Þjóðminjalög

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 12:27:34 (5631)


[12:27]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir ágætar undirtektir við þetta frv. og gagnlegar ábendingar sem ég veit að verða teknar til sérstakrar athugunar við meðferð málsins í hv. menntmn. Hér hafa einstaka þingmenn, einkum hv. þm. Guðrún Helgadóttir og Svavar Gestsson, rifjað upp aðdragandann að lagasetningunni 1989. Það er rétt sem fram hefur komið að með þessu frv. er verið að sýna einmitt hvaða lærdóma við höfum getað dregið af þeirri lagasetningu. Mér er það svo sem vel minnisstætt hvað fór fram í þinginu þegar frv. var til meðferðar. Við eigum þar hlut að máli, bæði núverandi og fyrrverandi menntmrh., hvernig staðið var að þeirri lagasetningu og ég held að þar hafi því miður ekki allt verið sem skyldi. Fyrir það er verið að bæta einmitt núna með þessu frv.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir og raunar fleiri hafa minnst á húsakynni safnsins, að þau hafi verið látin drabbast niður og það er vissulega rétt. Það hefur ekki verið staðið með myndarlegum hætti að viðhaldi hússins, Þjóðminjasafnsins, en nú stendur yfir sérstakt átak, meira heldur en áður hefur verið gert og á þessu ári eru ætlaðar 80 millj. kr. til að lagfæra það sem brýnast er við húsið sjálft. Ég ætla að skjóta því hérna að að þessu gefna tilefni að það hefur verið unnið að tillögugerð um framtíðarskipan húsnæðismála safnsins og ég fékk í hendur í gær skýrslu byggingarnefndar með tillögum um að hverju skuli stefnt og mun í næsta mánuði leggja fyrir ríkisstjórnina tillögur um framtíðarskipan húsnæðismála Þjóðminjasafnsins.
    Það hefur verið rætt nokkuð um minjasvæðin. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði hvort reglur hafi verið settar um þau. Þær hafa verið settar. Það eru til reglur um skiptingu minjasvæða í reglugerð um þjóðminjavörsluna og þar eru minjasvæðin skilgreind.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði hvort það gæti verið eðlilegt að vera sífellt að breyta lögum sem þessum. Það er vissulega vont þegar sífellt er verið að breyta mikilvægum lagabálkum en í þessu tilviki erum við að fullnægja lagaákvæði. Þjóðminjalög átti að endurskoða eigi síðar en að fimm árum liðnum frá gildistöku þeirra eins og segir í 2. mgr. 54. gr. laganna. Löggjafinn gerði sem sagt ráð fyrir að þessi endurskoðun færi fram og það erum við nú að gera.
    Ég sagði hins vegar í framsöguræðu minni í dag: Þess er þó að geta að þjóðminjaráð telur æskilegt að innan tíðar fari fram frekari endurskoðun á þeim köflum laganna sem fjalla um fornminjar og húsafriðun. Það er sá hluti sem var skilinn eftir núna og þarfnast frekari athugunar.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi einnig að það vantaði kannski í lögin hvert skyldi vera meginhlutverk þjóðminjalaganna og hvort ekki væri rétt að kveða nánar á um slíkt og nefndi þar ýmis mikilvæg atriði, að það væri hlutverk að varðveita, rannsaka, sýna og kenna og segja sögu þjóðarinnar og fleira nefndi þingmaðurinn. Þetta eru út af fyrir sig ágætar hugmyndir en það er alltaf vafasamt hversu fast eigi að binda hlutverk stofnana í lög, hversu nákvæmlega eigi að binda hlutverk þeirra í lög. Ég held að í þessu tilviki hafi hlutverk safnsins í sjálfu sér ekki vafist fyrir neinum en þetta eru eins og ég segi út af fyrir sig gagnlegar hugmyndir.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi líka að það hefðu ekki verið veittir nægilegir fjármunir til safnsins og það væri gamaldags, nefndi söfn erlendis eins og safnið á Álandseyjum og danska þjóðminjasafnið, sem þingmaðurinn benti mér á að ég hefði gott af að skoða. Það vill nú svo til að ég hef skoðað það og veit að staðið var að endurbótum safnsins með mjög myndarlegum hætti. Ef ég man rétt þá vörðu Danir um 3 milljörðum ísl. kr. til endurbóta á sínu þjóðminjasafni. Þar var eins og ég sagði mjög svo myndarlega staðið að verki.
    Hins vegar er stöðugt verið að þróa starfsemi Þjóðminjasafnsins, sérstaklega sýningarstarf þess, og það hefur reyndar verið nokkuð nefnt. Sýningin í fyrra, afmælissýningin, var gott dæmi um það sem margir skoðuðu.
    Í lok síðasta árs var einnig gerð merkileg markaðsúttekt á sýningarsölum safnsins en til þess verks fékk safnið styrk af sérstöku hagræðingarfé frá ríkisstjórninni.
    Deildaskipting safnsins hefur komið nokkuð til umræðu. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að aðeins örfáar stofnanir ef þá nokkrar hafa deildaskiptingu lögbundna. Ástæðan fyrir því að afnema lögbindingu deilda er að gera stofnuninni í þessu tilviki kleift að bregðast við ef breytinga er þörf af einhverjum ástæðum vegna breyttra áherslna eða af slíku. Þess vegna held ég að það sé rétt að vera ekki með þetta of bundið.
