Rannsóknir á atvinnulífi og náttúruauðlindum í Öxarfjarðarhéraði

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 16:09:57 (5683)



[16:09]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um rannsóknir á atvinnulífi og náttúruauðlindum í Öxarfjarðarhéraði. Þetta er 321. mál þingsins og er á þskj. 512. Meðflm. mínir að þessari þáltill. eru hv. þm. Pálmi Ólason, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Steingrímur J. Sigfússon. Þáltill. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að rannsakaðir verði kostir sem vænlegir eru til nýmæla og þróunar atvinnumála í Öxarfjarðarhéraði með sérstöku tilliti til náttúruauðlinda héraðsins. Rannsóknin miði að því:
    að safna saman fyrirliggjandi upplýsingum um náttúruauðlindir í héraðinu og greina þörf fyrir frekari rannsóknir,
    að greina vaxtarmöguleika atvinnulífsins í héraðinu,
    að gera sérstaka athugun á þróunarmöguleikum ferðaþjónustu í héraðinu og tengslum þessarar atvinnugreinar við uppbyggingu ferðaþjónustu í nágrannabyggðum,
    að kanna sérstaklega áætlanir um að veita Jökulsá á Fjöllum til Austurlands vegna virkjana og áhrif þessara vatnaflutninga á atvinnulíf í héraðinu og þróunarmöguleika þess.
    Byggðastofnun verði falið að hafa umsjón með rannsóknarverkefninu í samráði við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og sveitarstjórnir Öxarfjarðarhrepps og Kelduneshrepps.``
    Í greinargerð segir m.a.:
    ,,Í Kelduhverfi og í Öxarfirði er náttúrufar fyrir margra hluta sakir sérstætt. Héraðið er á virku gosbelti og sprungusvæði þar sem jarðhræringa gætir oft. Þar er að finna jarðhita sem aðeins að hluta til hefur verið kannaður. Lífrænt gas hefur fundist í borholu við Skógalón. Yfirborðsmælingar benda til háhitasvæða á tveimur stöðum í byggð og telur Orkustofnun verulegar líkur vera á því að öflugt háhitasvæði sé að finna á söndum Öxarfjarðar og Kelduhverfis. Boruð var 320 metra djúp hola við Skógalón 1988 og skilar hún í sjálfrennsli 45 lítrum á sekúndu af 97°C heitu vatni. Athuganir benda til að hitaveita frá henni um héraðið sé arðbær. Fram til þessa hefur heita vatnið aðeins verið nýtt til fiskeldis.
    Eitt af mestu fallvötnum landsins rennur til sjávar í Öxarfirði. Meðalrennsli í Jökulsá á Fjöllum er 183 rúmmetrar á sekúndu, en áin hefur ekki verið beisluð til orkuframleiðslu. Í Öxarfjarðarhéraði eru mikil verðmæti fólgin í ferskvatni sem þar er í ríkum mæli og aðeins að takmörkuðu leyti nýtt. Í héraðinu eru afar sérstæð náttúrufyrirbæri tengd Jökulsárgljúfrum en hluti þeirra hefur verið gerður að þjóðgarði. Í héraðinu er talsverður náttúrulegur birkiskógur sem hefur heldur farið fram undanfarin ár. Á sama tíma herjar sandfok á gróðurlendið úr suðri. Náttúra héraðsins einkennist því af miklum andstæðum, stórbrotnum roföflum og viðkvæmu gróðurlendi.
    Öxarfjarðarhérað er strjálbýlt. Héraðið hefur verið mikið sauðfjárræktarhérað og hefur ekki farið varhluta af samdrætti í þeirri grein. Tilraunir til nýsköpunar í atvinnulífi á sviði fiskeldis, rækjuvinnslu og úrvinnslu sauðfjárafurða hafa staðið yfir í nokkur ár og eru miklar vonir bundnar við þessa starfsemi, en jafnframt talsverð óvissa sem jafnan fylgir nýsköpun í atvinnulífi. Þá er hafin uppbygging ferðaþjónustu sem nýtir sér þá sérstæðu náttúrufegurð sem einkennir héraðið.
    Í héraðinu fara því saman miklar orkulindir, mikil náttúrufegurð og viðkvæmt atvinnulíf. Nauðsynlegt er að kanna á hvern hátt hægt er að nýta sem best náttúruauðlindir héraðsins í samræmi við umhverfissjónarmið og ekki síst með það fyrir augum að ekki verði rýrðir möguleikar héraðsins til uppbyggingar ferðaþjónustu.
    Í tengslum við uppbyggingu orkufreks iðnaðar og útflutning raforku um sæstreng til Evrópu hafa farið fram athuganir á hagkvæmni þess að veita Jökulsá á Fjöllum til Fljótsdals og virkja rennsli hennar þar. Byggjast þessar athuganir á hugmyndum um mikil uppistöðulón norðan Vatnajökuls og veitumannvirki. Hafa farið fram nokkrar rannsóknir á áhrifum þessara miklu vatnaflutninga á náttúru og umhverfi á öræfum en mjög takmarkaðar rannsóknir sem tengjast þeim héruðum sem Jökulsá fellur um til sjávar eða Öxarfirðinum sjálfum.``
    Rétt er að geta þess hér að nýlega voru birtar rannsóknarskýrslur um einmitt þetta atriði sem lágu ekki fyrir þegar þetta þingskjal var samið. Áin er talin flytja til sjávar um 5 milljónir lesta af jarðefnum

