Framhaldsskólar

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 16:58:51 (5691)


[16:58]

     Flm. (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég skal viðurkenna að það kemur mér mjög á óvart sem hæstv. menntmrh. segir að hægt sé að skipta um fulltrúa nema þeir óski þá sjálfir eftir því og segi af sér. Það sé hægt að skipta um fulltrúa í skólanefndum sem skipaðar hafa verið samkvæmt lögum til fjögurra ára. Þetta kemur mér mjög á óvart. Ég skal reyndar viðurkenna það að ég veit um skóla sem hafa reyndar samið um það við viðkomandi aðila sem tilnefna núna í skólanefndir að þeir segi af sér í vor að loknum kosningum til þess að nýjar sveitarstjórnir, þar sem fleiri en ein standa að skólum, geti skipað nýja skólanefnd. Og mér er kunnugt um það líka að það eru til sveitarstjórnir sem hafa hreinlega neitað að tilnefna núna vegna þess að þær telja það ekki vera samkvæmt þeim boðskap sem fólst í lögunum þegar þau voru sett þó að það hafi verið einhver handvömm að það skyldi ekki vera nægilega skýrt orðað þannig að tímabil sveitarstjórna og skólanefnda færi saman.
    Hæstv. ráðherra talar um eitthvert óðagot. Ég vil bara ekki viðurkenna að það sé neitt óðagot að leggja hér fram frv. sem felur nákvæmlega það í sér sem hæstv. menntmrh. sagði í umræðunni þegar fjallað var um mína fyrirspurn. Hann taldi rétt að þessi tímabil færu saman en hann hefði ekki lagalega heimild til að gera þetta á annan hátt. Mér þykir hugmyndaflugið í menntmrn. ekki vera mjög mikið ef engum hefur dottið það í hug, ef það var vilji ráðuneytisins, að það væri ekki hægt að leggja fram lítið frv. á hv. Alþingi og fá það samþykkt jafnvel með hraði þegar um samkomulagsmál er að ræða. Ég fer því ekki ofan af því að mér finnst þetta vera dálítið sérkennilegt allt saman og láir mér það enginn að ég hafi ýmsar hugsanir sem eru kannski svolítið neikvæðar í garð hæstv. menntmrh. í tengslum við þetta mál.