Tollalög

121. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 18:30:50 (5709)


[18:30]
     Flm. (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Ásamt þeim sem hér stendur flytja þetta mál Jónas Hallgrímsson, Egill Jónsson, Gunnlaugur Stefánsson, Eggert Haukdal, Margrét Frímannsdóttir, Hjörleifur Guttormsson og Halldór Ásgrímsson.
    Frv. er svohljóðandi:
    ,,1. gr. Við 1. mgr. 28. gr. laganna, sbr. lög nr. 40/1989, bætast tveir nýir töluliðir svohljóðandi:
    16. Höfn í Hornafirði.
    17. Þorlákshöfn.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í greinargerð með þessu frv. og rökstuðningi segir svo:
    ,,Undanfarin ár hafa farið fram umræður í sveitarstjórn Ölfushrepps og bæjarstjórn Hafnar í Hornafirði um möguleika þessara byggðarlaga á að þar verði viðurkenndar aðaltollhafnir.
    Þrátt fyrir viðræður og bréfaskriftir forsvarsmanna þessara byggðarlaga hafa yfirvöld ekki enn séð sér fært að verða við óskum heimamanna þar að lútandi. Á Suðurlandi er einn staður sem nýtur réttinda aðaltollhafnar, þ.e. Vestmannaeyjar.
    Undanfarin missiri hefur mikilvægi Þorlákshafnar aukist sem almennrar vöruhafnar þar sem upp voru teknar fastar áætlunarsiglingar milli meginlands Evrópu, Færeyja og Þorlákshafnar, fyrst í stað á hálfs mánaðar fresti og síðan í nóvember sl. vikulega.
    Í tollumdæmi sýslumannsins í Árnessýslu er fjöldi tollafgreiðslna um þessar mundir u.þ.b. 3.000 á ári og eru þau störf framkvæmd meðfram öðrum, en engin tollþjónn er starfandi þrátt fyrir síaukið umfang.`` Síðan þetta var lagt fram hefur tollþjónn verið ráðinn á Selfossi. ,,Fyrirsjáanleg er enn frekari aukning vegna fastra skipakoma í Þorlákshöfn sem hlýtur að kalla eftir skjótri ákvörðun á breytingu í þessum efnum í umdæminu.
    Á Austurlandi er syðsta aðaltollhöfn Eskifjörður og því óravegur og löng sjóleið í hina næstu sem er Vestmannaeyjar.
    Fyrir ört vaxandi byggðarlag eins og Höfn í Hornafirði hlýtur það að vera mikið hagsmunamál að öðlast réttindi aðaltollhafnar, enda hafa bæjaryfirvöld fyrir nokkru síðan óskað eftir athugun og breytingum í þessa átt. Sem kunnugt er hefur íbúafjöldi Hafnar í Hornafirði meira en tvöfaldast síðustu tvo áratugi og umsvif atvinnufyrirtækja eflst að sama skapi.
    Í umdæmi sýslumannsins á Höfn hefur tollafgreiðslum fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. Þar er enginn starfandi tollvörður. Tollmeðferð fer því fram meðfram öðrum störfum á skrifstofu sýslumanns eins og á Selfossi. Þegar skip og bátar koma erlendis frá sinnir lögregla á Höfn tollun. Um báðar þessar hafnir, Höfn í Hornafirði og Þorlákshöfn, gilda þær reglur að óska verður heimildar tollgæslustjóra í Reykjavík um tollun skipa inn í landið og frá því.
    Þrátt fyrir lipurð þeirra embættismanna tollþjónustunnar sem hlut eiga að er þetta kerfi þungt í vöfum og varla nútímaleg vinnubrögð og óumdeilanlega tafsamt. Af framanrituðu má ljóst vera að tímabært er að breytingar til batnaðar verði framkvæmdar án frekari tafa með því að Þorlákshöfn og Höfn í Hornafirði verði gerðar að aðaltollhöfnum. Með því móti einu mundu þessi byggðarlög og nágrenni þeirra öðlast sama rétt og möguleika á tollmeðferð skipa og á innflutningi og útflutningi enda mun slíkt leiða til einföldunar, aukinnar hagkvæmni, sparnaðar og betra eftirlits í viðkomandi umdæmum.``
    Hæstv. forseti. Með þessu frv. fylgja þrjú bréf. Það er bréf Hafnarsjóðs til tollstjórans í Reykjavík sem bæjarstjóri á Höfn undirritaði og síðan eru tvö bréf frá sveitarstjóranum í Ölfushreppi.
    Því má við þetta bæta að þessar tvær hafnir liggja með suðurströnd landsins og sýnist eðlilegt að þær öðlist svipaðan rétt og margar aðrar tollhafnir víða um land og þetta væri einföld breyting á lögum og mundi náttúrlega auðvelda mjög og einfalda skipasiglingar til þessara staða og ég vil hér svona til samanburðar nefna það að aðaltollhafnir aðrar samkvæmt lögum í landinu eru þessar: Í Reykjavík, Akranesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri, Húsavík, Seyðisfirði, Neskaupstað, Eskifirði, Vestmannaeyjum, Keflavík, Keflavíkurflugvelli og Hafnarfirði. Manni finnst því að einmitt vanti þessar tvær hafnir til viðbótar og þær hafi með miklum umsvifum á síðustu árum sýnt að þar eru einmitt ýmsir möguleikar í þessum efnum. Eins og hér kemur fram og ég hef flutt í greinargerðinni þá mundi það mjög styrkja þessa staði í þá veru.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn.