Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 14:10:22 (5639)


[14:10]
     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég hyggst ekki lengja umræðuna verulega enda hefur hæstv. samgrh. gert grein fyrir þessari flugmálaáætlun. Það hefur komið hér fram og kemur fram í inngangi að þessari flugmálaáætlun að það er ekki lengra um liðið heldur en síðan 1987 að farið var að gera flugmálaáætlun og vinna eftir henni. Það tel ég hafa verið afar þarft og nauðsynlegt og bendi á að ég tel það verðugt verkefni og nauðsynlegt fyrir þingheim að hugleiða hvort ekki bæri og væri skynsamlegt að gera áætlanir á fleiri sviðum heldur en gert er nú til dags, en það eru fyrst og fremst vegáætlun og flugmálaáætlun sem fara hér inn í þingið. Ég tel verðugt verkefni að hugleiða hvort ekki bæri að stefna að slíkri áætlanagerð um byggingar á vegum menntmrn. og ýmsar framkvæmdir á vegum heilbrrn. svo eitthvað sé nefnt. Á sínum tíma var gerð flugmálaáætlun til tíu ára. Þó ekki sé lengra um liðið en þessi sjö ár sem ég nefndi fyrr þá hefur margt breyst á þeim tíma og það er alveg ljóst að samgöngubætur hafa gerst mun hraðar en nokkur hugði á þeim tíma.
    Hér hefur komið fram í þinginu og í fréttum og liggur fyrir, ef ég man rétt, fyrirspurn um það, vegna þeirrar flugmálaáætlunar sem hér liggur fyrir, hvort til standi að leggja niður flugvelli. Það tel ég af og frá. Enginn leggur niður flugvelli. Flugvöllum sem í notkun eru, þó þeir séu ekki á þessari framkvæmdaáætlun, mun auðvitað verða við haldið og notaðir eftir því sem við á. En það er enginn sem leggur niður fugvelli nema þá að skortur verði á farþegum eða skortur á aðilum sem vilja nýta sér þessa flugvelli til þess að stunda áætlunarflug til.
    Ég minntist á það hér á undan að þróunin hefur verið ör í samgöngumálum og því miður hefur það gerst á síðustu árum að ýmsar framkvæmdir hafa verið unnar á sviði flugvallagerðar skömmu áður en mönnum átti að verða ljóst að flug myndi jafnvel leggjast þar af. Þar má nefna t.d. verulegar endurbætur sem unnar voru á flugvellinum í Ólafsfirði og tekinn var í notkun skömmu áður en göngin komu þar í gagnið og áætlunarflugið þangað lagðist af.
    Ég held að við gerð þessarar flugmálaáætlunar hafi verið reynt að huga alla vega að þróun í samgöngum út frá breiðara sjónarhorni heldur en hefur verið gert áður og menn standi kannski nær því að átta sig á breytingum í vegamálum á næstu árum, jafnvel betur heldur en fyrir sjö árum síðan. Flugmálaáætluninni er auðvitað settur nokkur rammi af þeim tekjum sem markaðar eru til flugmála og auðvitað er um áætlun að ræða, en þessi áætlun er gerð eftir bestu vitneskju og þeim bestu spádómum sem menn hafa um þessar mundir.
    Það má segja að megininntakið í framkvæmdum í þessari flugmálaáætlun sé lagning slitlags á hina ýmsu flugvelli og þeir komist þá í betra horf eða endanlegt horf, endanlegt innan gæsalappa því ekkert er endanlegt í þeim efnum. En það hefur til að mynda, svo ég nefni tvo flugvelli, valdið miklum vandkvæðum og þá sérstaklega á Siglufirði og Húsavík, hvað aurbleytu varðar. En það vandamál ætti að verða úr sögunni þegar lokið hefur verið við þær framkvæmdir sem um getur í þessari áætlun. Miklar breytingar eiga sér stað í tækni og breytingar á flugvélum og þannig er að t.d. hvað Húsavíkurflugvöll áhrærir höfðu menn miklar hugmyndir um að byggja þar lengri flugbraut heldur en raunin varð og fram kemur í þessari áætlun. Flugvélakosturinn hefur breyst og menn hafa tekið t.d. hvað Húsavíkurflugvöll áhrærir þá ákvörðun, og það í samráði við heimamenn, að skynsamlegra sé að ljúka lagningu slitlags á flugbraut sem henti í innanlandsflugi og smærri þotum heldur en að lengja völlinn og bíða þess þá lengur að unnt verði að leggja hann slitlagi.
    Það má e.t.v. taka undir þau orð sem hér hafa fallið á undan að það kynni að vera heppilegt að samgn. kæmi fyrr að þessum málum heldur en verið hefur. Ég sé því ekkert til fyrirstöðu að í framtíðinni muni verða gerð grein fyrir flugmálaáætluninni og þeirri stefnu sem þar er mörkuð á vinnslutímanum áður en málið kemur inn í þingið. Ég hygg að slíkt kynni e.t.v. að flýta fyrir því að kynna þeim mönnum sem koma mest að samgöngumálum í þinginu þær hugmyndir sem uppi eru.