Þjóðminjalög

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 11:58:33 (5628)


[11:58]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér höfum við til umfjöllunar málaflokk sem er áhugaverður, þjóðminjavarslan í landinu. Er það nú nánast orðið daglegt brauð á hæstv. Alþingi að ræða um okkar menningarverðmæti og menningarmálefni. Það er kannski ástæða til að fagna því. Maður veltir því stundum fyrir sér hvað það er sem gerir þjóð að þjóð. Ég er þeirrar skoðunar að eitt af því sem á mjög mikinn þátt í því sé sameiginlegur uppruni, sameiginleg saga og sameiginleg menningarleg verðmæti og það skipti því miklu máli hvernig staðið er að vörslu þeirra.
    Einnig má nefna að þetta er ekki bara spurning um sögu og menningarleg verðmæti og það að þjóð sé þjóð heldur er þetta líka fyrir þá sem sjá kannski hlutina meira í veraldlegu ljósi, þá skapar þetta atvinnumöguleika og er orðið mjög drjúgur þáttur í okkar ferðamannaþjónustu.
    Þau lög sem hér er verið að endurskoða vöktu í sjálfu sér nokkuð miklar vonir en hins vegar hefur sýnt sig að það stjórnkerfi sem þar var lagt af stað með reyndist nokkuð gallað og ekki gott. Það er kannski út af fyrir sig vegna þess sem hér hefur komið fram að þau lög eru byggð á tveimur frv. sem steypt var saman og úr þessu varð held ég hálfgerður bastarður. Ég er því alveg eindregið þeirrar skoðunar að það hafi þurft að taka þarna á stjórnkerfinu og það er reynt að gera með þessu frv. þó eflaust megi deila um það hvort hér sé lögð til sú eina rétta leið. Þetta er möguleiki sem við þurfum eflaust að velta betur fyrir okkur í hv. menntmn. Ég vil að svo stöddu ekki hafa fleiri orð um það en tel að þetta sé ekki verra en hvað annað.
    Endurskoðunin á lögunum núna er í sjálfu sér lögbundin. Ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra: Er þetta hin lögbundna heildarendurskoðun sem lögð er fram í frv.? Á að skilja þetta þannig?
    Þjóðminjavörðurinn er sem sagt gerður að forstöðumanni allrar starfsemi Þjóðminjasafns Íslands. Það held ég að sé í sjálfu sér nauðsynlegt. En það sem mér finnst athyglisvert hér, og er kannski ekkert nema gott um að segja, er að það er lagt til að þær stöður sem kveðið var á um í lögunum um bæði fornleifaverði og minjaverði er steypt saman í eina stöðu og að þau ákvæði taki gildi ekki síðar en árið 1997. Ef þetta verður til þess að meiri líkur séu á því að eitthvað verði úr framkvæmdum hvað varðar þennan þátt mála þá lýsi ég stuðningi við þetta ákvæði. Það hafa verið bundnar miklar vonir við þessar nýju stöður minjavarða út á landi alla vega --- það er óskilgreint á hversu stórum svæðum þeir eiga að starfa. En þetta er mjög mikilvægt atriði sem snertir okkar þjóðminjavörslu.
    Það sem vekur athygli mína og ég vil nefna hér er að það er hugmynd um að hafa allt annað fyrirkomulag í Reykjavík heldur en annars staðar á landinu. Annars staðar á landinu eiga minjaverðir að starfa sem ríkisstarfsmenn, vera starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands en í Reykjavík er meiningin að borgarminjavörður gegni þessu hlutverki og sé sennilega ráðinn til lífstíðar á meðan aðrir minjaverðir eru ráðnir til fimm ára. Er þetta hægt? Þarf ekki að vera samræmi þarna á milli? Þetta kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir. En það er nú stundum með Reykjavíkurborg að hún nýtur nokkurrar sérstöðu í okkar þjóðfélagi. Það er stundum eins og það gildi ekki almenn lög yfir höfuðborgina. Finnst mér þetta vera eitt dæmið um það.
    Svo er annað ákvæði sem mér finnst að þarfnist frekari útfærslu og velti fyrir mér hvernig er hugsað. Ég skil hvað átt er við en ég held að það þyrfti alla vega að útfæra frekar og það er þetta með að forstöðumanni byggðasafns sé heimilt að gegna hlutverki minjavarðar samkvæmt sérstökum samningi. Nú eru forstöðumenn byggðasafna ráðnir af eigendum safnanna og eignaraðilar hljóta að þurfa að koma inn í þá samningagerð og ekki bara viðkomandi starfsmaður.
    Tvískiptingin á stjórn þjóðminjavörslunnar er afnumin en þess í stað skipuð fornleifanefnd sem veitir leyfi til rannsókna. Það hefur orðið nokkuð að umræðuefni í dag að það fyrirkomulag sem nú er í gildi

