Þjóðminjalög

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 11:06:15 (5624)


[11:06]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Núgildandi þjóðminjalög sem lögfest voru árið 1989 áttu sér allsérkennilega sögu. Fyrrv. hæstv. menntmrh., Birgir Ísl. Gunnarsson, skipaði 19. nóv. 1987 nefnd sem skyldi skila þremur verkefnum til viðreisnar Þjóðminjasafni Íslands. Nefndin skyldi semja ný þjóðminjalög, hún skyldi móta stefnu í málefnum safnsins til næstu aldamóta og hún skyldi gera áætlun um endurbætur á húsakosti safnsins. Nefndina skipuðu alþingismennirnir Guðmundur G. Þórarinsson, Guðrún Helgadóttir, Kjartan Jóhannsson og Sverrir Hermannsson, en Þór Magnússon þjóðminjavörður, Bryndís Sverrisdóttir safnkennari og Lilja Árnadóttir safnvörður ásamt Þórunni Hafstein, lögfræðingi menntmrn., unnu með nefndinni og formaður hennar var þáv. hv. þm. Sverrir Hermannsson.
    Frv. til þjóðminjalaga var lagt fram í apríl 1987 og vísað til hv. menntmn. Þangað bárust fjölmargar umsagnir, en lengra náði málið ekki á því þingi. Það var því þáv. hæstv. menntmrh., Svavar Gestsson, sem endurskipaði nefndina þegar Sverrir Hermannsson óskaði eftir lausn frá formennsku í nefndinni eftir að hann hvarf af þingi. Þá tók sú sem hér stendur við formennskunni en til liðs við nefndina komu tveir hv. þingmenn, þau Danfríður Skarphéðinsdóttir og Óli Þ. Guðbjartsson. Þessari nýju nefnd var falið að endurskoða lagafrv. með tilliti til þeirra ábendinga sem borist höfðu og halda að öðru leyti áfram við þau verkefni sem hinni fyrri nefnd höfðu verið falin.
    Nefndin endurskoðaði frv. og sendi það til frekari umsagnar til ýmissa aðila og taldi mjög mikilvægt að samkomulag næðist um frv., bæði meðal fræðimanna og þingmanna svo að það gæti að lögum orðið á þinginu 1989. Eitt meginefni þess frv. var að gert var ráð fyrir að fimm manna þjóðminjaráð færi með yfirstjórn þjóðminjavörslu í landinu og var þá átt við alla þætti þjóðminjavörslunnar, svo sem fornleifarannsóknir, húsavernd, þjóðháttarannsóknir, sjóvinnuminjar, tækni- og atvinnuminjar og hvaðeina er lýtur að vörslu þjóðminja og gert var ráð fyrir að þjóðminjaráð yrði jafnframt stjórnarnefnd Þjóðminjasafnsins.
    Við gerð frv. varð nokkur umræða um það hvort aðskilja skyldi þjóðminjavörslu og fornleifarannsóknir en sá háttur er hafður á í nokkrum nærliggjandi löndum. Nefndarmenn komust að þeirri niðurstöðu að svo fámenn þjóð þarfnaðist ekki fleiri stofnana til að sinna fornleifarannsóknum og þjóðminjavörslu heldur þyrfti fyrst af öllu aukin fjárframlög og meiri mannafla. Nefndin varð því sammála um að því fé sem til þjóðminjavörslu og fornleifarannsókna fengist væri betur varið til vinnu sérfræðinga en til stjórnunarstarfa og skrifstofukostnaðar.
    Þegar málið kom til umfjöllunar þingsins brá svo við að mikil aðför upphófst að þessari skoðun og áttu þar í hlut örfáir einstaklingar sem þótti hag sínum ekki nægilega vel borgið með þessu fyrirkomulagi. Og svo ólukkulega vildi til að það tókst að snúa stórum hluta þingmanna í þessu máli og á endanum varð nefndin að taka þann kost til að málið dagaði ekki uppi að samþykkja málamiðlunarbreytingartillögu þar sem tveim ráðum var falið að stjórna stofnuninni, annars vegar þjóðminjaráði og hins vegar fornleifaráði. Það er mér því mikið ánægjuefni að nú skuli menn hafa séð hversu óheppilegt þetta var því að nú er lögð fram tillaga um að breyta þessu í það horf sem nefndin hafði kosið.
    Ég tel að ein merkasta breyting í þessu frv. sé sú sem varðar I. kafla laganna um stjórn og skipulag þjóðminjavörslu, svo og II. kafla um Þjóðminjasafn Íslands og byggðasöfn, að nú er horfið aftur að því að þjóðminjaráð annist yfirstjórn stofnunarinnar. Sú tvískipting sem hefur verið á stjórn þjóðminjavörslunnar er hér með afnumin og fornleifanefnd einungis falið hið faglega eftirlit eða hin faglega stjórnun en yfirstjórn stofnunarinnar verði í höndum þjóðminjaráðs. Þetta held ég að sé tvímælalaust til bóta enda hefur reynslan sýnt að hitt fyrirkomulagið gekk hreinlega ekki.
    Ég mun því styðja þetta frv. Ég tel flest þau atriði sem hér er breytt vera til mikilla bóta. Vegna athugasemda hv. 4. þm. Austurl. áðan má vel vera að hann hafi nokkuð til síns máls enda gjörkunnugur þessum málum og átti raunar mikinn þátt í að leiðbeina nefndinni sem samdi frv. á sínum tíma. Því vil ég ítreka það að ég tel rétt að skoða það. Ég hafði hins vegar skilið þessa brtt. um minjasvæðin svo að breytingin fælist fyrst og fremst í því að ekki yrði lögbundið að á hverju minjasvæði starfi einn minjavörður og einn fornleifavörður. Ég taldi þetta einfaldlega breytingu sem væri gerð til þess að inni í lögum væri ekki eitthvað sem næstum ógerlegt væri að framkvæma. Þannig skildi ég brtt. En hafi ég misskilið hana þá bið ég hv. menntmn. að huga að athugasemdum hv. 4. þm. Austurl.

