Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 15:33:58 (5725)


[15:33]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hefur nú verið einkenni á málflutningi hv. 3. þm. Norðurl. v. að hann væri bæði skýr og nokkuð vandaður og þess vegna kom það mér á óvart að hann skyldi hafa hér yfir ummæli mín með jafnmiklum útúrsnúningi og raun bar vitni um. Ég tók það fram í minni ræðu að þeim áherslum sem koma fram í a-lið brtt. þessa hv. þm. er algjörlega til skila haldið í brtt. okkar fjórmenninganna. Og ég vildi kannski mega skýra frá því hér, af því að hv. þm. var ekki viðstaddur þessa umræðu í landbn., að sá hv. þm. sem mætti þar í hans forföllum var með miklar áherslur um forræðismálið og ég er sannfærður um það að hann hafði með þeim áherslum, sem ég út af fyrir sig var algerlega sammála, mikil áhrif á það hvernig frá þessum lagatexta var gengið og þetta er ég að segja honum til hróss. Í starfi nefndarinnar kom þessi texti fram mjög fljótlega og það komu aldrei fram nokkrar einustu ábendingar um að breyta þessum upphaflega texta að því er þetta varðar (Forseti hringir.) þannig að í hugum landbn. hefur það alla tíð verið alveg ljóst að textinn tæki til þeirra áréttinga sem hér eru og hafa verið margskýrðar. Þar af leiðandi er óþarfi að gera hér breytingar á og það er af þeirri ástæðu að ég greiði atkvæði á móti þessari tillögu.