Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 15:12:08 (5718)


[15:12]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er að verða siðvenja hér að menn reyni að snúa út úr málflutningi manna og það henti nú hv. þm. Egil Jónsson eina ferðina enn. Það er einhver nauðvörn að verða að reyna að niðurlægja þingmenn og snúa út úr þeirra málflutningi. Ég hef aldrei haldið því fram að nál. væru borin hér upp og hv. þm. getur reynt að ljúga því að þjóðinni að einhver þingmaður sé svo vitlaus hér inni að hann haldi því fram. Það sem ég var að segja var það eitt að með því að fella brtt. Ólafs Þ. Þórðarsonar o.fl., þá væri þingmaðurinn í rauninni að segja að nál. sitt væri ekkert merkilegt.
    Hvað varðar greinargerð Markúsar Sigurbjörnssonar þá skal þingmaðurinn einnig fara rétt með. Markús segir í áliti sínu eitthvað á þá leið að hann teldi það betra að menn gerðu þá grein hér fyrir atkvæði sínu heldur en að fara þessa óvenjulegu leið sem við leggjum hér til að lögfesta nál. sem skýringargagn ef deilur koma upp. En fyrir því eru fordæmi. Það gerðist í EES-málinu svo nefnt sé.
    En ég hef hér vitnað í annan lagaprófessor sem ekkert er síðri að ég hygg í hugum lögfróðra manna, og hefur mjög fjallað um störf Alþingis, ég vitnaði í hér máli mínu til stuðnings. Sá er mismunur á áliti prófessors Ármanns Snævarrs og Markúsar Sigurbjörnssonar í þessu efni að hér geta allir þingmenn lesið álit Markúsar en hitt lá ekki fyrir. Þess vegna þótti mér það mikilvægt að koma því hér á framfæri.