú koma fram þegar er að nálgast vorið 1994 og endurflutt eftir að gerðar hafa verið á því nokkrar breytingar og nokkur nýmæli sett inn eins og segir í upphafi greinargerðar með frv.
    Nú kann svo að vera að það sé afskaplega lítill hugur í sambandi við þennan flutning af stjórnvalda hálfu að fá fram endurskoðun á þessum lögum. Ég vil ekki leggja mat á hve þörfin er brýn að ná fram þessum breytinum. En ég vil taka undir að það er mjög óheppilegt fyrir vinnu hér á Alþingi að stjórnvöld, ríkisstjórn á hverjum tíma, séu að setja málin með þessum hætti. Það er ekkert við það að athuga að mál séu flutt til kynningar og getur verið ágætt og jafnvel send til umsagnar, enda sé þá stefnt að því að þau fái efnislega alvörumeðferð á næsta þingi. Það getur greitt fyrir málafylgjunni og verið ósköp eðlilegur gangur mála. En að koma með frumvörp trekk í trekk undir þinglok og ætla þingnefndum að fara að leggja í þau vinnu, það er heldur illa farið með starfstíma þingsins þegar dregur nálægt þinglokum.
    Þetta er varðandi það efni og síðan má benda á ónákvæmni í orðalagi greinargerðar í upphafi þar sem segir að málið hafi ekki verið lagt fram frá því 1983. Síðan er sagt að það hafi verið lagt fram vorið 1993 og síðan er það nú endurflutt. Þetta er ónákvæmni í framsetningu auk þess sem bent hefur verið á og í mínu minni er það nú svo, ég held að ég mundi ekki muna eftir þessu frá 1983 og vil ekki fullyrða það samt, en mig minnir að það hafi sést hér frv. um þetta efni í landbúnaðarráðherratíð Jóns Helgasonar á sínum tíma, það er eins og mig minni það. Um þetta vil ég ekki fullyrða en ætti að vera auðvelt að skera úr um það eins og hér hefur komið fram ábending um frá hv. 5. þm. Suðurl. Þetta er meira sagnfræðilegt efni en efnislegt.
    Síðan er það þetta form sem hér er viðhaft í sambandi við endurskoðun laganna, þ.e. að flytja þetta sem breytingu á lögunum um lax- og silungsveiði, svona viðamikið mál, svona viðamiklar breytingar á þeim lagabálki. Að setja það þannig fram auðveldar ekki þinginu málsmeðferðina og að átta sig á því í rauninni hvaða heildarrammi þetta er sem hér er verið að fjalla um. Ég hefði í sporum hæstv. ráðherra valið

þann kost að flytja frv. til nýrra laga um þetta fyrst ráðist er í svona viðamiklar breytingar og þær taldar nauðsynlegar því þetta eru ekki fáar blaðsíður hér í væntanlegum nýjum lagatexta og kallar á samlestur og að rýna í þau lög og þau ákvæði sem ætlað er að haldi gildi sínu. Þetta finnst mér hafa tekist óhönduglega og hefði verið æskilegt að standa að því með öðrum hætti.
    Ég ætla ekki að fjalla efnislega um frv. Ég hef ekki forsendur til þess. Ég hef ekki lagt í það vinnu að fara yfir frv. og bera það saman við gildandi lög í einstökum atviðum en vildi koma með þessar ábendingar á þessu stigi máls.