Rannsóknir háhitasvæða í Öxarfjarðarhéraði

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:59:27 (5681)

           


[15:59]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Mig langar til að leggja örfá orð inn í þessa umræðu um till. til þál. um rannsóknir á háhitasvæði í Öxarfjarðarhéraði. Ég þakka hv. 1. flm. og öðrum flm. tillögunnar fyrir það að hreyfa þessu máli og koma með það til umræðu á hv. Alþingi. Vissulega ber að undirstrika það sem kom m.a. fram í máli hv. frsm. Tómasar Inga Olrich að það er þörf á því að skoða nýtingu allra okkar orkulinda og leita allra leiða til að nýta þær til þess að lífga svolítið upp á okkar annars fábreytta atvinnulíf. Það á ekki bara við á því svæði sem hér er verið að tala um. Þar er vissulega fábreytt atvinnulíf sem ekki síst nú um þessar mundir á í verulegum erfiðleikum þar sem þar er m.a. sauðfjárrækt ein aðalatvinnugreinin sem hefur dregist verulega saman á undanförnum árum eins og allir þekkja og landbúnaður þar þess vegna dregist saman einnig. En þar hafa á hinn bóginn líka komið upp nýir möguleikar. Á Öxarfjarðarsvæðinu eru fiskeldisstöðvar sem hafa sýnt að það er vissulega hægt að brjóta upp á nýjum verkefnum og það væri ekki auðvelt og er ekki auðvelt að ímynda sér hvernig atvinnulífið liti út á þessu svæði nú ef þar væri þó ekki verulegur hluti íbúanna í vinnu við og með tekjur af fiskeldinu sem þar fer nú fram.
    En það má vissulega margt fleira hugsa sér að gera ef það reynist svo að þarna sé um að ræða nýtanlegt háhitasvæði og það kæmi í ljós við ítarlegar rannsóknir. Ég tala nú ekki um ef það yrði, eins og

nefnt er í lokamálsgrein greinargerðar, varpað ljósi á uppruna lífgræns gass sem þarna hefur fundist og væri afar forvitnilegt að fá að vita meira um þá hluti án þess að það sé nokkuð verið að spá í það á þessu stigi hvað gæti komið í kjölfarið. Háhitasvæðið býður upp á mikla möguleika og þó að það sé ekki staðsett hér á eða í nágrenni við mesta þéttbýli landsins þá trúi ég því að þar væri hægt að finna upp á ýmsum nýjungum í atvinnulífi sem gæti styrkt búsetu á þessu landsvæði.
    Hitt vil ég svo láta koma fram hér, virðulegur forseti, að það sem skiptir máli í þessu er að það sé til fjármagn eða fjármunir til þess að vinna fyrir. Málið er ekki nýtt í þeim skilningi að þetta hefur auðvitað ítrekað verið til umfjöllunar bæði í hópi þingmanna Norðurl. e., það hefur verið til umfjöllunar í fjárveitinganefnd á árum áður, fjárln. nú, og það hefur auðvitað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar einnig verið til umræðu á borði ríkisstjórnar hvernig fara eigi með þessi mál og hvaða fjármunum menn séu tilbúnir til að verja í þessar rannsóknir. Svona borhola eða borholur eru kostnaðarsamar. Ég hef ekki tölur fyrir framan mig og þær eru ekki tilgreindar hér í greinargerðinni. E.t.v. hefur hv. 1. flm. og frsm. tillögunnar þær í sínum fórum til að upplýsa okkur um það hér á eftir en það er auðvitað aðalmálið að fjárveitingavaldið sé tilbúið til að leggja í þetta fjármuni og sé tilbúið til að veita Orkustofnun möguleika eða sem má kannski segja líka að krefjast þess af Orkustofnun að hún raði verkefnum sínum í þann forgang að þetta verk sé framar á blaði en verið hefur.
    Ég minnist þess að hafa hlýtt á forsvarsmenn Orkustofnunar út af fyrir sig lýsa áhuga á því sem fræðimenn að afla frekari upplýsinga um svæðið og um orkuna sem þar kann að leynast en þeir hafa jafnframt látið að því liggja, bæði forsvarsmenn Orkustofnunar og eins forsvarsmenn iðnrn. að það sé auðvitað meiri áhugi að kanna til hlítar háhitasvæði sem eru hér í nágrenni þéttbýlisins á suðvesturhorninu. Það ber ævinlega allt að sama brunni. Það segir nú einhvers staðar í gömlu máltæki að þangað leitar fé sem fé er fyrir. Ég veit ekki hvort það á endilega við í þessu efni en það ber þó að þeim sama brunni að uppbyggingin, framkvæmdirnar, rannsóknirnar og fjármunirnir eru hér og menn eru tilbúnari til þess að verja þeim á þessu svæði hér en í fámennari byggðarlögum sem þó hafa vissulega þörf á því að Alþingi og löggjafinn líti til með þeim möguleikum sem þar kunna að leynast.
    Þetta vildi ég nú nefna, hæstv. forseti, og lýsa út af fyrir sig stuðningi mínum við efni þessarar tillögu en jafnframt undirstrika að það er auðvitað fjárveitingavaldið, það er vilji þeirra sem fara með fjármálin á hverjum tíma sem ræður mestu. Ég get þá líka minnt á það að það tók ótrúlegan tíma og ómælda fyrirhöfn að slíta út úr fjárveitingavaldinu endurgreiðslu á láni til heimamanna sem höfðu lagt í þetta rannsóknaverkefni, ég segi bara örfár milljónir króna, ég man ekki hvort þær voru tvær eða þrjár, sem tók mörg ár að fá endurgreitt og bendir það nú til þess að innan fjárveitingavaldsins og þá ekki bara þess meiri hluta sem nú ræður í því efni heldur reyndar áður, hafa þessi sjónarmið því miður verið uppi að menn hafa ekki viljað horfast í augu við það að setja fjármuni í þessar mikilvægu rannsóknir sem ég lýsi eindregnum stuðningi mínum við.