árlega. Þessi jarðefni mundu að miklu leyti setjast í lónum uppi á öræfum ef þessar áætlanir kæmu til framkvæmda. Þó að þessar áætlanir hafi að sjálfsögðu ekki verið samþykktar þá er ekki hægt að neita því að í útreikningum um orkuflutninga erlendis hafa þessar áætlanir að hluta til verið lagðar til grundvallar.
    Þær rannsóknir, sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir, munu styrkja forsendur markvissrar atvinnuuppbyggingar í Öxarfirði og auðvelda raunhæft mat á gildi framangreindra hugmynda um vatnaflutninga og að skoða þær í tengslum við almenna kosti á nýsköpun í atvinnulífi.
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem snertir almennar rannsóknir á atvinnulífi og náttúruauðlindum í Öxarfjarðarhéraði. Ég tel að það sé mjög brýnt að menn gangi í rannsóknir af þessu tagi með ákveðin umhverfissjónarmið í huga en gæti þess jafnframt að slík umhverfissjónarmið séu ekki leidd í slíkt öndvegi að þau skyggi á alla aðra umræðu um atvinnuuppbyggingu í héraðinu. Það er mjög brýnt að menn gangi í rannsóknir af þessu tagi með það fyrir augum að við nýtum okkur náttúru landsins, við nýtum okkur jafnvel viðkvæma og fagra ferðamannastaði með þeim hætti sem við teljum skynsamlegt og ef í það er gengið með það fyrir augum að spilla ekki þeim náttúrulegum gæðum sem þar eru fyrir, þá getur slík atvinnuuppbygging verið af hinu góða og er af hinu góða. Þegar atvinnuuppbygging héraðs eins og Öxarfjarðarhéraðs á í hlut, þá er rétt að taka þetta fyrir á mjög almennan hátt þannig að sem flestir kostir séu skoðaðir.
    Ég vil leggja það til að að lokinni þessari fyrri umræðu verði þessu máli vísað til síðari umræðu og hv. iðnn. Ég viðurkenni það að vísu að það orkar tvímælis til hvaða nefndir á að vísa máli af þessu tagi vegna þess að í þeim rannsóknum sem hér er verið að tala um er verið að fara inn á svið sem heyrir undir mjög margar nefndir þingsins en mín tillaga er sú að þessu máli verði vísað eftir fyrri umræðu til hv. iðnn.