Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 18:02:34 (5603)


[18:02]
     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði lokið að gera grein fyrir afstöðu minni til þeirra þriggja efnisþátta sem eru í frv. sjálfu og þarf ekki að endurtaka það að öðru leyti en því að ég minni á að ég var með fyrirspurn til hæstv. félmrh. og veit að ráðherrann mun svara því á eftir varðandi 3. og 4. gr. frv. um lánveitingu til lögbýla. Ég vil þá víkja að því sem er meginefni míns nál. og það eru þær breytingar sem gerðar voru á frv. í meðförum þingnefndar og eru tvær brtt. að efni til. Önnur varðandi lánveitingu til almennra kaupleiguíbúða og hin varðandi heimild til að fresta greiðslum á lánum í Byggingarsjóði ríkisins og fasteignaveðbréfum húsbréfadeilda sem lagt er til að verði tekið upp með ákvæði til bráðabirgða.
    Ef ég vík að fyrra atriðinu sem er breyting á lánveitingum til kaupleiguíbúða, þ.e. almennra kaupleiguíbúða sem svo eru nefndar, þá vil ég fagna brtt. og það kemur fram í mínu nál. að ég tel að það sé
ávinningur að brtt. frá því sem löggjöfin er núna. Hins vegar minni ég á að það hefur verið sótt á um breytingar einmitt á þessu lánafyrirkomulagi og minni á samþykkt húsnæðismálastjórnar frá 18. febr. á síðasta ári sem sent var félmrh. og félmn. Alþingis af því tilefni að þá hafði nefndin til meðferðar stjfrv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins rétt eins og nú. Sú tillaga gekk lengra en tillagan sem nefndin flytur að því leytinu til að hún gerði ráð fyrir því að í stað þess að vera með tvö lán, annað 70% til 43 ára og hitt 20% til fimm ára, við kaup á almennri kaupleiguíbúð þá yrði eitt lán veitt, 90% af kaupverði sem væri þá til 43 ára. Nefnd sem var skipuð og hefur lokið störfum og skilað af sér prýðilegri skýrslu, sem var falið að meta reynsluna af framkvæmd laga nr. 70/1990, um félagslegar íbúðir eins og það heitir, lagði einmitt til þessa sömu tillögu, en nefndin skilaði áliti í maí 1993. Því er það svo að brtt. nefndarinnar gengur skemmra en þær tillögur sem áður hafa verið fluttar eða óskað hefur verið eftir að yrðu lögfestar. Það sem nefndin leggur til er að áfram verði veitt tvö lán, en í stað þess að 20% lánið verði til fimm ára þá verði það til 25 ára. Það er til verulegra bóta, en ég legg áherslu á að það gengur skemmra en áður hafði verið lagt til af aðilum sem um þessi mál fjalla og eiga að fjalla og verða að teljast sérfróðir um þetta efni.
    Engu að síður er engin ástæða til að gera lítið úr brtt. og ég fékk starfsmann félagsíbúðadeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins til að reikna út fyrir mig áhrif brtt. nefndarinnar á greiðslubyrði lántakanda og birti það sem fskj. með mínu nál. Þar kemur fram að ef um er að ræða íbúð sem kostar 9 millj. kr. þá breytist greiðslubyrðin fyrstu fimm árin þannig að hún lækkar úr rúmlega 64 þús. kr. niður í rúmlega 40 þús. kr. Það er um verulega lækkun greiðslubyrði á fyrstu fimm árunum að ræða eða um einn þriðja. Að vísu hækkar á móti greiðslubyrðin frá sjötta ári til tuttugasta og sjötta, en það má segja að hún jafnist út í heildina tekið og verði viðráðanlegri á ári. Og ástæðan fyrir því að ég stend að þessari brtt. og fylgi henni er að hún er til bóta þó hún gangi ekki eins langt og ég hefði kosið. En það er seinni tíma mál að koma málinu alla leið.
