Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 14:17:25 (5640)


[14:17]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um mikinn og mjög áríðandi málaflokk sem er vert að

eyða nokkrum tíma í að fjalla um. Því miður er það svo nú og hefur reyndar verið um allt of langt skeið að allt of litlu fjármagni hefur verið varið til þessa málaflokks. Okkur Íslendingum er nauðsynlegt að sinna flugi og uppbyggingu flugvalla og öryggisþátta á miklu meiri og betri hátt heldur en áður hefur verið gert. Því miður er það nú svo enn að ef við lítum yfir sviðið og sjáum hvaða fjármagn það er sem úr er að spila þá mun það duga því miður allt of, allt of skammt. Ef ég sé rétt þá er þetta á þessu ári rétt um 300 millj. og þannig er það út 1995, 1996 og 1997, rétt um 300--350 millj. kr. sem varið er almennt til framkvæmda við flugvelli. Það er vitaskuld allt of, allt of lítið.
    Ef við lítum aðeins til baka þá sjáum við náttúrlega hversu fáránlegt það er í sjálfu sér að á árinu 1992 og 1993 --- þar sem maður þekkir nú kannski hvað best til heima hjá sér, í sínu eigin kjördæmi --- þá var varið til uppbyggingu flugvalla í Norðurlandskjördæmi vestra á árunum 1992 og 1993 samkvæmt áætlun 8,2 millj. kr. Ég sé að hv. fyrrv. þm. kjördæmisins, Eyjólfur Konráð Jónsson, hristir höfuðið og honum líst ekki á blikuna. Ég er ekki hissa á því. Það er auðvitað gjörsamlega óásættanlegt að fjármagn til flugmála í einu kjördæmi skuli vera 8,2 millj. kr., 8,2 millj. kr. sem varið var til flugvalla á tveimur árum í heilu kjördæmi. Og því miður er það svo að við lestur þessarar flugmálaáætlunar þá stendur þetta kjördæmi enn langt, langt á eftir öðrum kjördæmum þar sem flugið vegur eitthvað.
    Ég geri mér grein fyrir því að menn segja að það sé eðlilegt vegna þess að samgöngur hafi svo mjög batnað og þess vegna sé þörfin fyrir flug í þetta kjördæmi minni heldur en annars. En ef við lítum yfir tölurnar þá er það ekki svo. Þá er það ekki svo. Það heldur nokkurn veginn sinni vigt hvað viðkemur flugfarþegum og magni fraktflugs eða vöruflutninga.
    En tíminn líður nú fljótt frá okkur í umræðunni og því miður er það allt of skammur tími sem hér er skammtaður til þess að ræða jafnyfirgripsmikinn málaflokk og hér er. Ég hef auðvitað möguleika á því að ræða þetta mál ítarlegar þegar það kemur til samgn. þar sem ég á sæti. Í vetur hafði ég í tvígang eða þrígang óskað eftir því við formann samgn. að við fengjum að ræða við flugmálayfirvöld og þá sem væru að vinna að þessari áætlun, þeir kæmu á fund nefndarinnar og gerðu okkur grein fyrir störfum sínum, en því miður varð ekki orðið við þeirri ósk minni. Og ég fullyrði það hér og nú að það eitt er aðeins til þess að tefja og auka erfiðleika á því að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi. Mönnum hlýtur að vera ljóst að það eru aðeins örfáir dagar sem eftir lifa af þessu þinghaldi, örfáir starfsdagar eftir þegar þetta mál kemur hér til fyrri umr. Og það er ekki til þess að liðka fyrir afgreiðslu mála að vinna með slíkum þjösnahætti að framgangi mála. Og ég segi það ekki í neinni gagnrýni á flugmálaáætlun sem hér liggur fyrir.
    Við lestur hennar, sem ég hef reynt að fara ítarlega yfir, segi ég það að þetta er vel unnið plagg og á margan hátt mjög ásættanlegt, greinilega sett upp og enginn vandi að átta sig á því hvað þar er að gerast og fyrir það ber auðvitað að þakka.
