Embætti héraðsdýralækna

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:36:33 (5673)


[15:36]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það var síður en svo að ég væri að láta liggja að því að konur væru eitthvað verr hæfar til þess að gegna þessu starfi. Ég benti einmitt á það að

sú kona sem hér um ræðir hefur fyrir utan almennt dýralæknisnám einnig sérnám. Þar að auki var hún, eins og ég sagði áðan, með helmingi fleiri punkta samkvæmt punktakerfinu heldur en sá maður sem ráðinn var. Mér finnst það skjóta nokkuð skökku við að hæstv. ráðherra viðurkennir það að í gangi séu ákveðnar reglur við veitingu þessara embætta en kýs síðan að brjóta þær reglur þegar hann er að setja í þetta embætti.
    Hvað varðar það að margir bændur, yfir 200 bændur, skrifuðu undir þennan undirskriftalista, þá er það vissulega rétt, en það má alveg eins spyrja að því hvort ekki þurfi að gilda ákveðnar reglur og fara eftir þeim. Eigi að breyta þeim er hægt að gera það og fara síðan eftir þeim breytingum en ekki áður en reglunum er breytt. Þessar reglur hafa gilt og ég er alveg sannfærð um það að dýralæknar almennt eru mjög óánægðir með það að þetta skuli hafa verið brotið. Það getur verið spurning hvort hér sé ekki um fleiri brot að ræða. Það er mjög líklegt að þetta verði kært til kærunefndar jafnréttismála og einnig til siðanefndar Dýralæknafélagsins vegna þess að umsækjandi sem veit um það að undirskriftalisti er í gangi honum til stuðnings á líklega að stöðva það þar sem það er ekki samkvæmt þeim reglum sem notaðar hafa verið við að leggja inn umsóknir, sem hæfnisnefnd á síðar að fjalla um, að þeim umsóknum fylgi undirskriftalistar viðkomandi. Þó að ég segi þessi orð er ég ekki að kasta rýrð á þann mann sem hefur verið ráðinn. Ég þekki hann ekki að neinu, hvorki góðu né illu, en ég tel að hér hafi verið brotið freklega á þeirri konu sem sótti um þetta embætti.