Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 13:47:26 (5711)

[13:47]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta mál var þrautrætt hér við 2. umr. og nú við 3. umr. vísa ég að sjálfsögðu til þess málflutnings sem ég hafði þar í frammi. Mér finnst hins vegar rétt að koma á framfæri við þingið þeirri verkatilhögun sem var viðhöfð hjá landbn. á milli umræðna en mér barst þá bréf frá fimm nefndarmönnum í landbn. um að þar yrði efnt til fundar sem ég varð að sjálfsögðu við. Það er reyndar skýrt fram tekið í þingsköpum að nefndarmenn eiga rétt á því að óska eftir fundi og þá ber að hlíta slíkri ósk en til viðbótar höfðu þessir sömu nefndarmenn sýnt mikla tillitssemi í störfum nefndarinnar að þessu máli. Það höfðu verið haldnir margir fundir utan hefðbundins fundartíma og það eykur auðvitað á álag nefndarmanna við störf hér í þinginu og þá sérstaklega þegar til þess er horft að sumir landbúnaðarnefndarmenn eiga sæti í fleiri nefndum og hafa skyldum og störfum víðar að sinna. Það var því að sjálfsögðu auðsótt mál af fleiri en einni ástæðu að efna til þessa fundar.
    Það var auk þess eftir því leitað að tilteknir sérfróðir menn mundu mæta á þessum fundi, fyrir það fyrsta þeir lögmenn sem höfðu verið nefndinni til ráðuneytis en auk þess Markús Sigurbjörnsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Eiríkur Tómasson hrl. Hann hafði hins vegar ráðstafað sér á þessum tiltekna tíma og gat þar af leiðandi ekki mætt á fundum nefndarinnar.
    Nefndin tók svo til umræðu þetta mál, búvörumálið, að ósk þessara nefndarmanna og í þeim tilgangi að fá nánari skýringar, sem voru að sjálfsögðu greiðlega gefnar, en í framhaldi af því og í lok fundarins varð það niðurstaða að þessir gestir landbn. mundu senda nefndinni skriflegt yfirlit yfir það sem þeir fjölluðu sérstaklega um á nefndarfundinum. Má kannski segja að það sé aðaltilefni frhnál. að koma þessum skýringum hér á framfæri sem fylgiskjölum við okkar stutta nefndarálit, en greinargerð Markúsar Sigurbjörnssonar er hér á fylgiskjali I og greinargerð þeirra lögmannanna Gunnlaugs Claessens, Sveins Snorrasonar og Tryggva Gunnarssonar er á fylgiskjali II. Þetta er sem sagt tilefnið að þessu nefndaráliti og umfjöllun 1. minni hluta gefur ekki sérstaklega tilefni til frekari umfjöllunar að svo komnu máli um það sem gerðist í störfum landbn. á milli umræðna.
    Með því að hér liggja fyrir brtt., virðulegi forseti, þá ætla ég til þess að skýra mína afstöðu til þeirra að ljúka af þeirri umræðu af minni hálfu eins og hún kemur mér fyrir sjónir. Þá er það í fyrsta lagi brtt. Ólafs Þ. Þórðarsonar og hans félaga sem kveður á um að við frv. bætist ný málsgrein sem hljóðar svo:
    ,,Rísi ágreiningur um túlkun þessara laga skal aðallega höfð hliðsjón af þeim skýringum sem fram koma í þskj. 671 á 117. löggjafarþingi.``
    Ég minni á það í upphafi að frá mínum bæjardyrum séð og eins og ég reyndar undirstrikaði við 2. umr. þá leikur hér enginn vafi á um lögskýringar. Það hefur reyndar komið fram hjá fleirum hér í þinginu að þessi texti væri alveg skýr og þar af leiðandi óþarfi að vera þar með frekari áréttingar eða öllu heldur áhyggjur út af hugsanlegri réttaróvissu. Ég vil í þessu sambandi og máli mínu til stuðnings vitna aðeins í greinargerð Markúsar Sigurbjörnssonar sem birt er í fylgiskjali I með frhnál. 1. minni hluta landbn. til þess að öll tvímæli í þessum efnum séu tekin af. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á fyrrnefndum fundi með landbn. lýsti ég þeirri skoðun að þessi brtt. á þskj. 758``, þ.e. brtt. Ólafs Þ. Þórðarsonar og hans félaga, ,,væri óþörf, auk þess sem lagasetning í þessum búningi væri óæskileg.``