    Ég fagna líka hinni breytingunni hvað varðar almennu kaupleiguíbúðirnar, sem er að gefa þeim kost á því sem þegar hafa keypt almennar kaupleiguíbúðir með þessum kjörum, fimm ára láni eða 20% fjárhæðarinnar, að skipta því láni út fyrir 25 ára lán. Til fróðleiks reyndi ég að taka saman hvað þetta gæti verið mikið og þær upplýsingar sem ég hef eru að það séu um 120 íbúðir sem hafa verið seldar sem almennar kaupleiguíbúðir og eru með þessum umræddu fimm ára lánum plús 43 ára lánum. Að meðaltali er áætlað að eftir séu um þrjú ár af þessum fimm ára lánum og meðalfjárhæð af eftirstöðvum um 800 þús. kr. Þannig að þarna er um nokkrar fjárhæðir að ræða. Og það kemur fram í minnisblaði, sem ég birti sem fskj. með mínu nál., frá félmrn. að þessi breyting hefur nokkur áhrif á sjóðsstreymi byggingarsjóðanna og er nauðsynlegt að mönnum sé það ljóst og gert sé ráð fyrir því þegar að því kemur að menn þurfi að huga að þeim málum að nýju.
    Að öðru leyti tel ég ekki rétt að dvelja frekar við þessa fyrri tillögu nefndarinnar nema minna á eða benda á viðmiðunarreglur vegna leigu á félagslegum íbúðum, sem ég birti hér með mönnum til fróðleiks til að sýna muninn sem er á því að vera með íbúð sem félagslega kaupleiguíbúð, almenna kaupleiguíbúð og félagslega eignaríbúð. Það er þó nokkur munur á þessu. Ef íbúð er leiguíbúð þá er áætlað að menn þurfi að greiða í leigu af félagslegri kaupleiguíbúð 4,43% af stofnverði, en af almennri kaupleiguíbúð

7,14%. Það þýðir að miðað við 6 millj. kr. íbúð er leigufjárhæðin í félagslegri kaupleigu tæplega 22 þús. kr. á mánuði en í almennri kaupleiguíbúð 36 þús. kr. Þetta mun ekki lækka við þessa brtt. því það er ekki gert ráð fyrir breytingum á þessu sviði. Munurinn er allnokkur þarna og ég hygg að menn þurfi að skoða þessi mál frekar og hefði talið heppilegra að menn reyndu að vinna betur saman þessa þrjá möguleika á félagslegri eignaríbúð og svo kaupleiguíbúðarmöguleikunum þannig að menn létu aðstæður þess sem er í íbúðinni ráða í hvaða kerfi íbúðin er skráð í stað þess að láta steypuna eða íbúðina sjálfa ráða valinu. Og síðan hugsa menn sér og eru að reyna að flytja fólkið á milli eftir því sem passar. Mér finnst að það ætti að snúa þessu við og hafa kerfið sveigjanlegra þannig að skilgreining á íbúð gæti færst á milli kerfa eftir því hver er í íbúðinni og jafnvel breyst eftir aðstæðum þess sem í íbúðinni er. Það gæti t.d. verið að einhver flytti í félagslega kaupleiguíbúð, síðan gæti hagur hans batnað og þá væri eðlilegt að mínu viti að breyta lánskjörum og skilmálum þannig að íbúðin gæti farið yfir í almenna kaupleiguíbúð eða jafnvel eignaríbúð.
    Hvað varðar síðari breytinguna sem er um heimild til að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum Byggingarsjóðs ríkisins og skuldurum fasteignaveðbréfa húsbréfadeildar af tilgreindum orsökum, eins og þar stendur í tillögunni, þá stend ég einnig að þeirri tillögu þó mér finnst hún ekki ganga nærri nógu langt og vera að mörgu leyti mun takmarkaðri en ég hefði kosið að sjá, auk þess að vera tímabundin til 1. jan. 1996.
    En ég vil fyrst taka fram vegna þess sem stendur í upphafsorðum þeirrar tillögu, en þar segir: ,,Húsnæðisstofnun ríkisins getur heimilað frestun o.s.frv.`` Ég legg áherslu á að ég skil það orðalag þannig að það er húsnæðismálastjórn, stjórn stofnunarinnar, sem fer með þetta mál, rétt eins og það er skýrt tekið fram í núgildandi lögum, með sambærilegt frestunarákvæði í Byggingarsjóði verkamanna, að það er húsnæðismálastjórn sem mótar reglur um útfærslu ákvæðisins. Og ég legg áherslu á þann skilning minn á þessu ákvæði að það sé sama úrvinnsla og staða húsnæðismálastjórnar sé sú sama og í hinu.
