Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 13:53:07 (5637)


[13:53]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er verið að fjalla um endurskoðaða flugmálaáætlun. Í greinargerð, sem er fskj. með þáltill., kemur fram í endurskoðaðri flugmálaáætlun frá Flugmálastjórn að árið 1987 hafi verið samþykkt fyrsta flugmálaáætlunin en 1986 hafi verið gerð 10 ára áætlun að frumkvæði hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar og þáv. samgrh. 1987 var síðan samþykkt fjögurra ára þál. um flugmálaáætlun.
    Eins og hér kom fram áðan eru framfarir í þessum málum mjög örar og líklegast eru fjögur ár nægilegur tími til að gera áætlun ef við skoðum þróun í flugmálum þó ekki sé nema 10--15 ár aftur í tímann.
    Ég vil aðeins gera að umtalsefni þau vinnubrögð sem notuð eru við að leggja fram og vinna flugmálaáætlun. Það kom okkur þingmönnum sem sæti eiga í samgn. nokkuð spánskt fyrir sjónir um daginn þegar flugmálaáætlun fyrir næstu fjögur ár birtist í fjölmiðlum og ýmsar yfirlýsingar í framhaldi af því. Sumt af því var síðan borið til baka, m.a. að áætlað væri að leggja niður ákveðna flugvelli á Austurlandi og raunar ekki hægt að sjá að það sé endanlega ákveðið með þessari áætlun.
    Í flugmál fara 393 millj. á hverju ári næstu fjögur ár samkvæmt þessari áætlun og er það byggt á þeim tekjustofnum sem flugmálaáætlun hefur.
    Ég verð að lýsa því hér að mér finnst það mætti vinna flugmálaáætlun í meiri samvinnu við þingmenn. Þó Alþingi kjósi flugráð til þess að skoða þessi mál og um flugmál sé þar fjallað þá tel ég að það væri hægt að vinna þetta þannig að það kæmi á vinnslustigi meira til skoðunar hjá þingmönnum og vil í því sambandi benda á hvernig unnið er að vegáætlun. Vegagerðin vinnur hana í samráði við samgn. og þingmannahópa. Þó að hér sé fjármögnun nokkuð öðruvísi, þá tel ég samt að flugáætlun væri alveg hægt að vinna á sama hátt og það væri til bóta að fleiri kæmu að henni á vinnslustigi.
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram áðan er ekki mjög langur tími til 1. umr. og ég ætla því að koma með nokkrar spurningar. Ráðherra lýsti því áðan að hætt væri við að halda uppi áætlunarflugi til Suðureyrar. Því er ég út af fyrir sig sammála. Það hlýtur að verða eðlilegt að sá völlur verði lagður af þegar nú er stefnt á að samgöngur batni svo mjög með tilkomu jarðganga. Ég vil samt spyrja að því hvort ekki sé fyrirhugað að hann sé hæfur til notkunar í neyðartilvikum þar til sú samgöngubót er komin sem jarðgöngin eru. Hins vegar er mjög eðlilegt að þangað sé ekki áætlunarflug og að það leggist af og allt viðhald á þessum flugvelli þegar fram líða stundir.
    Hæstv. ráðherra nefndi einnig að flug til Flateyrar mundi einnig leggjast af með tilkomu jarðganga. Ég held að það þurfi að skoða það aðeins betur hvort það er fullkomlega eðlilegt. Þar er veðráttan talsvert öðruvísi heldur en á Ísafirði. Það munar oft allmiklu á veðurfari hvort maður er sunnan eða norðan Breiðadalsheiðar og á Flateyri hafa smærri vélar verið notaðar sem oft geta flogið í öðrum veðrum heldur en þær stóru vélar sem notaðar eru til áætlunarflugs til Ísafjarðar og Þingeyrar. Það er kannski spurning hvort það eigi beinlínis að vera stefna að leggja af flugvöllinn á Flateyri þó að Þingeyri og Ísafjörður verði þeir flugvellir sem notaðir verði jöfnum höndum til áætlunarflugs fyrir stærri vélar. Ég vildi heyra skoðun ráðherra á því.
    Í þriðja lagi vil ég spyrja: Hver er munur á þjónustuvöllum og lendingarstöðum í þessari flugmálaáætlun? Hér eru taldir upp nokkrir vellir sem eru taldir vera þjónustuvellir og aðrir lendingarstaðir. Hefur það ekkert verið endurskoðað hverjir falli undir þessar skilgreiningar? Hefur ekki verið tekið inn neitt nýtt frá því sem var áður? Hér er gert ráð fyrir að nokkrir lendingarstaðir falli út af flugmálaáætlun. Ég

hef svo sem ekki neitt sérstakt við það að athuga vegna þess að mér sýnist að ekki í mikilli fjarlægð frá þeim séu aðrir þjónustuvellir eða lendingarstaðir en ég vildi spyrja ráðherra hvort ekki hafi verið fyrirhugað að taka inn einhverja fleiri lendingarstaði eða þjónustuvelli og hver sé munurinn á þeim. Við getum t.d. nefnt það að hér eru lendingarstaðir víða inni á öræfum, á Hveravöllum, í Kerlingafjöllum, við Skálavatn, á Sprengisandi og fleira væri hægt að telja hér upp. En það er t.d. enginn á Hornströndum. Þar er mikil umferð ferðamanna á sumrin og hefur stundum þurft að grípa til ýmissa aðgerða til að koma fólki burt ef slys hafa orðið. Þess vegna vildi ég beina þeirri spurningu til ráðherra því nú veit ég að það er flogið þarna á alla vega tvo staði á Hornströndum, en þeir eru ekki nefndir hér, hvorki sem þjónustuvellir né lendingarstaðir.
    Ég mun e.t.v. taka hér aftur til máls ef mér sýnist ástæða til, en þessi flugmálaáætlun verður að sjálfsögðu skoðuð í hv. samgn. Og þó ég vilji endurtaka að ég gagnrýni að málið skuli ekki hafa komið inn til nefndarinnar á fyrri vinnslustigum þá hef ég að sjálfsögðu aðstæður til að skoða þetta. Ég vil samt að það komi fram að þegar áætlunin var kynnt fyrir okkur í samgn. þá var í raun og veru sagt um leið að það væri tiltölulega litlu eða engu hægt að breyta, þetta væri svo niðurnjörvað.