Lax- og silungsveiði

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 15:33:36 (5596)


[15:33]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér er talað þvílíkum orðum til þingmanna að það er ekki hægt að láta því ómótmælt. Hæstv. landbrh. hefur rætt þannig um fulltrúa landbn. eins og hann orðaði það, ef þeir eru þess ekki umkomnir að setja sig inn í málið, þá verði að fara einhverja styttri leið í gegnum þetta frv. og hann talar eins og lagasetning á hinu háa Alþingi felist í því að rifja upp einhverja kafla í frv. frá því í fyrra. Þetta eru makalaus ummæli ráðherrans og í ljósi þeirrar miklu vinnu sem átt hefur sér stað í landbn. og þess hvernig nefndin hefur lagt sig fram um að greiða úr flækjumálinu, búvörulögunum, þá er ekki hægt annað en mótmæla þessum sjónarmiðum ráðherrans. Hann ætti að minnast þess þegar hann var sjálfur að keyra kafla búvörulaganna í gegnum þingið fyrir jól þar sem ekki mátti orði breyta, þá gerðist það að þar urðu mistök. Við hljótum að krefjast þess að þegar stórir og miklir lagabálkar eru lagðir hér fyrir, þá hafi nefndir þingsins tíma til að fara almennilega í gegnum þá. Ég minnist þess ekki að nefndin hafi verið byrjuð að fara yfir þetta frv. í fyrra. Það var sent til umsagnar og það voru komnar umsagnir, en ef ég man rétt þá vorum við ekkert farin að fara efnislega í málið og auðvitað þurfum við að gera það frá grunni, hæstv. landbrh.