    Þá hefur komið fram í gögnum frá félmrn. og fjmrh. sá skilningur á þessu ákvæði að einungis sé átt við þröngan hóp umsækjenda. Fyrst og fremst þann hóp sem ekki hefur fengið úrlausn eða skuldbreytingu samkvæmt núgildandi reglugerð frá því í október 1993 um skuldbreytingalán úr Byggingarsjóði ríkisins. Ég sé ekki að ráðuneytin séu ósammála um þann skilning og er væntanlega skilningur þeirra sem að þessu máli upphaflega koma að það beri að túlka ákvæðið svona þröngt. Ég tel það miður. Ég tel að orðalag ákvæðisins gefi ekki tilefni til svona þröngrar túlkunar sem raun ber vitni og hefði kosið að menn skildu þetta nær þeim skilningi sem orðalagið sjálft býður upp á, sem almennt frestunarákvæði.
    Til dæmis að nefna þá kemur fram hjá hæstv. fjmrh. að áformin eru að frestunin gildi einungis í þrjú ár. Það er ekkert í lagatextanum eða tillögunni frá nefndinni sem gefur tilefni til að ætla að einhverjum aðila, húsnæðismálastjórn eða ráðherra, sé veitt heimild til að takmarka frestunina við einhvern tiltekinn tíma. Það stendur hvergi í þessari lagaklásúlu og ég er ekki sammála því að það sé hægt að rökstyðja þann skilning á ákvæðinu, eins og það er borið fram af nefndinni, að það sé hámark á þeim tíma sem heimilt er að fresta afborgunum og vöxtum af lánum. Minn skilningur er sá að það sé í hendi þess aðila sem fer með útfærslu ákvæðisins, þ.e. húsnæðismálastjórnar, að ákvarða það eftir almennum reglum og hvort fresturinn verði eitt ár, tvö ár, þrjú ár eða meira fari bara eftir úrlausn máls. Þetta vil ég undirstrika sem minn skilning á þessu ákvæði líka.
    Til fróðleiks og upplýsinga um hversu afmarkaðan hóp þetta ákvæði á við samkvæmt túlkun ráðuneytanna, þ.e. þann hóp sem hefur verið synjað um skuldbreytingarlán í núverandi greiðsluerfiðleikalánaflokki, þá höfðu samkvæmt þeim tölum sem ég hef og eru nýjastar eftir því sem ég best veit, þær miðast við 17. mars sl., borist 420 umsóknir. Það var búið að afgreiða 208, samþykktar 111 en synjað 97. Miðað við fyrri gögn þá mætti ætla að u.þ.b. þriðjungurinn af þessum 97 gæti verið hópurinn sem þetta ákvæði ætti við. Það er nú því miður þannig --- ég sé að hæstv. ráðherra hristir höfuðið en það er því miður þannig samkvæmt þeim gögnum sem fram hafa komið um skilning á þessu ákvæði. Ef það er meining ráðherra að túlka þetta ákvæði víðtækar en fram kemur þá er rétt og nauðsynlegt að það komi fram af hálfu hæstv. ráðherra því það skiptir verulegu máli um útfærslu þess hvort það á einungis við þröngan hóp manna eða er almennt ákvæði.
    Það kemur fram í mínu nál. að hópurinn sem er í vanskilum við stofnunina er gríðarlega stór. Þannig var t.d. um síðustu áramót, samkvæmt upplýsingum sem ég hef og birti að hluta til í mínu nál., að þá voru um 15.000 manns, ef ég man rétt, í vanskilum við stofnunina, samtals með um 2.500 millj. kr. Það er nokkuð mikið, einkum í ljósi þess þegar áætlað er að á þessu ári, 1994, nemi afborganir og vextir af lánum við alla stofnunina rúmum 12 milljörðum. Þannig að þetta er u.þ.b. 1 / 5 af þeirri fjárhæð sem var þá í vanskilum. Þar af voru um 5.000 greiðendur með tæplega 1.300 millj. í vanskilum þar sem vanskilin voru orðin fimm mánaða og eldri. Ég mundi ætla að þessar upplýsingar um 5.000 manns með fimm mánaða gömul vanskil og eldri gæfu okkur nokkuð glögga mynd af því hvað við erum að tala um stóran hóp. Og það er víðs fjarri að þessi tillaga um ákvæði til bráðabirgða VI taki á greiðsluvanda þessa stóra hóps miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið um hvernig beri að skilja þetta ákvæði, m.a. hjá fulltrúa fjmrn. í viðræðum við félmn.