    Þetta kemur nú fram hjá þessum merka lagaprófessor. Og enn fremur segir í greinargerðinni:
    ,,Um það hvort yfirleitt sé tilefni til að taka þetta fram verður að vekja athygli á að þótt athugasemdir við lagafrumvörp, nefndarálit og umræður á Alþingi geti skipt máli um skýringu á lögum reynir ekki á slík lögskýringargögn nema lagatexti, sem þau varðar, sé óljós eða merking hans orki tvímælis. Eins og hér háttar til fæ ég ekki séð að tilefni sé til að óttast að síðar geti komið upp vafi um merkingu einstaka ákvæða í sameiginlegum breytingartillögum 1. og 2. minni hluta landbúnaðarnefndar á þingskjali 672 sem kynni að þurfa að grípa til lögskýringargagna um. Textinn í þessum tillögum er að mínu mati nægilega skýr til að merking ákvæðanna geti talist ljós án hjálpargagna af þessum toga.``
    Þegar prófessorinn hefur fjallað nánar um þessi álit, þá kemst hann að þeirri niðurstöðu sem hér skal nú tilgreind:
    ,,Það er þó aðeins í einum af þessum sjö liðum sem ég fæ séð að 2. minni hluti nefndarinnar láti í ljós að hann sé ósammála útskýringum í áliti 1. minni hluta á merkingu einstaka ákvæða í breytingartillögunum. Þetta er nánar tiltekið í lið með fyrirsögninni ,,Undirverð`` í þingskjali 696 þar sem er vikið að merkingu ákvæðis í lið 2.4 í tillögu um hljóðan 72. gr. búvörulaga í þingskjali 672, en rétt er að taka fram að í ljósi orðalags ákvæðisins get ég á engan hátt samsinnt þeirri skoðun sem 2. minni hluti landbúnaðarnefndar heldur þar fram um skýringu þess.``
    Svo segir hér enn fremur, með leyfi forseta: ,,Í þessu ljósi leiðir álit 2. minni hluta landbúnaðarnefndar í þingskjali 696 að mínu mati ekki til neins vafa um að styðjast mætti við umfjöllun í þingskjali 671 ef síðar þyrfti að leita skýringa á einstaka atriðum í fyrirhuguðum breytingum á búvörulögum og er lögfesting reglu til að árétta þetta með öllu óþörf.`` Ég endurtek, virðulegi forseti: ,,og er lögfesting reglu til að árétta þetta með öllu óþörf.``
    Hér er sem sagt komist að þeirri niðurstöðu með afar skýrum hætti að lagatextinn sé alveg skýr og að nefndarálit 1. minni hluta sé hið eiginlega lögskýringargagn ef til þess þarf að koma að grípa til slíkra skýringa. Það er því alveg ljóst að sú tillaga sem hér er lögð fram, eins og reyndar kemur vel fram í þessu áliti prófessorsins og sérstaklega var leitað eftir að fá hans vitnisburð um þessi efni, er fullkomlega óþörf og óeðlileg og ég vil að það liggi alveg ljóst fyrir að ég mun greiða atkvæði gegn þessari tillögu ef hún verður borin upp hér á Alþingi.
    Þá hefur enn fremur verið dreift hér annarri brtt. frá Ragnari Arnalds o.fl. og að því leyti fagna ég reyndar þeim tillöguflutningi sem hér er hafður í frammi af stjórnarandstöðunni, og mæli þar af hreinskilni, að ég met það mikils hvað sá tillöguflutningur er þó veigalítill því að auðvitað eru ýmis efni í þessum brtt. sem orka tvímælis og ég hef margsagt það hér í þessari umræðu að ég hef t.d. áhyggjur af viðaukum I og II eins og áður hefur komið fram þó að ég beri fulla ábyrgð á þeim til þess að skýra og einfalda málið af þeirri ástæðu að það kann að vera að einhverjar vörur sem okkur eru ekki kunnar núna og

skýrist við frekari umfjöllun geti lent utan þessarar heimildar landbrh. og því verðum við að fygjast vel með.
