Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 15:36:54 (5726)


[15:36]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það fram að ég flyt þessa brtt. í fullu samráði við hv. þm. Steingrím Sigfússon sem sótti nefndarfundi um þetta mál í fjarveru minni nokkrum sinnum og textinn í brtt. er einmitt orðaður á þennan veg vegna þess að hann var sammála mér um það að þetta væri ekki nægilega skýrt í lagafrumvarpstextanum þannig að það er einmitt í kjölfar þeirrar umræðu sem átti sér stað í landbn. sem þessi brtt. verður til.
    Í öðru lagi bendi ég hv. þm. á það að við 2. umr. málsins héldu hv. talsmenn Alþfl. fram öðrum sjónarmiðum um túlkun einmitt á þessari setningu heldur en hv. formaður landbn. Ég veit að hv. formaður landbn. minnist þess að túlkun hans annars vegar og túlkun vissra talsmanna Alþfl. hins vegar var ekki sú sama og þessi lagatexti er af okkar hálfu umorðaður í því skyni að hann geti verið í sem mestu samræmi við málflutning hv. formanns landbn. Ég tók það því þannig að hv. þm. væri sammála því sem hér stendur og ég flyt hér tillögu um og hann væri þar af leiðandi mjög jákvæður gagnvart textanum, en hann ætlaði sér samt sem áður að greiða atkvæði á móti. Og er það ekki einmitt kjarni málsins? Það er sú þversögn sem við stöndum frammi fyrir.