    En það er ekki von á góðu í því starfi sem fram undan er í samgn. --- og það er ástæða til þess að ég bið hæstv. ráðherra að leggja við hlustirnar --- því að síðast þegar samgn. mætti til fundar þá mætti aðeins varaformaður nefndarinnar, enginn annar stjórnarliði sá ástæðu til að mæta á fund samgn. Og þannig hefur það gengið lengst af í vetur að það hefur verið stjórnarandstaðan sem hefur séð til þess að það hefur verið hægt að þoka málum áleiðis í gegnum þingið. Þarna þurfa að verða breytingar á vinnubrögðum ef menn ætla að ná þessu máli í gegn.
    Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að það fari hér fram ítarleg umræða í nefnd, ekki bara um flugmálaáætlunina sjálfa, það þarf líka að ræða um aðra þætti. Við slítum ekki flugmálaáætlunina eina sér frá öðrum samgönguþáttum í landinu. Þessi umræða þarf öll að fara fram. Hún þarf öll að fara fram. Það er líka hægt að reikna það út að farþegum fækki til ákveðinna staða, en þá þurfum líka að líta á það um leið hvernig þjónustunni við þá velli er háttað, hver úthlutar einkaleyfum til ákveðinna flugvalla og til ákveðinna flugfélaga og hvernig ferðatíðninni er skipað. Hver ræður henni? Er það aðeins sá aðili sem fær úthlutun leyfisins eða eru það heimaaðilar sem fá eitthvað um það að fjalla? Því miður er það ekki svo. Og þessi umræða verður auðvitað að fara fram núna þegar við erum að ræða um þessa skýrslu.
    Ég sé einnig í þessari áætlun að það hefur orðið breyting á flokkun flugvalla. Það skiptir ekki miklu máli og nánast engu máli vegna þess að það hefur aldrei haft áhrif á framkvæmdahraðann í sjálfu sér. Það hefur hins vegar orðið breyting á, eins og hæstv. samgrh. gat hér um. Það segir hér skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í skýrslu flugmálanefndar frá 1986 var reynt að raða flugvöllum annars vegar og verkefnum hins vegar í eina samræmda forgangsröð og var framkvæmdafé hvers árs skipt milli hinna ýmsu framkvæmdaliða og hins vegar hvaða flugvellir skyldu hafa forgang hverju sinni. Þetta fyrirkomulag hefur reynst erfitt í framkvæmd og er því lagt til í þessari áætlun að einungis verði höfð hliðsjón af þessum þáttum.``
    Það er sem sé frekar verið að ræða hér um magn þess sem um vellina fer, ef ég skil þetta rétt. Áður var þetta miðað við, ef ég man rétt og ég held ég viti það rétt, um lengd flugbrauta. Þetta er alveg sjónarmið út af fyrir sig, en þá hljótum við líka að gera kröfu til þess að málið verði allt skoðað í einu. Það er nefnilega hægt, af viðkomandi flugfélögum, að þjóna þessum flugvöllum það illa að þeir verði bara út úr myndinni og það er óásættanlegt. Þess vegna segi ég að þetta mál þarf að skoða í nokkuð víðu samhengi.
    Það væri auðvitað fróðlegt að spyrjast hér aðeins fyrir í sambandi við . . .   (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég er að ljúka máli mínu. Það væri fróðlegt að spyrjast aðeins fyrir um Reykjavíkurflugvöll.

Mönnum verður að vera það ljóst að Reykjavíkurflugvöllur hefur á margan hátt setið eftir og það er alveg bráðnauðsynlegt að á því máli verði tekið. Og ég vil spyrja hæstv. samgrh. hvernig hann hyggist standa að frekari lagfæringu og uppbyggingu á Reykjavíkurflugvelli. Einnig vil ég spyrja hæstv. samgrh. hvað sé að frétta af þeirri undirbúningsvinnu sem er í gangi í sambandi við flugvöll við Dýrafjörð eða við Sveinseyri. Ég sé að það er inn á framkvæmdaröð, en hvað líður rannsóknum á flugvallarstæðinu við Sveinseyri við Þingeyri?