Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 14:53:07 (5648)


[14:53]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Þó að okkur hv. þm. kunni að greina eitthvað á um það hvernig gerð er tillaga um skiptingu til framkvæmda við flugvelli í þessu þskj. sem hér er til umræðu þá vil ég byrja á því að þakka fyrir þær miklu upplýsingar sem eru í þskj. Ég tel að það sé að öðru leyti mjög vel unnið, það er greinargott og hér hefur mikill fróðleikur verið settur niður og hægt að afla sér ýmissa upplýsinga um stöðu mála hvað varðar verkefni og umsvif á einstökum flugvöllum í þessu þskj., till. til þál. um flugmálaáætlun fyrir árin 1994--1997.
    Mig langar hins vegar aðeins að koma inn í þá umræðu sem hér hefur farið fram um vinnubrögð og hvernig staðið hefur verið að gerð þeirrar flugmálaáætlunar sem hér er til umræðu og hressa e.t.v. svolítið upp á minni hæstv. samgrh. og annarra hv. þm. Það er ekki langt síðan að farið var eins með flugmálaáætlun eða framkvæmdir á flugvöllum í meðferð Alþingis og gert er enn í dag með t.d. hafnir og skólamannvirki og ýmsar aðrar framkvæmdir sem Alþingi veitir fjármuni til. Það var fjallað um þessi mál í þáv. hv. fjárveitinganefnd, sem nú heitir að vísu fjárlaganefnd, en fjárveitinganefnd fékk þessi mál til umfjöllunar á nákvæmlega sama hátt og ýmsa aðra framkvæmdamálaflokka í einni upphæð og átti síðan viðræður við forsvarsmenn Flugmálastjórnar og samgrn. um það hvernig málum skyldi háttað og niður raðað. Þingið fékk sem sagt ekki inn til sín áætlun með sama hætti og hér er nú gert.
    Ég er út af fyrir sig ekkert að hafa á móti því að menn taki upp ný vinnubrögð og ég tel að það sé mikilvægt að gera áætlanir í framkvæmdamálum til lengri tíma, til fjögurra ára eða jafnvel tíu eða tólf ára eins og reynt er að gera bæði í þessari flugmálaáætlun og einnig í sambandi við vegamálin og það sé eðlilegt að menn horfi til lengri tíma og að það séu einhverjir aðrir aðilar heldur en nefndir þingsins sem undirbúi slíkar áætlanir. En það er nauðsynlegt, að mínu áliti, að nefndir þingsins fái, hvort heldur það er fjárln. eða samgn., sem mér finnst ekki óeðlilegt að fjalli um þessi mál, hún hefur t.d. fjallað um hafnamálin einnig, að koma að undirbúningi slíkrar áætlunargerðar með einum eða öðrum hætti. Ég ætla ekkert að hafa uppi neinar sérstakar áskoranir á hæstv. ráðherra um það hvernig að því máli sé staðið heldur beini þessu aðeins til hans og minni á það að fjárln., fjárveitinganefnd áður, hafði það hlutverk að undirbúa málið í samvinnu við ráðuneyti og undirstofnanir ráðuneyta hvernig tillögur voru síðan lagðar fyrir

hv. Alþingi.
    Mig langar aðeins að koma að einstökum þáttum í áætluninni eins og framkvæmdir eru hér upp settar og þær tillögur sem hér eru gerðar. Mér sýnist í fljótu bragði þegar maður lítur yfir tillögurnar að hér sé haft að leiðarljósi að ýmiss konar öryggismál sitji í fyrirrúmi og reynt að leggja áherslu á bæði að tækjavæða flugvellina, laga lýsingu og ýmsa slíka öryggisþætti og síðan að setja bundið slitlag á brautirnar, sem kannski er ekki minnsta öryggisatriðið, að búa þær vel út hvað það varðar til þess að samgöngurnar geti verið bæði öruggari og tækjabúnaðurinn fer auðvitað líka miklu betur þar sem slík aðstaða er fyrir hendi eða þannig búið að ganga frá flugbrautunum. Þetta er öryggismál sem mér sýnist vera sett í forgang og gert að áhersluatriði og ég fagna því og tek undir þá stefnu.