    En svo að ég snúi mér aftur að þessum brtt. hv. þm. Ragnars Arnalds og meðflm. hans, þá hef ég um þær það að segja að a-liður brtt. er með skýrum hætti inni í 1. mgr. 72. gr. og það er enginn munur á skoðunum okkar í þessum efnum, ekki nokkur einasti munur. Ég vil hins vegar taka það fram af þessu tilefni að mönnum hefur hætt til að blanda því tvennu saman, annars vegar vörum og hins vegar hráefnum. Verðjöfnun á vörunum og heimildir til þess eru bundnar við það að sams konar vara sé framleidd í landinu, en það er tilgreint að það séu landbúnaðarhráefni sem verðjafnað er fyrir eða eru lögð til grundvallar í verðjöfnuninni og það er hvergi þrengt að þeim skilningi að þar sé um að ræða landbúnaðarhráefni, ekki bara íslensk heldur landbúnaðarhráefni. Þetta kemur m.a. greinilega fram í nál. 1. minni hluta, þessi skýring sem hefur nú verið staðfest sem hið eiginlega fylgigagn með þessu frv., og þar af leiðandi er það augljóst mál að texti frv. rúmar þá hugsun, og margtekið fram, sem felst í a-lið þessarar brtt. við 3. gr. Þetta vil ég sérstaklega undirstrika af þessu tilefni.
    Eins er með b-lið brtt. þar sem talað er um Úrúgvæ-lotu GATT-samningsins, ef þeir taka gildi hér á landi. Þetta segir út af fyrir sig nokkuð mikið í allri þessari umræðu að hér vilja menn lögfesta skýringu á væntanlegum GATT-Úrúgvæ viðræðum ef þær skyldu verða staðfestar hér á landi.
    Nú er þetta þannig eins og margsinnis hefur verið tekið fram að við erum að ræða hér um breytingar á búvörulögunum og í þessu tilviki erum við að leita að leiðum til þess að framkvæma útreikninga. Það er verið að lögfesta útreikningsreglur eins og hér hefur margsinnis verið sagt frá. Ég vitna enn til þess sem kom fram í umræðunni eins og hún féll hér við 2. umr. og með skýrri framsetningu í nál. 1. minni hluta því til stuðnings. En það er auðvitað ekki að tilefnislausu að í greinargerð lögmannanna þriggja er þetta enn fremur áréttað. Vil ég þá enn einu sinni minna á það sem hér hefur komið fram að texti frv. er skýr.
    Ég vil hins vegar færa hér máli mínu til frekari sönnunar fram það sem segir sérstaklega um þessi efni í greinargerð þeirra Gunnlaugs Claessens, Sveins Snorrasonar og Tryggva Gunnarssonar, enda er það fram komið í framhaldi af þeim fyrirspurnum sem fyrir þá voru lagðar á áðurgreindum fundi í landbn. þar sem þeir voru sérstaklega kvaddir til að svara og skýra þetta mál. Hér segir, með leyfi virðulegs forseta, þar sem þeir hafa reyndar fjallað líka um það efni sem sérstaklega var talað um þessi tvö nefndarálit 1. og 2. minni hluta landbn. Þar segja þeir út af þeirri réttaróvissu þar sem verið er að fjalla um hana:
    ,,Sem dæmi um þetta má vísa til orðalags 1. mgr. 72. gr. þar sem segir að ráðherra fái heimild til ,,að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur sem tilgreindar eru í viðaukum I og II með lögum þessum og jafnframt eru framleiddar hér á landi. Verðjöfnun á unnum og/eða samsettum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra.`` Þarna segir beint að heimildin til að leggja gjaldið á sé bundin við vörur, en einstök hráefni í vörunni koma síðan við sögu þegar fjárhæð verðjöfnunargjalds er reiknuð út eins og nánar verður fjallað um hér á eftir.``
