Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 15:39:02 (5727)


[15:39]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var nú mildara og skilmerkilegra yfirbragð á skýringum hv. 3. þm. Norðurl. v. í þeirri ræðu sem hann flutti núna. Ég árétta það sem ég sagði áðan og nú hafa enn frekar öll tvímæli verið tekin af um það að lagatextinn er alveg skýr. Það hefur verið farið yfir það af fjórum lögfræðingum, löglærðum mönnum, og þeir hafa vitnað um það að lagatextinn væri alveg skýr. Það eru gefnar skýringar í nál. 1. minni hluta um þessi efni hvernig túlka beri. Það hafa líka verið tekin af öll tvímæli um að það er það nál. sem gildir til skýringa um þessi efni, auk þess sem ég reyndar fagna því, og að því leyti er ég þakklátur hv. flm., að hafa getað hér marglýst því yfir að það hefur aldrei komið neitt annað fram í þessari umræðu í landbn. og engin ábending um annað en það að verðjöfnunin næði til landbúnaðarvara eins og skýrt er tekið fram í 1. mgr. 72. gr. og það eru hvergi neinar takmarkanir á því. Það er af þessari ástæðu sem málið liggur svo skýrt fyrir að frekari lagabreytingar, frekari breytingar á þessari grein eru gjörsamlega óþarfar.