    Mig langar aðeins líka að nefna sérstaklega þá þætti sem varða Norðurland og Norðausturland eins og gerð er grein fyrir þessu í greinargerð með flugmálaáætluninni. Þar er m.a. rætt um að óljóst sé hvernig verður með flugsamgöngur á norðaustursvæðinu, frá Kópaskeri til Vopnafjarðar, þegar fram líða stundir og hér er sagt, með leyfi forseta:
    ,,Með bættu þjóðvegakerfi innan svæðisins vaknar sú spurning hvort þörf sé fyrir alla þessa flugvelli eða hvort fullnægjandi sé að einn eða tveir áætlunarflugvellir þjóni þessu svæði í framtíðinni.``
    Nú er það svo því miður að okkur hefur gengið heldur seint að bæta þjóðvegakerfið einmitt á þessu landshorni. Þjóðvegir í Norður-Þingeyjarsýslu hafa setið eftir hjá okkur í uppbyggingu. Þar er lítið um bundið slitlag á vegum svoleiðis að það er enn þá eitthvað í land að við getum líkt þjóðvegakerfinu þar við það sem gerist víða annars staðar. Þess vegna þarf að hafa það í huga við gerð þessarar áætlunar.
    Ég sé að hér er gerð tillaga um að halda áfram að fullgera búnað við flugvöllinn á Þórshöfn en mig langar aðeins að árétta þá spurningu sem kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. áðan um bundið slitlag á flugvöllinn á Þórshöfn sem ráðherra svaraði að vísu áðan að væri ekki hægt að verða við að þessu sinni vegna kostnaðar. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita um hvaða kostnað er að ræða. Nú veit ég að auðvitað kemur það upp í samgn. þegar málið kemur þar til umfjöllunar og verður rætt um málið þar en það hefði verið fróðlegt að heyra það hjá hæstv. ráðherra ef hann veit eða hefur það hjá sér nú hvaða upphæð er þar um að ræða og hvort það er rétt, eins og má skilja á þessari áætlun, að það sé að öðru leyti búið að ganga frá flugbrautinni þannig að hún sé tilbúin til notkunar. Það er ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu í flugbraut á flugvöllinn á Þórshöfn heldur farþegaskýli og tækjageymslu en það er ekki nein tillaga um fjárveitingu til þess að ganga frá flugbrautinni að öðru leyti eða öðrum öryggisþáttum þar og kann að vera að það sé búið nú þegar. En ef eitthvað er eftir þar, t.d. af ónýttum fjárveitingum frá fyrra ári þá er það spurning mín hvort ekki væri hægt að líta á það því það hlýtur að kosta eitthvað að ganga frá flugbrautinni með malarslitlagi sem mætti spara ef farið væri í að ganga frá flugbrautinni endanlega með bundnu slitlagi.
    Þetta hefði ég viljað heyra hjá hæstv. ráðherra ef hann hefur hjá sér upplýsingar um þetta því í kostnaðaráætlun, sem er greint frá síðar í greinargerðinni um Þórshafnarflugvöll, er ekkert rætt um bundið slitlag heldur. Þar er talað um farþegaskýlið og tækjageymsluna sem gerð er tillaga um á þessu fjögurra ára tímabili. Síðan er nefnt flugbrautarljós, aðflugshallaljós og ýmis annar búnaður en slitlag á flugbraut ekki á blaði til lengri tíma litið.
    En annað sem hér er gert ráð fyrir og ég vil lýsa ánægju minni með er að setja bundið slitlag á flugbraut á Húsavík. Það var sannarlega orðið tímabært vegna þess að þar höfum við átt við mikinn vanda að stríða að undanförnu sem hefur haft áhrif á flugáætlanir á Húsavík. Það er aurbleyta, sem hæstv. ráðherra greindi frá áðan, sem hefur aftur og aftur tafið flug eða komið í veg fyrir flug og ég fagna því að hér skuli gerð tillaga um að ráðast í mikla framkvæmd þegar á þessu ári og vonandi að ljúka því verkefni.
    Hæstv. forseti. Ég hefði viljað bæta aðeins við en tíma mínum er lokið. Ég ætla ekki að misvirða það, en einnig minna á það í lokin (Forseti hringir.) um leið og ég geng úr ræðustólnum að það er einnig mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að laga aðstöðu eins og gert er ráð fyrir í Mývatnssveit og ég fagna því að hér skuli vera gerð tillaga um það.