Framhaldsskólar

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 17:11:16 (5696)


[17:11]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að það kunna að rísa þá upp ný vandamál vegna þess að það hefur þegar verið skipað í fjölmargar skólanefndir, ekki allar vegna þess að það hafa ekki allir skilað inn tilnefningum. Ég hef ekki vitað fyrr en hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir upplýsti að henni væri kunnugt um að einhverjar sveitarstjórnir hefðu neitað að tilnefna vegna þess að þær vildu það ekki. Ég hef ekki þær upplýsingar, en það má vel vera að slík erindi hafi komið í ráðuneytið. Það verður að taka þá sérstaklega á því ef sveitarstjórnir neita að tilnefna í skólanefndir núna. Þær verða þá einfaldlega ekki fullskipaðar og verða engar skólanefndir til fyrr en að loknum kosningum. Það má vel vera að menn geti lifað við þá skipan um einhvern takmarkaðan tíma. En það hefur alla vega verið gengið frá skipan í fjölmargar skólanefndir og ég held ég megi segja raunar flestar.