Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 15:30:43 (5659)


[15:30]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. gerir mér upp skoðanir í því sem hann sagði núna. Ég hef aldrei talað um það að það væri skoðun mín að það ætti að leggja niður Bíldudalsflugvöll nema síður væri. Ég hef heldur ekki lýst því yfir að það ætti að leggja niður Patreksfjarðarflugvöll, var reyndar að ræða um það áðan að þetta sveitarfélag nýja muni vafalaust skoða innan sinna vébanda hvaða lausnir eru bestar í samgöngumálum þarna. En þetta var einföld spurning. Ég spurði um upplýsingarnar varðandi lenginguna á þverbrautinni. Í því fólst ekki að það ætti að fara að setja þarna þverbraut eða ég vildi leggja niður annan hvorn þessara valla. Það kann vel að vera að það verði breyting á rekstri þeirra og ég tek undir það sem samgrh. sagði að aðstæður á Bíldudalsflugvelli eins og kom fram í mínu máli hér áðan eru mjög hagstæðar og þar hefur verið eina auðveldast að halda uppi áætlun á Vestfjörðum eftir því sem ég best veit. Ég hef aldrei látið það á mér skilja og vil mjög sterklega að það komi hér fram að ég hef aldrei orðað það að leggja niður flugvöllinn á Bíldudal, enda er mér málið að nokkru leyti skylt því að ég stóð að því á sínum tíma fyrir rúmum 20 árum að kaupa þennan flugvöll af bónda í Arnarfirði og síðan að selja hann flugmálastjórn aftur fyrir hönd Suðurfjarðarhrepps sem hét þá svo og heitir Bíldudalshreppur núna og er nokkru stærri þannig að og hef heilmiklar taugar til þessa vallar og vildi síst verða til þess að ég væri orðaður við hugmyndir um að það ætti að leggja hann niður jafnrösklega og jafn vel og staðið hefur verið að því að byggja þennan völl upp og ég viðurkenni það fúslega. Það hefur verið vel unnið og ég sé á þessari áætlun að það er ætlunin að gera það áfram, enda væri annað óhyggilegt eins og þessi völlur hefur reynst.