Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 15:10:08 (5651)


[15:10]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vinnubrögð við þessa flugmálaáætlun eru með sama hætti og verið hefur síðan flugmálaáætlun var upp tekin á árinu 1987 og er lítið um það að segja. Auðvitað er alltaf hægt að segja að ráðherra standi sig ekki í góðu samstarfi við þingnefndir, sérstaklega er auðvelt að segja það hér í stólnum. En það er einu sinni ráðherra sem fer með framkvæmdarvaldið en þingið sem fer með löggjafarvaldið. Mér finnst gæta nokkurrar tilhneigingar til þess að þingið vilji með mörgum þeim ummælum sem hér hafa fallið reyna að seilast yfir í framkvæmdarvaldið. Eins og ég sagði þá hefur þingið fulltrúa í flugráði. Ef hugmyndin er sú að ráðherra og flugmálastjóri eigi að vinna með þingnefnd þá er væntanlega rétt að afnema það að þingið kjósi í flugráð. Þá virðist það vera óþarfi. Það er með þeim hætti sem Alþingi hefur ákveðið að koma að málinu.
    Ég vil í annan stað segja að auðvitað eru vangaveltur alltaf fróðlegar um það hvernig menn telja að flugið muni þróast á næstu árum. Ég sagði það áðan að það hefði verið tekin ákvörðun um það að leggja verulega fjármuni í flugvelli sem voru nær aðalumferðaræðum og nær Reykjavík heldur en á hina fjærstu staði og það er ástæðan fyrir því að sumir þessara staða liggja eftir. Vopnafjörður er þúsund manna byggðarlag og ef við bætum Bakkafirði við, hvað erum við þá komnir í? Eitthvað um 1.300 manns. Það er því ekki neitt sem bendir til þess að flug til Vopnafjarðar sé að leggjast niður á allra næstu árum. Á hinn bóginn eru fjármunir mjög takmarkaðir vegna þess að við lögðum í Egilsstaðaflugvöll fyrst og fremst. Ef við hefðum ekki farið í þær miklu framkvæmdir þar sem raun ber vitni þá hefði verið betur séð fyrir fjárveitingum til hinna smærri staða.