Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 14:17:31 (5712)


[14:17]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þessi ræða hv. 3. þm. Austurl. bar nokkurn keim af þeim málflutningi sem mjög hefur verið hafður í frammi af hálfu aðila --- ja ég veit ekki hvort hægt er að tala um stjórnarliðsins því að ekki hefur nú verið mikil samstaða um þessi mál, en það byggist á því að betra sé að byggja á því sem ekki stendur lögunum heldur en hafa textann skýran og kláran. Og á því hefur aldrei fengist nein skýring, ef hlutirnir eru svona skýrir og klárir eins og þeim er lýst, af hverju það má þá ekki standa í sjálfum lagatextanum. Á því hef ég aldrei fengið skýringu.
    Í öðru lagi varðandi það sem hv. þm. vitnaði í varðandi GATT, þá held ég að það verði að koma hér fram sem ekki kom fram, því miður, í þeirri skriflegu greinargerð sem Markús Sigurbjörnsson skrifaði en á fundinum sagði prófessorinn skýrt og greinilega að það sem viðkæmi GATT í nál. 1. minni hluta hefði enga þýðingu vegna þess að lagatextinn sjálfur væri ekkert um GATT og tilvísun í nál. sem ætti sér enga stoð í lagatextanum skipti engu máli. Og um það hafði prófessorinn þau orð að sá þáttur í nál., seinni hluta nefndarálits hv. þm. Egils Jónssonar og félaga, skipti engu máli því að hann væri um framtíðina sem ekkert væri tekið á í lagatextanum.