    Og þar segir enn fremur, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þess eru dæmi að sérstaklega hafi verið samið um tiltekið innlent viðmiðunarverð í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að og bókunum við þá og taka til hlutaðeigandi innflutnings. Þessi aðstaða varð tilefni þess að liður 1.1 var settur inn í tillöguna. Í þeim tilvikum er hugsanlegt að samið hafi verið um slíkt viðmiðunarverð óháð því hvort viðkomandi hráefni sé framleitt hér á landi. Dæmi um slíkt er jurtaolía sem heimilað er að taka inn í verðjöfnun samkvæmt bókun 3 við EES-samninginn. Þannig eru ákveðnar tegundir af vörunni smjörlíki í viðauka II og sé smjörlíki í þessum sömu tollskrárnúmerum framleitt hér á landi er heimilt að verðjafna vegna hráefnisins jurtaolíu í innfluttu smjörlíki. Innlent viðmiðunarverð á hráefninu jurtaolíu er þá fundið eftir hinum sérstöku reglum bókunar 3.``
    Hér er sem sagt vitnað til þess að við höfum heimildir í milliríkjasamningum til að verðjafna fyrir landbúnaðarvörum þótt þær séu ekki framleiddar hér á landi. Og ég spyr nú: Lætur nokkur maður sér koma það til hugar að í löggjöf hér á Íslandi séu þessi ákvæði, þessi samningsgjörð þrengd? Skyldi það ekki vera alveg ljóst að þar gilda eins réttindi okkar eins og skyldur? Hér liggur því fyrir með algjörlega ótvíræðum hætti að þennan rétt eigum við og þessi réttur er undirstrikaður í 1. mgr. 72. gr. og þar af leiðandi er a-lið Ragnars Arnalds og hans félaga þar efnislega haldið til skila og tillaga hans um þessi efni því óþörf.
    Að því er varðar svo b-lið tillögunnar, þá er vert að vekja enn einu sinni athygli á því að hér er ekki verið að ganga frá milliríkjasamningum heldur reiknireglum og þetta er reyndar sett fram með skýrum hætti í nál. 1. minni hluta við 2. umr. en það vill svo til að lögmennirnir þrír, sem ég hef verið að vitna hér til og hafa lagt fram greinargerð sem birt er sem fskj. II, komast að þessari niðurstöðu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Verði breytingartillögurnar samþykktar`` --- þ.e. breytingartillögur 1. og 2. minni hluta --- ,,standa þær sem innlend lög þar til þeim verður breytt aftur af Alþingi. Leiði Úrúgvæ-samningur GATT til þess að heimildir Íslands til að beita verðjöfnun eða til að leggja gjöld á innfluttar vörur verði t.d. þrengdar [sem hugsanlegur kostur] ber landbúnaðarráðherra að taka tillit til þess við beitingu verðjöfnunargjaldaheimildanna.``
    Það liggur með öðrum orðum alveg ljóst fyrir að þær lagaheimildir sem hér eru gefnar ná til þeirra

samninga sem við erum aðilar að í þessum efnum.
    Þar með hef ég lýst afstöðu minni til þessara tillagna beggja. A-liðurinn er með skýrum hætti inni í 1. mgr. 72. gr. og það hefur verið margtekið fram varðandi þá alþjóðasamninga sem gerðir kunna að vera eða eru í gildi að tillögurnar ná auðvitað til þeirra. Það eru vörulistarnir sem marka réttindi landbrh. í þessum efnum, viðauki I opg II við lagafrv., og það nær til allra þeirra vara hvaðan í heiminum sem þær eiga uppruna, frá hvaða löndum og eftir hvaða leiðum þær eru fluttar til landsins, þ.e. hvaða samningar þar koma við sögu. Þess vegna er b-liður tillögunnar líka óþarfur og því mun ég greiða atkvæði gegn tillögunni í heild sinni --- sem er reyndar kannski viðauki við það sem ég átti sérstaklega erindi um, að skýra frhnál. 1. minni hluta, þá vildi ég að þessi afstaða lægi hér þegar í stað fyrir.