Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 18:49:03 (5606)


[18:49]
     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki við þetta tækifæri rúm til þess að fara yfir þau atriði sem ég vildi gera svo ég geri það síðar, en ég nefni nú aðeins tvennt. Það fyrra er að ég fagna því að hæstv. ráðherra er að láta athuga löggjöf erlendis um greiðsluaðlögun og mér fannst á upplýsingum ráðherra að þær upplýsingar sem hann hafði um málið fram til þessa væru jákvæðar þannig að þær bentu til þess að þetta væri fýsilegur kostur. Ég fagna því, einkum og sér í lagi í ljósi þess að fulltrúi félmrn., sem kom á fund félmn., var ekki svona jákvæður heldur taldi ekki mikla bót að þessu og hafði um það tölur frá Noregi hversu litlu greiðsluaðlögunarlögin hefðu skilað þar. En ég fagna því að um sinnaskipti hafi orðið að ræða hjá félmrn. hvað það varðar.
    En ég vil segja hvað varðar það sjónarmið ráðherra að upplýsingar í mínu nál. væru fjarstæða þá er ég ekki sömu skoðunar og ráðherrann í því. Það kemur fram í bréfi ráðherrans, dags. 11. febr., til félmrn. hvernig skilja beri þetta ákvæði um frestun og fyrir hverja það ákvæði er ætlað og upplýsingar um það hvað sá hópur gæti verið stór liggja fyrir frá húsnæðismálastjórn og ég er ekkert að halda því fram að það séu endanlega 27. Ég er bara að benda á að í þeim upplýsingum sem fyrir liggja að af þeim 280 umsóknum gætu það verið 27 umsækjendur sem þetta ákvæði ætti við eins og það er upplagt og túlkað af hálfu menntmrn. og fjmrn. En það kemur fram örlítið neðar ef ráðherrann hefði nú lesið næstu 2--3 setningar að það er ekki rétt sem ráðherrann sjálfur hélt fram.