Kennaraháskóli Íslands

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 12:46:53 (5633)


[12:46]
     Frsm. minni hluta menntmn. (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 812 um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands. Nál. er frá minni hluta menntmn.
    ,,Frv. það sem hér liggur fyrir hefur fyrst og fremst þann tilgang að fresta því enn að tekið verði upp fjögurra ára kennaranám. Auk þess felast í frv. nokkur smærri atriði sem flokka má undir almennar lagfæringar á gildandi lögum. Þar er gert ráð fyrir að samræma nokkuð lög um Kennaraháskólann og lögin um Háskóla Íslands. Minni hlutinn styður þessar lagfæringar en ekki ákvæði til bráðabirgða sem snertir frestun á gildistöku 13. gr. laganna um Kennaraháskóla Íslands. Með samþykkt frv., eins og það liggur fyrir, er því frestað enn í fjögur ár að taka um það ákvörðun hvort nám í Kennaraháskóla Íslands skuli skipuleggja sem fjögurra ára nám, eins og kveðið er á um í 13. gr. núgildandi laga, eða að námið taki alls þrjú ár. Ákvæði um fjögurra ára nám átti samkvæmt lögum um Kennaraháskóla Íslands, nr. 29/1988, að

koma til framkvæmda innan sex ára frá gildistöku laganna, þ.e. í síðasta lagi árið 1994.
    Í tíð síðustu ríkisstjórnar var tekin ákvörðun um það af fyrrverandi menntamálaráðherra að fjögurra ára nám við skólann hæfist haustið 1991 og var lögð mikil vinna í að skipuleggja slíkt nám. Núverandi menntamálaráðherra tók síðan ákvörðun um það að skólinn skyldi starfa áfram á þriggja ára grundvelli og var skólanum tilkynnt það með þriggja vikna fyrirvara. Þetta gerði skólanum mjög erfitt fyrir og var þá gripið til þess ráðs að þvinga nýskipulagt fjögurra ára nám inn á þrjú ár til bráðabirgða.
    Með bréfi, dags. 27. okt. sl., tilkynnti menntamálaráðherra skólanum á ný að því yrði frestað að taka upp fjögurra ára nám og er nú verið að semja nýja kennsluskrá fyrir þriggja ára nám á grundvelli námsskrár sem samin var fyrir fjögurra ára nám.
    Það kom m.a. fram í máli Þóris Ólafssonar, rektors við Kennaraháskólann, að starfsfólk skólans reiknar með að fjögurra ára nám verði tekið upp við skólann þótt enn verði á því einhver bið, en það sé fyrst og fremst pólitísk ákvörðun hvenær það verði gert. Þá kom enn fremur fram hjá rektor að víðast í Vestur-Evrópu tekur kennaranám fjögur ár, þar á meðal á Norðurlöndum.
    Skólinn býr við mjög þröngan húsakost og kom fram í máli rektors að mikil þörf er fyrir meira húsnæði hvort sem skólinn verður áfram þriggja ára skóli eða verður gerður að fjögurra ára skóla, t.d. vantar algjörlega fyrirlestrarsali.
    Þegar þáverandi menntamálaráðherra, Birgir Ísl. Gunnarsson, mælti fyrir frv. til laga um Kennaraháskóla Íslands í efri deild Alþingis 12. apríl 1988 sagði hann m.a.:
    ,,Fjórða meginnýmæli frv. er lenging kennaranáms. Gert er ráð fyrir því í þessu frv. að almennt kennaranám verði lengt og taki fjögur ár. Jafnframt verði tekið upp námseiningakerfi þar sem ein eining jafngildir námsvinnu einnar viku. Námseiningar í almennu kennaranámi verði því 120.
    Mörg rök hníga að því að æskilegt sé að lengja grunnnámið. Undirstöðuþekking verðandi grunnskólakennara er treyst til muna og þar með lagður vandaðri grunnur að starfi þeirra, endurmenntun og framhaldsnámi. Svigrúm gefst fyrir ný áhersluatriði, svo sem á sviði upplýsingatækni. Unnt er að koma við nokkurri sérhæfingu kennaraefna, bæði með tilliti til aldurs nemenda og tiltekinna námsgreina eða greinasviða. Æfingakennsla og önnur störf á vettvangi grunnskólans verða aukin verulega, m.a. með væntanlegri kandídatsönn, og með því móti treyst tengslin milli fræðilegs náms og starfs á vettvangi.
    Námstími kennaraefna á grunnskólastigi og á framhaldsskólastigi verður hinn sami. Þar með er kennaranámið jafngilt að umfangi fyrir bæði skólastig. Fyrir því eru þær forsendur að kennsla ungra nemenda er ekki síður vandasamt starf en kennsla þeirra sem eldri eru. Uppeldisleg ábyrgð vegur þar þungt ekki síður en þekking á kennslugreinum. Einnig er þessi skipan líkleg til að stuðla að heildstæðni kennarastéttar hvað varðar ábyrgð í starfi, þjóðfélagsstöðu, kjör og kosti á frama í námi og starfi.
    Gert er ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði við þetta frv. að lenging námsins komi til innan sex ára, gæti orðið fyrr, og er það gert til þess að Kennaraháskólanum gefist nægilegt ráðrúm til að aðlaga sig þessari lengingu námsins.``
    Í framsöguræðu menntamálaráðherra kom fram þegar hann mælti fyrir frv. því sem hér er til umfjöllunar að hann vildi bíða eftir niðurstöðu nefndar sem hann skipaði í febrúar 1993 og á að undirbúa rammalöggjöf um kennaramenntun í landinu. Sú nefnd fjallar m.a. um lengd kennaranámsins.
    Minni hlutinn telur að eðlilegt hefði verið að skoða þessi mál í samhengi þar sem nefndarálit er væntanlegt frá nefndinni eigi síðar en í lok apríl eða í byrjun maí.
    Minni hlutinn telur það mjög alvarlegt fyrir framþróun skólastarfs í Kennaraháskóla Íslands að skólinn þurfi næstu fjögur árin að búa við óvissu hvað varðar lengd kennaranámsins og er því andvígur 7. gr. frv.
    Við umræður um málið í nefndinni kom fram að kennarasamtökin höfðu ekki séð frv. áður en það var lagt fram og ekkert samráð virðist vera haft við þau á undirbúningsstigi málsins. Virðist sambandsleysi við kennarasamtökin vera stefna ráðuneytisins eins og nú háttar til.``
    Undir þetta nál. rita auk þeirrar sem hér stendur, Kristín Ástgeirsdóttir, Svavar Gestsson og Pétur Bjarnason.