Framhaldsskólar

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 17:04:43 (5693)


[17:04]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Aðeins örstutt um þetta frv. sem hér er til umræðu um breytingu á lögum um framhaldsskóla. Ég vil fyrst lýsa því yfir sem mér finnst að bæði hv. flm. og ráðherra séu sammála um að kjörtímabil skólanefnda eigi að vera kjörtímabil sveitarstjórna. Ég er sammála því og tel rétt að breyta lögunum í þá veru eins og hér er lagt til.
    Ég kom hér fyrst og fremst til að lýsa efasemdum um túlkun ráðherra að því er varðar skipan í nefndir með þeim hætti sem ráðherrann talaði um. Ég ætla svo sem ekki að fara í miklar umræður eða deilur um það úr þessum ræðustól. Það þarf auðvitað bara að athuga. En ég vil minna á að á síðasta kjörtímabili, held ég, vildi ráðherrann gjarnan skipta um fulltrúa sem skipaður var af ráðherra í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna, ef ég man rétt, en það var ekki hægt að gera þar sem viðkomandi vildi ekki víkja úr nefndinni. Þetta er að vísu bara eftir minni. Ég held því að það sé ekki rétt að ef búið er að skipa mann í nefnd, t.d. til fjögurra ára, þá sé hægt að víkja honum nema hann samþykki það sjálfur. Ég vildi bara lýsa efasemdum mínum um að það sem ráðherrann segir sé rétt.
    Nú tel ég að þar sem búið er að leggja til að frv. verði vísað til menntmn. þá verði það skoðað

þar hvort þetta geti staðist. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem eru fordæmi fyrir og eðlilegt að farið sé með á einhvern ákveðinn hátt en til þess að taka af öll tvímæli þá tel ég rétt að samþykkja frv. sem þetta. Það hljótum við öll að geta verið sammála um, ég, hv. flm. og ráðherra þar sem við erum öll sammála um að þetta eigi að vera með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir.