Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 18:51:34 (5607)


[18:51]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Af því að hv. þm. vitnaði í fulltrúa félmrn. að hann hefði verið neikvæður gagnvart þessari löggjöf um greiðsluaðlögun þá hygg ég að hv. þm. sé að vísa í umræður sem urðu um þetta ekki á þessu þingi heldur á síðasta þingi. Þetta er mjög flókið og viðamikið mál og upplýsingar sem við fengum um það frá Noregi og unnið var úr bentu til þess að mjög fáir gætu notið þessarar greiðsluaðlögunar miðað við þau skilyrði sem þar voru sett. En eftir því sem málið hefur unnist áfram og verið skoðað, þetta er viðamikið og flókið mál, þá hafa menn séð ýmsa jákvæða kosti við þessa greiðsluaðlögun og ég veit að fulltrúi félmrn. sem er að skoða þessa löggjöf er mjög jákvæður fyrir því að þessar tillögur sem snerta greiðsluaðlögunina verði skoðaðar.
    Varðandi hitt atriðið þá tel ég ástæðu til þess að ítreka það af því að hv. þm. vitnar í bréf frá félmrn. að við vorum einungis þar að gefa nefndinni upplýsingar um það hvað margir það væru sem ekki gagnaðist sú reglugerð sem sett var í október 1993. Við vorum engar upplýsingar að gefa um það hve margir nytu góðs af þessu ákvæði sem við erum nú að fjalla um vegna þess að það er enginn sem veit það. Fyrir þann hóp sem hefur verið hafnað og getur ekki nýtt sér þessa reglugerð mun þetta ákvæði væntanlega nýtast. En hvað verður á næstu mánuðum getur enginn sagt um. Við vorum eingungis að gefa vísbendingu um hvaða kostnaður gæti af þessu hlotist.