    Virðulegi forseti. Ég hef í meginatriðum skýrt mín sjónarmið í þessu máli og ætla ekki að dvelja lengur við þessi tvö nýju efnisatriði að öðru leyti en að minna á og benda á það sem fram kemur í fskj.

með nál. mínu álit lögfræðinga Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem ég hygg að mönnum sé fróðlegt að skoða. Þar komast lögfræðingarnir að þeirri niðurstöðu að stofnuninni sé heimilt að skuldbreyta lánum Byggingarsjóðs ríkisins og húsbréfadeildar með svokallaðri skilmálabreytingu, þannig að það sé fyrir hendi almenn heimild til þessara breytinga og þurfi ekki að veita sérstakar heimildir hverju sinni með lögum. Skilyrði þess að stofnunin megi skuldbreyta með svona skilmálabreytingu er að áliti lögfræðinganna að um það séu settar öruggar reglur sem séu staðfestar af ráðherra. Ég tel að menn ættu að kynna sér þetta álit lögfræðideildar stofnunarinnar og þætti fróðlegt að heyra sjónarmið ráðherra til þess. Því ef ráðherra setur sig ekki upp á móti þessu áliti, þá sýnist mér einboðið að stofnunin geti unnið samkvæmt því og þá er hægt að taka strax og miklu víðtækar á þeim hópi sem er í vanskilum við stofnunina með almennum reglum sem verða bornar undir ráðherra til samþykktar.
    Ég tek það fram af minni hálfu að ég stend að þessari brtt. um ákvæði til bráðabirgða VI, um frestunarákvæðið, með þeim skilningi að þetta frestunarákvæði sé ekki til að rýra skilning þann sem fram kemur í áliti lögfræðideildar heldur ákvæði sem gangi lengra. Þannig að ég set þann fyrirvara af minni hálfu að ég tel að með því að fallast á flutning á þessari brtt. sé ég ekki að ganga til þess að þrengja skilninginn á þessu áliti sem ég birti hér sem fylgiskjal.
    Virðulegi forseti. Þá hef ég lokið við að gera grein fyrir þeim efnisatriðum sem málið fjallar um og vissulega væri hægt og fullkomin ástæða til að mörgu leyti að fara nokkuð ítarlegar yfir málin en ég hef gert, en ég hef stytt mál mitt verulega. Ég tel að við hljótum að hafa tækifæri til þess síðar að taka betri umfjöllun um aðra efnisþætti en beinlínis þá sem eru í frv.
    En ég vil þó nefna einn þátt sem ég hygg að menn verði að huga að og væri fróðlegt að heyra frá hæstv. fjmrh. hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera varðandi það vandamál sem uppi er, en það er fjármögnun á útlánum stofnunarinnar. Mönnum er kunnugt að skuldabréfakaupin brugðust á síðasta ári með tilheyrandi vandræðum og það er nýlega búið að ganga frá lánveitingum ríkissjóðs til stofnunarinnar. Annars vegar til langs tíma, breyta skammtímafjármögnun í langtímalán, annars vegar 1.900 millj. og hins vegar 2.300 millj., til að gera upp þessa rúma 4 milljarða sem vantaði upp á að endar næðu saman vegna þess að skuldabréfaútgáfan brást. Horfurnar á þessu ári, 1994, eru því miður ekki mikið betri. Það er gert ráð fyrir því að stofnunin afli sér lánsfjár upp á 9.100 millj. kr. sem þýðir að í byrjun mars hefðum við átt að vera búin að fá um 1.600--1.700 millj. kr. í lánsfé til að standa undir útstreymi stofnunarinnar samkvæmt áætlun í fjárlögum, en það hafði aðeins tekist að afla 660 millj. kr. Það vantaði sem sé um 1 milljarð þá þegar upp á að lánsfjáröflunin stæðist áætlanir. Eins og er hafa menn brúað þetta bil með skammtímafyrirgreiðslu hjá ríkissjóði og það væri fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. félmrh. hvaða áform ríkisstjórnin er með uppi til þess að bæta úr þessum vanda. Því það setur auðvitað allt úr skorðum hjá stofnuninni ef ekki tekst að afla lánsfjár til að standa undir lánveitingu sem gert er ráð fyrir í fjárlögum ársins.