    Það mætti segja margt um Þjóðminjasafn Íslands, þessa stofnun sem okkur ætti öllum að vera kær, en sannleikurinn er nú sá að fyrir henni hefur farið eins og ýmsum öðrum merkustu stofnunum þessa lands að húsakynnin hafa verið látin drabbast niður og ég hef margsinnis haft orð á því hér að mér er óskiljanlegt hvernig það má vera að þessar örfáu stofnanir sem hýsa mest gersemi þjóðarinnar, list og menningu, skuli hafa verið undir svo slaklegu eftirliti þess embættis sem á að fylgjast með þeim málum lögum samkvæmt, en það er auðvitað embætti húsameistara ríkisins. Það hlýtur að sæta undrun hvernig þessi hús hafa verið látin drabbast án þess að að væri gert og ég held ekki að það sé endilega vegna þess að hv. alþm. vilji ekki að þessar stofnanir séu í góðu ásigkomulagi, það held ég að sé alrangt. Það er því sorglegt til að vita að afleiðingar þessa hafa orðið stórtjón á eignum Þjóðminjasafnsins og minnast menn þá stórbruna sem varð á bátaeign safnsins og það er auðvitað skylda okkar að sjá til þess að til slíks megi aldrei aftur koma.
    Ég held ekki að ég geri fleiri athugasemdir við frv. Ég sé ekki annað en að það sé til bóta og ég vona að það verði til þess að betri vinnufriður verði í safninu og skýrar verði afmarkað hvað hver á að gera. Ég hef heyrt athugasemdir um að menn séu íhaldssamir í þeirri skoðun að halda lögbundinni deildaskiptingu. Sú er hins vegar skoðun mín að svo stórar stofnanir og stofnanir með svo mikilvæg verkefni eigi sem allra mest að skipa þeim málum sjálfar undir stjórn þeirra ráða sem fara með umsjón þeirra. Ég mun því ekki gera athugasemd við það en ég ítreka að hafi ég misskilið athugasemd hv. 4. þm. Austurl. þá bið ég velvirðingar á því en við höfum alla vega ekki lesið þessa brtt. eins, heyri ég. --- Nú sé ég að hv. 4. þm. Austurl. er kominn í salinn og ég lýsti því yfir áðan að ég hefði skilið brtt. sem hv. þm. gerði athugasemd við í þá veru að fyrst og fremst væri verið að taka úr lögum ákvæði sem væru illframkvæmanleg, að það væri lögbundið að hafa bæði fornminjavörð, eins og það er orðað í hinum fyrri lögum, að það starfi bæði einn fornminjavörður og einn fornleifavörður á hverju minjasvæði. Ég hafði einfaldlega skilið þetta þannig að það væri verið að sameina þetta tvennt í eitt embætti. Ég lýsti því jafnframt að hv. 4. þm. Austurl. væri öllum mönnum fróðari um þjóðminjalög þar sem hann hefði átt mikinn þátt í að semja þau með nefndinni og ég vildi því aðeins lýsa því yfir að rétt væri að taka athugasemdir hans til greina.
    Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa borið fram þetta frv. um breytingu á þjóðminjalögum. Ég held að frv. sé af hinu góða og mun styðja það.