Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 14:45:19 (5643)


[14:45]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er ósköp einfalt, framkvæmdum líður ekki neitt á Sveinseyrarflugvelli eins og ég sagði áðan, málið er í athugun. ( Gripið fram í: Rannsóknum.) Það var nú spurt um framkvæmdir. Ég sagði áðan að málið væri í athugun. Flugmálastjóri, sem hér er í hliðarherbergi, sagði mér að endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir.
    Ég vil líka segja hv. þm. út af því hvort samstarf hafi verið haft við menn í samgn. um þessi mál. Málið var til meðhöndlunar í Flugmálastjórn og í samgrn. Ég man ekki eftir því þessi 20 ár samfleytt sem Framsfl. var í meiri hluta og í stjórnarandstöðu að hann hafi hlaupið með flugmálaáætlun inn í samgn. Ég man ekki eftir því. En á hinn bóginn er mér heldur ekki kunnugt um að hv. þm. hafi leitað eftir því við flugmálastjóra hvort ekki væri rétt að veita upplýsingar um gang þessara mála. Fulltrúar þingflokkanna koma að þessum málum og þess vegna geta þau ekki verið leyndarmál fyrir þinginu þó svo að það hittist þannig á að næststærsti þingflokkurinn, vegna þess að hann samdi af sér, á ekki mann í flugráði.
    Ég vil líka segja að flugmálastjóri hafði samband bæði við bæjarstjórn Sauðárkróks og Siglufjarðar í sambandi við þær framkvæmdir sem þar voru og hef ekki fundið annað en að flugmálastjóri leggi sig fram um að eiga gott samstarf bæði við þingmenn og sveitarstjórnarmenn þegar því er til að dreifa.
    Um samanburðinn vil ég aðeins segja að í upphafi málsins áðan þá sagði hv. þm. að það væri óásættanlegt að aðeins hafi farið 8,2 millj. kr. til flugvalla í Norðurlandskjördæmi vestra sem lægi langt á eftir öðrum kjördæmum. Ég biðst afsökunar ef ég hef haldið að í þessu fælist samanburður og ég skyldi hafa haldið honum áfram og ég skal reyna að verða eftirtektarsamari næst þegar hv. þm. nefnir tölur.