Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 15:02:06 (5650)


[15:02]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það vill fara svo að átta mínútur duga skammt til þess að ræða þessa yfirgripsmiklu áætlun sem hér liggur frammi. Ég var kominn að Austurlandi eða öllu heldur þeirri stefnubreytingu sem mér fannst vera í þessari áætlun og af því að ég þekki best til mála þar þá vildi ég aðeins fara yfir það sem þar er að gerast.
    Á Austurlandi er gert ráð fyrir að leggja myndarlegt fjárframlag til tveggja stærstu og umferðarmestu flugvallanna og er það vel. Ég met það auðvitað að þar er lokið því myndarlega átaki. Eins er veitt

fjármagn til Hornafjarðarflugvallar en þar hefur verið vaxandi umferð vegna aukinnar ferðaþjónustu á þeim slóðum. Hins vegar vekja önnur atriði varðandi Austurland mér örlítinn ugg. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessari áætlun að leggja neitt fjármagn til annarra flugvalla á Austurlandi. Þessi áætlun er til fjögurra ára en hins vegar er það annað sem kemur fram í áætluninni sem mér finnst visst hættumerki varðandi þetta. Á bls. 75 í athugasemdum stendur: ,,Þeir flugvellir sem ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á næstu sex árum eru þessir: Vopnafjörður, Flateyri, Norðfjörður, Rif, Raufarhöfn, Kópasker, Breiðdalsvík, Borgarfjörður eystri og Bakkafjörður.`` Þarna er vísað lengra fram í tímann en áætlunin tekur til því hún er til 1997. Mér finnst þetta vera viss vísbending um að verið sé að leggja uppbyggingu og endurbætur á þessum flugvöllum af til lengri tíma og vil spyrja hæstv. samgrh. að því hvort þar séu einhverjar ákvarðanir að baki.
    Sé t.d. tekið til Vopnafjarðarflugvallar og Norðfjarðarflugvallar, þá eru þessir flugvellir báðir með fastri áætlun og umtalsverðri umferð á þann mælikvarða sem minni flugvellirnir eru. ( EgJ: Vaxandi.) Vaxandi já. Þetta kemur því dálítið spánskt fyrir sjónir. Ég skil alveg þær áherslur sem eru á Austurlandi á að ljúka Egilsstaðaflugvelli og fara í Hornafjarðarflugvöll en hins vegar finnst mér þetta visst hættumerki. Það er þegar farið að leggja út af þessu og flugrekstraraðilar lögðu út af þessu þannig fyrir skömmu síðan að Vopnafjarðarflugvöllur mundi leggjast af. Sem betur fer hefur samgrh. lýst því yfir í svari við fyrirspurnum að það sé ekki hans stefna og vil ég að það komi fram í mínu máli og er ég þakklátur fyrir þann skilning. Ég vil benda á þá sérstöðu sem Vopnafjarðarflugvöllur hefur vegna fjarlægðar við aðra og hvað flugið er mikill þáttur þar. Ég tel því ekki hægt að leggja af uppbyggingu á þessum flugvöllum til frambúðar og það þarf að taka það til sérstakrar skoðunar. Á þessum tveim flugvöllum, svo dæmi séu tekin, er Vopnafjörður með 3.800 farþega á ári, Norðfjörður með 3.400. Þetta er veruleg umferð á mælikvarða minni flugvallanna.
    Ég vil einnig taka það fram að ef engin hreyfing er og engar endurbætur á flugvöllum um langt árabil þá stefnir náttúrlega í það að þjónusta á þessum flugvöllum leggist niður. Ég vil undirstrika í því sambandi hlutverk flugvallanna í öryggiskerfi landshluta eins og Austurlands, sjúkrafluginu og hvað er nauðsynlegt að halda uppi þjónustu og finna út úr því hvernig þeirri þjónustu er háttað við flugvellina, að við þá séu starfsmenn og þjónustu sé haldið uppi á þeim flugvöllum þó þar sé ekki mikil umferð. Á ég þar t.d. við um flugvöllinn á Breiðdalsvík sem líka er völlur sem er í áætlun þó þar sé miklu minni umferð heldur en á hinum tveimur stöðunum sem ég nefndi. Flugvöllurinn við Borgarfjörð eystri er mikilvægt öryggistæki, ef svo má að orði komast um samgöngumannvirki, fyrir það byggðarlag.
    Ég vil því minna á þessa velli og hef nokkrar áhyggjur af því að gefin er vísbending um það í áætluninni að þar verði engin uppbygging á lengri tíma heldur en áætlunin sjálf tekur til. Það finnst mér hættumerki og vil láta það koma alveg sérstaklega fram við þessa umræðu að þessi mál þarf að taka alveg sérstaklega fyrir þarna og annars staðar sem svipað háttar til þó ég taki þessi dæmi vegna þess að ég þekki þarna best til.
    Ég ætla svo ekki að hafa öllu fleiri orð um þessa áætlun að sinni. Ég ætla ekki að blanda mér frekar í þau skoðanaskipti sem hafa verið um vinnubrögð. Ég tók það fram í minni ræðu að við þingmenn Austurlands áttum fund með flugmálastjórnarmönnum á undirbúningsstigi og höfum átt við þá ágætt samstarf. Ég tek eigi að síður undir það sem hér hefur fram komið að það væri æskilegt að koma samskiptunum við nefndir þingsins á einhvern ákveðnari grundvöll heldur en nú er við undirbúning þessarar áætlunar.