Áfengislög

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 16:38:08 (5687)


[16:38]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við þessa tillögu og þakka flm. fyrir að koma með þetta mjög svo þarfa og merkilega mál inn í sali þingsins. Mér varð hugsað til þess meðan ég hlustaði á framsöguræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að það er mjög umhugsunarvert fyrir okkur konur að baráttan gegn áfengi var eitt helsta mál kvenréttindabaráttunnar á 19. öld og reyndar fram yfir miðja þessa öld. Síðan hafa orðið miklar breytingar á lifnaðarháttum og eins og ég hef stundum orðað það við konurnar, ég undanskil ekki sjálfan mig, við höfum tekið upp ósiðina eftir körlunum.
    Grikkir höfðu sér það lífsviðhorf að allt er best í hófi og það er kannski ekki ástæða til þess að amast algerlega við áfengisdrykkju kvenna, en það er samt umhugsunarvert hversu mjög hún hefur aukist og ekki síst að það þarf að fræða konur miklu meira um áhrif áfengis heldur en hefur verið gert vegna þess að áfengi hefur bæði önnur áhrif á konur en karla og rannsóknir hafa sýnt að konur þola minna magn en karlar fyrir utan það atriði sem var meginmálið í ræðu hv. 1. flm. þessa máls, sá skaði sem fóstur geta orðið fyrir vegna áfengisneyslu. Ég held í rauninni að það þurfi mjög að efla þessa fræðslu og þá ekki síst að beina henni að konum sérstaklega. Stöðugur áróður í þessum málum er nauðsynlegur. Það hefur komið í ljós að taka verður öðruvísi á áfengismeðferð gagnvart konum heldur en körlum vegna þess að orsakirnar eru aðrar fyrir of mikilli áfengisneyslu. Konur búa við aðra félagslega stöðu en karlar og þess vegna þarf að hafa það mjög í huga að þarna er um mál að ræða sem þarf að taka öðruvísi á gagnvart konum en körlum.
    Ég held að sú leið að minna fólk á í hvert skipti sem bjórdós eða vínflaska er keypt sé mjög af hinu góða þó að auðvitað sé erfitt að gera sér grein fyrir því hvort það hefur áhrif. Ég vildi gjarnan beina þeirri spurningu til hv. 1. flm. hvort hún hafi upplýsingar um það hvort menn telji sig sjá einhver merki þess að þær merkingar sem t.d. tíðkast í Bandaríkjunum, að áróður af því tagi beri árangur. Nú vitum við það að tóbak hefur verið merkt með þessum hætti um margra ára bil, en það virðist vera sem tóbaksnotkun aukist alltaf aftur ef ekki er haldið uppi stöðugum áróðri og það er verið að auglýsa bæði vín og tóbak og hin skaðlegu áhrif eru fljót að gleymast og þær upplýsingar sem verið er að koma á framfæri gleymast fljótt ef ekki er minnt sífellt á þetta.
    Virðulegi forseti. Ég ítreka stuðning minn við þetta ágæta mál og vona að það fái skjótan framgang í þinginu.