Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 13:45:33 (5636)


[13:45]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Flugmál eru mjög mikilvægur þáttur samgöngumála hérlendis, bæði milli landa og ekki síður innanlandsflugið, en að sjálfsögðu er misjafnt hvað það snertir hina ýmsu landshluta með beinum hætti.
    Ég vil fyrst þakka fyrir þær upplýsingar sem koma fram í þessari áætlun. Hún er mjög skilmerkilega upp sett og felur í sér mikinn fróðleik um þróun flugsins á undanförnum árum. En ég ætla hér að víkja að nokkrum atriðum í áætluninni.
    Fólkið í þeim landshluta sem ég er fulltrúi fyrir á Alþingi á kannski meira undir fluginu heldur en ýmsir aðrir þó Vestfirðingar séu vissulega sama marki brenndir og Norðurland eystra. En flugið á Austurlandi hefur afar mikla þýðingu fyrir þann landshluta og ég mun aðeins koma að því síðar.
    Það má segja að það hafi orðið þáttaskil í flugmálum hér á landi þegar flugmálaáætlun kom til sögunnar, en það var á árinu 1987 eins og kemur fram í áætluninni, og fyrsta fjögurra ára áætlunin var samþykkt árið 1988. Ég hygg að allir muni það sem tóku þátt í þingstörfum á þeim tíma að þetta gjörbreytti uppbyggingu í flugmálum hér á landi og í þessum málaflokki hefur verið unnið afar mikið á undanförnum árum. Ég vil undirstrika það. Þeir sem hafa verið við völd --- og er ég ekki að undanskilja neinn í því --- hafa unnið vel að þeim verkefnum. En það er rétt sem kemur fram í flugmálaáætluninni að þróunin er mjög hröð á þessum sviðum og aðstæður hafa breyst og mikilvægi einstakra flugvalla minnkað með breyttum samgöngum, bæði innan fjórðunga og utan. Það hafa orðið miklar breytingar í þróun áætlunarflugs milli einstakra landsvæða og má rekja það m.a. til vaxandi samkeppni bílsins við flugið með batnandi samgöngum og flugrekstraraðilar eiga í kröppum dansi af þeim sökum.
    Framtíð áætlunarflugsins er efni í aðra umræðu og væri vert að velta henni fyrir sér en flugmálaáætlunin fjallar fyrst og fremst um útbúnað og uppbyggingu flugvalla og ég ætla að halda mig við þann þáttinn.
    Flugmálaáætlun er frábrugðin vegáætlun í veigamiklum atriðum. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að skipta flugmálaáætlun og njörva hana niður eftir landshlutum eftir einhverri skiptireglu eins og gert er í vegáætlun. Þingmenn kjördæmanna koma því að þessu máli með allt öðrum hætti heldur en í vegáætlun og er ekki það formlega samband sem er í sambandi við vegina. Eigi að síður höfum við þingmenn Austurlands haft gott samband við Flugmálastjórn um þessi mál vegna mikilvægis þeirra fyrir okkur. Við áttum fund á undirbúningsstigi með flugmálastjóra og skrifstofustjóra Flugmálastjórnar þar sem við ræddum ýmis málefni Austurlands en þessi samskipti eru ekki með neinum formlegum hætti eins og í vegáætluninni.
    Það er svo í þessari flugmálaáætlun að hún sýnir vissa stefnubreytingu sem ég ætla að gera að umtalsefni. --- Virðulegi forseti, er ég að verða búinn með tímann?
    ( Forseti (SalÞ) : Hv. þm. á eftir 1 mínútu og 35 sekúndur.)
    Þá spyr ég virðulegan forseta hvað tíminn sé langur.
    ( Forseti (SalÞ) : Hann er 8 mínútur.)
    Þá verð ég að nota seinni tíma minn til þess að víkja að Austurlandi sérstaklega og þeirri stefnumörkun sem er í þessu máli því ég áttaði mig satt að segja ekki á því að hér er um þáltill. að ræða og skammur tími til stefnu. Ég ætla því að gera hér þáttaskil en fá að nota síðari ræðutíma til þess að bæta við örfáum orðum.