Framhaldsskólar

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 17:09:06 (5695)


[17:09]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Það atriði sem þarna var verið að ræða var þá nokkurn veginn rétt munað. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra að í mjög mörgum tilvikum ef um er að ræða sérstaka fulltrúa, t.d. ráðherra eða sveitarstjórna, þá geti verið réttlætanlegt og kannski mjög skynsamlegt að hafa skipunartíma þeirra jafnlangan og viðkomandi ráðherra eða jafnlengi og sveitarstjórn situr þó að það gildi auðvitað ekki alltaf. Það er misjafnt. Þess vegna held ég að í þessu tilviki sé eðlilegra að breyta lögunum í þá veru sem frv. gerir ráð fyrir sem við erum að ræða. Ég tel það óskynsamlegt að bíða eftir nýju frv. sem hugsanlega kemur fram á næsta kjörtímabili og tel miklu eðlilegra að við samþykkjum þetta frv. nú á þessu vori. Ef við komumst síðan að því að við viljum breyta þessu enn og aftur þegar nýtt frv. kemur hér fram, þ.e. að þetta gildi líka um ráðherraskipuðu fulltrúana, þá er alveg sjálfsagt að gera það. Ég held að það væri á vissan hátt skynsamlegt en það þarf að athuga það mál einnig. Ég vil bara enn og aftur lýsa yfir að ég tel rétt að samþykkja þetta frv. þar sem við erum þó sammála í þessu máli.