    Um skipan þjóðminjavarðar hefur líka verið rætt hér, bæði af hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur og einnig hv. þm. Svavari Gestssyni. Hæfiskröfur til þjóðminjavarðar eru svo sem ekki mjög stríðar. Í gildandi lögum segir: ,,Að öðru jöfnu skal ráðinn maður með sérfræðilega menntun í menningarsögu.`` Í þessu frv. er þetta óbreytt en bætt við ,,og reynslu af stjórnunarstörfum``. Út úr þessum orðum las hv. þm. Svavar Gestsson að það væri verið að réttlæta setningu Guðmundar Magnússonar í stöðu þjóðminjavarðar á sínum tíma. Það þarf nú meira en lítið hugmyndaflug til þess að koma með svona rugl í ræðustól á Alþingi. Það sem er verið að gera með frv. og varðar stöðu þjóðminjavarðar er að skýra og styrkja stöðu hans fremur en er í gildandi lögum og sérfræðilegar kröfur eru ekki veiktar eins og hv. þm. Svavar Gestsson sagði. Það er nú aldeilis ekki. Ef eitthvað er þá eru gerðar meiri kröfur með því að krefjast reynslu af stjórnunarstörfum. Og þetta á svo að vera til þess að réttlæta það að ég setti Guðmund Magnússon í stöðu þjóðminjavarðar á sínum tíma. Já, menn eru sumir músíkalskir, það kemur í ljós í þessu tilviki.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi í síðari ræðu sinni kirkjur og kirkjugripi og það gerði raunar einnig hv. þm. Hjálmar Jónsson. Um þau atriði er fjallað sérstaklega í IV. kafla gildandi þjóðminjalaga.
    Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi það að honum þætti kannski fulllangt gengið í að tína fjaðrirnar af fornleifanefndinni þó ég skildi orð hans svo að hann væri í meginatriðum sammála því sem segir í 2. gr. frv. þar sem fjallað er um 3. gr. laganna og taldi að fornleifanefnd ætti að gefa áfram út fornleifaskrá. Það er Þjóðminjasafn Íslands sem gefur fornleifaskrána út eins og segir í 2. mgr. 18. gr. frv. Það var áður fornleifadeildin en ekki fornleifanefndin. Ég sé sem sagt ekki að með þessu sé neitt verið að reyta fjaðrirnar af fornleifanefndinni.
    Það er svo margt sem ég þyrfti að nefna hér en það sneyðist um tímann sé ég. Ég þarf því að fara fljótt yfir sögu. Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi það að hann sæi ekki nauðsyn þess að sá fulltrúi sem ráðherra skipar án tilnefningar þurfi endilega að vera formaður nefndarinnar. Mér finnst vel koma til greina að athuga það frekar. Ég get verið sammála því að þetta sé ekki endilega nauðsynlegt og að það dugi að ráðherra skipi formann úr hópi þeirra sem skipa þjóðminjaráð.
    Einnig hefur verið nefnt að fulltrúi starfsmanna er tekinn út. Ég held að það sé fremur í samræmi við nútímastjórnun, boðleiðir og skipulag eru skýrðar í frv. og það er ekkert endilega eðlilegt að starfsmenn séu með þessum hætti yfirmenn yfirmanns síns, eins og stundum hefur verið nefnt. Þetta þekkist á fleiri sviðum heldur en í gildandi þjóðminjalögum. Það er hins vegar réttmætt að þeir eigi fulltrúa á fundum þjóðminjaráðs.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttur spurði hvort verið væri að sinna þessari lögbundnu heildarendurskoðun. Ég er búinn að svara því varðandi fornminjaþáttinn.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nefndi líka þann mun sem væri gerður á minjavörðum og borgarminjaverði. Þar væri um sérstöðu Reykjavíkurborgar að ræða. Ég bendi á að þetta er óbreytt frá gildandi lögum, lögunum frá 1989. Ég kann svo sem ekki alveg að rekja ástæðuna fyrir þessu en mér þykir ekki ólíklegt að það hafi verið kveðið á um að borgarminjavörður færi með menningarvörslu í Reykjavík. Líklega er ástæðan sú að þetta embætti var til í Reykjavík en ekki annars staðar. Ég bendi á í þessu samhengi að með frv. er gert ráð fyrir að það sé heimilt að ráða minjaverði úti í héruðunum. Heimilt er þó að fela forstöðumanni byggðasafns að gegna hlutverki minjavarðar á viðkomandi minjasvæði samkvæmt sérstökum starfssamningi. Það er því kannski verið að teygja sig í þá áttina sem gildir í Reykjavík.

    Um söfnin á Akureyri, sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nefndi, hef ég svo sem ekki miklu við að bæta. Ráðuneytið hefur styrkt tilraunina til að koma á verksmiðjuminjasafni á Akureyri. Það þarf hins vegar að verða í samvinnu við minjasafnið ef það á að verða að safni.
    Það er margt fleira sem ég hefði svo sem þurft að koma að en tími minn er úti og ég vona að ég hafi svarað helstu atriðum sem hafa komið fram í máli hv. þm. Ég ítreka þakkir mínar fyrir góðar undirtektir. Það verður að sjálfsögðu að ráðast svo af þeim tíma sem hv. menntmn. hefur til umráða hvort þetta mál nær afgreiðslu á þessu þingi sem ég vona þó að geti orðið.