Áfengislög

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 16:42:03 (5688)


[16:42]
     Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka góðar undirtektir hv. 18. þm. Reykv. og kem hér upp til að svara þeirri spurningu sem hún beindi til mín. Ég hef ekki upplýsingar um að þessar merkingar hafi borið árangur. Það eru ekki nema liðlega fjögur ár síðan þessi lögleiðing varð þannig að rannsóknir sem slíkar væru kannski fyrst núna að verða tímabærar eða fá eitthvað gildi. Hins vegar er það alveg greinilegt að þær rannsóknir sem höfðu verið gerðar áður voru þess eðlis að þar þótti það réttlætanlegt að setja slíkar merkingar á.
    Ég vil líka vegna tengsla móður og fósturs nefna það sem sagt var frá fyrir stuttu varðandi óbeinar reykingar verðandi mæðra. Sannað hefur verið að agnir úr tóbaki, einhverjum sérstökum efnum í tóbaki, finnast í hári nýfæddra barna mæðra sem hafa verið í tóbaksreyk án þess að reykja sjálfar. Það hefur því mikið verið að koma fram á síðustu árum um þessi sterku tengsl og hvað það skipti miklu máli hvað fer til fóstursins.
    Mig langar líka vegna þessara undirtekta að nefna að það er ekki nýtt. Sá læknir sem ég hef mikið leitað í smiðju til varðandi þessi mál hefur gefið mér blað með upplýsingum um í hversu langan tíma áfengi og fóstur hefur verið til umfjöllunar og ég hef áhuga á að nefna það hér í stuttu máli. Það kemur

fram að Aristóteles skrifaði einhvers staðar að heimskar, drukknar, lítilsigldar konur fæði af sér vangefin og sljó börn. Í ginfaraldrinum svokallaða í Englandi á árunum 1720--1750 var skráð af enska læknafélaginu, Royal College of Physicians, skaðleg áhrif mikillar drykkju um meðgöngutímann og í lok 19. aldar gerði William Sutherland í Liverpool samanburð á börnum kvenna sem voru fangelsaðar vegna drykkju og börnum ættmenna þeirra og það kom í ljós að ef konurnar voru þvingaðar til að hætta drykkju eins og gerðist við fangelsunina þá fæddu konurnar af sér eðlileg börn, enda þótt þær hefðu áður fætt óeðlileg börn í drykkjuþungun. Á fyrri hluta þessarar aldar var tiltölulega lítið gert af því að athuga áhrif alkóhóls á fóstur en 1965 var sagt að staðhæfa mætti að ekki skipti máli hversu mikils alkóhóls væri neytt, engin áhrif yrðu af því á eggfrumu, sæðisfrumu og fóstur. Það er síðan 1973 sem straumhvörf verða hvað varðar álit manna á alkóhólneyslu við þungun þegar Jones og félagar skrifuðu grein í Lanset þar sem þeir lýstu ákveðnum einkennum hjá börnum drykkjukvenna og settu fram og sjúkdómsgreininguna ,,foetal alcohol syndrome`` sem þýða mætti á íslensku einkenni alkóhóláhrifa á fósturskeiði. Síðan þá hafa verið miklar umræður um þetta mál og skrifað mikið um það á köflum, en það hefur ekki náð fram að ganga til meiri varnaðar en ég hef þegar lýst. Reyndar eru, eins og kom fram í máli mínu áðan, sérstakir bæklingar um þetta hjá landlæknisembættinu, en almennt í umræðunni varðandi vanfærar konur er ekki mikið talað um þetta og ég tel að fjölmargar ungar konur geri sér ekki grein fyrir hve skaðlegt það er að neyta áfengis á meðgöngutímanum.