Húsnæðisstofnun ríkisins

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 18:53:24 (5608)


[18:53]
     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Ég er að vísa til viðræðna og sjónarmiða sem komu fram hjá fulltrúa félmrn. gagnvart félmn. á fundi nefndarinnar nú nýverið og ég gæti farið í mína minnisbók og flett því upp en mig minnir að það hafi verið 1. mars sem sá fundur var.
    Það kom mér mjög á óvart hversu sjónarmið ráðuneytisins virtust vera andsnúin hugmyndum um greiðsluaðlögun því að ég taldi að svo væri ekki og ekki væri ástæða til og minni á að m.a. hafði fulltrúi Neytendasamtakanna lagt töluverða áherslu á að nefndin kynnti sér þessi sjónarmið um greiðsluaðlögun og ég tel að við ættum að gera það. Ég tel að hv. Alþingi ætti núna áður en þingi lýkur í vor að vera búið að afgreiða frá sér einhvers konar löggjöf af þessu tagi af því að vandinn er svo stór eins og ég rakti í minni ræðu hér áðan um vanskilin.
    En hvað varðar túlkun á þessu frestunarákvæði, þá fagna ég því í sjálfu sér ef menn útvíkka túlkunina og telja að frestunarákvæðið í brtt. nái til fleiri manna og stærri hóps en fyrri gögn og þau gögn sem liggja fyrir benda til. Ég ætla ekkert að andamæla því. En ég dreg mínar ályktanir út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir og því sem þeir segja sjálfir og þá er það þannig að þetta frestunarákvæði er skilgreint af hálfu ráðuneytanna fyrir þann hóp sem ekki fær skuldbreytingu samkvæmt reglugerðinni. Það er tímabundinn lánaflokkur og í hann á einungis að verja 300 millj. kr. en fulltrúi fjmrn. giskaði á að það þyrfti um 50--100 millj. í þetta verkefni. Það er mjög lítil upphæð miðað við hinn stóra vanda og háu fjárhæðir sem eru í vanskilum.