Framhaldsskólar

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 17:07:20 (5694)


[17:07]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu mega menn hafa efasemdir um þessa túlkun mína. En af því að minnst var hér á fulltrúa í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna á síðasta kjörtímabili, þá er það rétt munað hjá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur að þáv. menntmrh. hafði uppi tilburði í þá veru að losa sig við hann af því að hann var ekki í hans flokki. Sá fulltrúi vildi ekki segja af sér og ég held að ég viti það alveg rétt að ráðherra vildi ekki víkja honum. Honum fannst það kannski fullgróft að víkja honum úr starfi sem stjórnarformanni. Það varð hins vegar samkomulag þá á milli þáverandi stjórnarflokka og alla vega míns flokks í stjórnarandstöðu að breyta lögunum í þá veru að stjórnarformaður lánasjóðsins sæti ekki lengur en viðkomandi ráðherra. Þetta er skipan sem ég held að eigi a.m.k. sums staðar rétt á sér. Við höfum velt því fyrir okkur einmitt í sambandi við framhaldsskólalöggjöfina að þessari skipan verði komið á varðandi ráðherraskipaða fulltrúa í skólanefndir, að þeir víki um leið og ráðherrann. En sveitarstjórnarfulltrúarnir sitji í samræmi við kjörtímabil sveitarstjórna. Þetta er til athugunar.