Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 17:43:05 (5702)


[17:43]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ákvæði þessa frv. sem er til umræðu um breytingu á lögum um jafna stöðu og

jafnan rétt kvenna og karla hafa verið til umræðu á Alþingi áður eins og fram kom hjá hv. flm. og um þau hafa verið nokkuð skiptar skoðanir.
    Varðandi fyrra ákvæðið um það að fella út orðin ,,sambærileg störf`` þá er það svo að í íslenskum jafnréttislögum hafa alltaf verið notuð tvö hugtök yfir samanburð á launum að störf séu jafnverðmæt og sambærileg og það var ekki talin ástæða til þess á sínum tíma að breyta þessari skilgreiningu, m.a. þar sem hún var ekki talin hindra konur í að ná fram rétti sínum. Það var með öðrum orðum ekki talið skipta máli hvort aðeins stæði í textanum orðin ,,jafnverðmæt störf`` eða ,,jafnverðmæt og sambærileg störf.`` Í erlendum samþykktum er einungis notað orðið jafnverðmæt og þegar bæklingur kærunefndar svo dæmi sé tekið var saminn 1992 var mikil umræða einmitt um þetta atriði og varð niðurstaða sú að öll störf væri hægt að bera saman og því ætti það skilyrði ekki að hindra neinn í að ná fram rétti sínum. Þrátt fyrir þetta tel ég það vel athugandi að skoða hvort það sé ekki æskilegt að taka út orðið ,,sambærileg``. Orðin geta ruglað fólk og verið hugsanlega til þess að atvinnurekendur geti skýlt sér á bak við það að einstök störf verði ekki borin saman. Það er full ástæða til að samræma lagatextann hér þeim alþjóðlegu samþykktum sem við erum aðilar að og einnig að koma í veg fyrir óþarfa misskilning þeirra sem þurfa að vinna eftir lögunum.
    Varðandi síðara ákvæðið í þessu frv., þá voru jafnréttislögin endurskoðuð fyrir nokkrum árum, mig minnir að það hafi verið 1990, og þá var einmitt í frv. sem ég lagði fram það ákvæði sem lagt var til að verði tekið upp. ( Gripið fram í: 1988.) Já, 1988 eða 1989, ég man ekki hvort var. En þá var einmitt þetta ákvæði inni í frv. sem ég lagði fram sem hér er tekið upp en náði ekki fram að ganga og það náðist ekki samstaða um það á Alþingi. Nefndin sem fjallaði um málið þá lagði einmitt til að sönnunarbyrðinni yrði snúið við, ekki bara fyrir kærunefnd heldur einnig fyrir dómstólum vegna jafnréttisbrota. Þetta ákvæði er tekið upp í þessu frv. Þetta ákvæði er t.d. í nýrri tilskipun eða drögum að nýrri tilskipun hjá EB sem gerir ráð fyrir öfugri sönnunarbyrði með þessum hætti og það er mitt mat að það geti orðið til þess að styrkja jafnréttisbaráttuna að breyta þessu og vonandi næst samstaða um það mál hér á þinginu nú. En um þetta voru mjög deildar meiningar fyrir nokkrum árum.
    Það kemur fram í greinargerð með þessu frv. að það er skoðun flm. að það þurfi að endurskoða jafnréttislögin í heild sinni. Ég tek undir það að það væri rétt að skoða fleiri þætti, það þurfi fleiri þættir skoðunar við en fram kom í þessu frv. í jafnréttislögunum. Jafnréttisráð hefur verið að yfirfara á undanförnum vikum ákvæði laganna og skoða hverju þurfi að breyta og m.a. hefur það einmitt verið að skoða þessi ákvæði sem lagt er til í þessu frv. ásamt fleiri atriðum. En ég stend hér einungis upp, virðulegi forseti, til þess að láta í ljós þessa skoðun mína á þessu máli að ég tel bæði þessi atriði, sem hér eru tekin upp, geta orðið til þess að styrkja jafnréttisbaráttuna.