Almannatryggingar

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 18:26:58 (5708)


[18:26]
     Flm. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga sem er 418. mál á þskj. 626 um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar. 1. flm. er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og meðflm. eru við hinar þingkonur Kvennalistans, Anna Ólafsdóttir Björnsson, undirrituð, Kristín Ástgeirsdóttir og Kristín Einarsdóttir.
    Í raun og veru felst aðalbreytingin í þessu frv. í 1. gr. frv. Það er aðalbreytingin sem verið er að leggja til. Með þessu er mjög stutt greinargerð og ég ætla að lesa nokkuð úr henni, með leyfi forseta:
    ,,Skipanir í stöður hjá hinu opinbera eru með mismunandi hætti eftir stofnunum. Sumar eru ótímabundnar, aðrar til fjögurra ára og enn aðrar til sex ára í senn. Þróun undanfarinna ára er þó sú að tímabundnar skipanir forstöðumanna og jafnvel undirmanna þeirra hafa verið lögleiddar í auknum mæli. Þannig kemur eftirfarandi fram í greinargerð með breytingum á lögum um Innkaupastofnun ríkisins þar sem skipunartíma forstöðumanns var breytt úr ótímabundnum í fjögur ár:
    ,,Það er hins vegar nýmæli að forstjórinn skuli skipaður til fjögurra ára í senn og er það í samræmi við þróun síðustu ára í þá átt að binda skipunartíma forstöðumanna ríkisstofnana í tiltekinn tíma, sbr. t.d. stöðu forstjóra Iðntæknistofnunar Íslands, Hafrannsóknastofnunar og Landmælinga Íslands.``
    Ýmis fleiri dæmi má nefna um tímabundnar skipanir, svo sem bankastjóra Seðlabanka Íslands og bankastjóra ríkisbankanna til sex ára í senn og framkvæmdastjóra Hollustuverndar ríkisins til fjögurra ára. Ástæður þessarar þróunar eru fyrst og fremst þær að tímabundnar skipanir í stjórnunarstöður tryggja möguleika til endurnýjunar og geta þannig hindrað stöðnun í starfsemi stofnana hins opinbera. Það er einnig markmið þess frumvarps sem hér er lagt fram, en það felur það í sér að æðstu embættismenn Tryggingastofnunar ríkisins verði skipaðir til fjögurra ára í senn. Slík regla hefur oft komið til tals og á fundi tryggingaráðs 10. des. sl. var til dæmis samþykkt eftirfarandi:
    ,,Tryggingaráð beinir því til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að þegar auglýstar verði lausar stöður lækna á læknadeild Tryggingastofnunar ríkisins þá verði ráðið tímabundið í stöðurnar til 4--6 ára. Sé þörf lagabreytinga í þessu skyni er það ósk tryggingaráðs að ráðherrann beiti sér fyrir þeim.``
    Ekki var auglýst í samræmi við tilmæli tryggingaráðs og ekkert bendir til að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hyggist beita sér fyrir lagabreytingu um þetta efni. Þess vegna er þetta frumvarp lagt hér fram.``
    Eins og ég sagði í upphafi þá er breytingin sem hér er lögð fram tvíþætt. Það er annars vegar gert ráð fyrir að ráðherra skipi aðeins forstjóra, skrifstofustjóra, tryggingaryfirlækni og tryggingarlækna en forstjórar ráði aðra starfsmenn stofnunarinnar. Hins vegar er skipunartímanum breytt úr ótímabundnu í fjögur ár í senn. Það er eins og ég segi sú breyting sem við erum aðallega að leggja til.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, leggja til að frv. verði að loknum umræðum vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.