sé ekki nógu gott í framkvæmd. Þar er ég alveg sammála. Ég held að þarna sé verið að brydda upp á nýjungum sem ættu að geta leitt af sér skilvirkara stjórnkerfi.
    Í lögunum er fellt brott ákvæði um deildaskiptingu Þjóðminjasafns. Í sambandi við það langar mig að nefna eitt mál sem ég veit að hæstv. menntmrh. er vel kunnugt um. Það er að setja hugsanlega upp verksmiðjuminjasafn Íslands á Akureyri. Hæstv. ráðherra hefur þegar veitt styrk til þess að það mál sé kannað og vil ég þakka það. Það er verið að kanna möguleika á að þetta geti átt sér stað. Sannleikurinn er sá að iðnaðarþætti okkar atvinnulífs hefur ekki verið sinnt sem skyldi og Akureyri er óneitanlega mikill iðnaðarbær, eða sérstaklega var mikill iðnaðarbær, það eru nú því miður miklir erfiðleikar í iðnaðarfyrirtækjum í dag, og þar eru geysileg verðmæti til í tækjum. Ég sé það þannig fyrir mér að með því að fella brott úr lögunum ákvæði um deildaskiptingu þá sé verið að opna ýmsa möguleika fyrir þjóðminjaráð að taka á málum sem þessum en ekki þurfi lagabreytingu til til að stofna nýja deild. Það tel ég vera af hinu góða að þarna hafi þjóðminjaráð ákveðið svigrúm. Um þetta Akureyrarsafn ætla ég í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð en vil að það komi fram að að þessu er unnið.
    Byggðasöfnin eru mér mjög hugleikin. Til að geta talist byggðasafn þurfa viðkomandi söfn að hafa fengið viðurkenningu þjóðminjaráðs og hafa sett sér stofnskrá sem menntmrn. samþykkir. Mér sýnist að þarna sé verið að koma á ákveðnu skipulagi sem eigi að vera einfalt og skilvirkt. En það er hins vegar ekkert um það í sjálfu sér hvaða áhersla er á fjölda byggðasafna. Hvort hugmyndin er að byggðasöfnin séu einhvers konar miðsöfn og svo önnur sem starfi í tengslum við viðkomandi miðsöfn. Mér finnst að það megi hugsa sér það fyrirkomulag en ég get ekki séð að þetta frv. gefi það neitt í skyn að endilega eigi að vera bara eitt byggðasafn á svæði hvers minjavarðar eða neitt slíkt.
    Það er einnig nefnt að byggðasöfn geti sótt um styrki úr ríkissjóði samkvæmt ákveðnum reglum. Það er fyrst og fremst vegna húsnæðismála eins og ég skil þetta. En síðustu árin þá hefur því miður ekki verið í digra sjóði að sækja hvað þetta snertir. Þannig að byggðasöfnin hafa held ég flest hver ekki haft mikið frá ríkinu annað en hálfa stöðu safnvarðar. Sem dæmi get ég nefnt að í minjasafninu á Akureyri er það rétt um 5% af rekstrarfé sem kemur frá menntmrn. sem er náttúrlega ekki mikið en þó er ástæða til að nefna að það er þó nokkurs virði. Í því sambandi nefni ég Nonnasafnið sem er mjög merkilegt safn. Þar hefur verið unnið mikið sjálfboðastarf af konum eins og svo oft áður. Í því tilfelli er það Sontaklúbburinn á Akureyri sem hefur séð um safnið en nú segja þær að þær skorti orðið sérþekkingu til að ráða við þetta verkefni og hafa verið að berjast fyrir því að fá safnið viðurkennt sem byggðasafn sérstaklega til þess að frá ríkinu geti fengist hálf laun starfsmanns.
    Ég ætlast ekki til þess að hæstv. menntmrh. svari því hér og nú hvaða möguleika hann sér þarna en ég vildi engu að síður nefna þetta merkilega safn.
    Í sambandi við minjaverðina --- svo ég komi aftur að þeim þar sem ég lít á það sem mjög mikilvægt mál í þessu máli öllu saman og í sjálfu sér ástæða til að harma að ekki hefur getað orðið neitt úr framkvæmd þess ákvæðis fram að þessu --- þá hljóta þeir að taka við ýmsum verkefnum sem fram að þessu hefur verið sinnt úr Reykjavík, frá Þjóðminjasafninu. Það má t.d. nefna að hafa umsjón með gömlum húsum sem eru í eigu Þjóðminjasafns. Þjóðminjasafnið hefur eftirlit með friðuðum gripum í kirkjum landsins og friðuðum legsteinum og öðru í kirkjugörðum. Ég tel að þessir minjaverðir komi til með að hafa eftirlit með öllu þessu. Með því sparast ferðakostnaður úr Reykjavík sem kemur þá á móti.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá að síðustu að nefna aðeins aftur það sem snertir ferðamannaiðnaðinn. Það eru ótrúlega margir sem sækja söfnin og miklu fleiri en ég hafði gert mér grein fyrir. Ég veit að það var gerð könnun á Austurlandi um það hvað margir ferðamenn heimsæktu söfn og það sýndi sig í þeirri könnun að yfir 40% sóttu söfnin heim á Austurlandi. Þetta er því drýgri þáttur í ferðamannaiðnaði en maður hafði gert sér grein fyrir áður.
    Að allra síðustu vil ég nefna það að ég held að það hafi verið góð nýbreytni í sumar að halda svokallaðan þjóðminjadag. Það varð til þess að fleira fólk heimsótti söfnin og heilu fjölskyldurnar sem er mikilvægt vegna barnanna að þau komi í söfnin. Það leiðir þá af sér meiri áhuga þeirra á okkar sögu og okkar fornminjum.
    Ég sit í hv. menntmn. þar sem við munum væntanlega fá þetta mál til umfjöllunar og ég get sagt eins og fleiri að ég sé að það verður ýmsum vandkvæðum bundið að fá það samþykkt á þessu þingi þar sem nefndin fékk nýlega nokkuð mörg mikilvæg mál en ég er ekki að segja að það sé útilokað á þessu stigi málsins. Alla vega vil ég ekki lýsa því hér yfir að það geti orðið.