Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 15:55:17 (5733)


[15:55]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Menn geta auðvitað haft sínar skoðanir á því hverjir standa sig og hverjir séu að gefa eftir. Ég læt mér í léttu rúmi liggja allar ávirðingar í þeim efnum. En hjá hinu komast menn ekki, menn komast ekki fram hjá því og geta ekki flúið sína eigin afstöðu, sitt eigið atkvæði. Hér segir hv. 6. þm. Suðurl.: ,,Fjórði minni hluti mun greiða atkvæði gegn frv. og breytingum á því og leggja til að það verði fellt``. ( EH: Lestu áfram.) ( Gripið fram í: Lestu áfram.) Ég get út af fyrir sig lesið áfram. En hann gerir þetta. Svo fremi sem ekki verða gerðar aðrar breytingar á frv. þá ætlar hann að greiða atkvæði á móti frv. og það er það sem skiptir máli. Og ef 32 þingmenn hefðu þessa afstöðu þá væri innflutningur á landbúnaðarvörum ( Gripið fram í: Hann er nú bara einn.) orðinn frjáls sama daginn og sú ákvörðun yrði tekin. (Gripið fram í.) Ég hef ekki vitað til þess að nokkur þingmaður vildi ganga fram með þessum hætti. Hér er trúlega um mikinn misskilning hjá hv. þingmanni að ræða. En það er hins vegar alveg óhjákvæmilegt, ekki síst miðað við þau orð sem hann hefur látið hér falla um vinnubrögð í landbn. og í minn garð að vekja athygli á því hvað afstaða hans er einkar skýr í þessum efnum.