Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 16:23:39 (5739)


[16:23]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir til 3. umr., frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, er búið að vera alllengi til meðferðar á Alþingi og um það hafa farið fram umræður og athuganir. Það sem sérstaklega hefur þó vakið athygli í því sambandi eru þær deilur sem um það hafa staðið innan ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Virðast þeir nú verða orðnir svo vígamóðir og að niðurlotum komnir að í þingsalnum er enginn úr stjórnarliðinu sem styður frv. Nú gengur raunar hv. formaður landbn. í salinn og er það vel því að mig langaði að spyrja hann örfárra spurninga í sambandi við þetta mál. En það vekur athygli að allir hæstv. ráðherrar eru farnir í burtu. ( EgJ: Þeir duga ekki. Ég skal skýra málin fyrir þér.) Ég vænti þess að hv. formaður landbn. geti skýrt málin vel, en hins vegar ber það nú svona nokkurn vott um mat hæstv. ráðherra á þessu málefni og málefnum landbúnaðarins að þeir skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að vera hér. Nú rætist úr þar sem hæstv. forsrh. kemur, en vissulega hefur það vakið athygli að hæstv. landbrh. hefur ekki sést hér í salnum við þessa umræðu.
    Það er óhætt að segja um þetta mál að það er ákaflega flókið tæknilega þar sem hafa þarf í huga erlenda viðskiptasamninga og margvíslega sundurliðun tollskrár og margt fleira. Því er óhætt að segja að það er fyrir neðan allar hellur að vinna að þessu máli á þann hátt sem hefur verið gert af hæstv. landbrh. og reyndar einnig hjá hv. landbn. Það er algerlega óviðunandi að þeim sem hafa næga þekkingu á málinu til þess að setja saman lagatexta sem ekki verður gagnrýndur eða vefengdur séu settar þröngar skorður um það hvernig þeir megi haga orðum sínum og jafnvel ekki breyta út af þeim eins og var með frv. sem lagt var fram í desembermánuði sl. þar sem ekki mátti hreyfa neinn staf. Með þetta mál var að vísu hafður annar háttur. Þar var þeim falið að vinna með heldur frjálsari hendur sem fengu málið til skoðunar og yfirlestrar og endurbóta, en þegar þeir höfðu lokið sínu verki var það hins vegar vegið og léttvægt fundið og af því höggnir hlutir og enginn veit raunverulega enn hvað það þýðir.
    Þar var deilt um hvort með þessu frv. væri verið að marka stefnu til frambúðar, þ.e. hvort það ætti að marka stefnu lengur en þetta ár. Við 2. umr. málsins sagði hæstv. utanrrh. að þetta veitti bændum öryggi og vissu um stöðu sína fram að næstu áramótum. Lengur taldi hæstv. utanrrh. ekki að þetta lagafrv. næði. Það sagði hann, hygg ég, nokkurn veginn orðrétt í ræðu við 2. umr. málsins.
    Nú er það svo að fyrir mér a.m.k. eru ekki allir hlutir skýrir í því fram að næstu áramótum. Ég er hér með bréf sem varaformaður garðyrkjubænda hefur ritað. Hann situr í innflutningsnefnd blóma. Í bréfinu segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég hef haft þann skilning alla tíð í störfum mínum í innflutningsnefnd að túlka afskorin blóm sem einn vöruflokk og sama gildir um pottaplöntur sem eru minni en einn metri. Fulltrúi viðskrn. í nefndinni hefur hins vegar viljað grasafræðilega skilgreiningu, þ.e. að heimila innflutning ef tegund er ekki til.
    Í umræddu frv. er óljóst hvernig menn hyggjast skilgreina það hvort ákveðin vara er framleidd á Íslandi eða ekki, t.d. hvort leggja megi vörugjald á liljur ef rósir eru til og þess háttar.``
    Þarna er bent á vafaatriði sem hlýtur að reyna á við framkvæmd laganna þegar þau hafa verið afgreidd. Ég vil spyrja hv. formann landbn. hvort svona hlutir hafi verið skoðaðir þannig að þeir séu alveg ljósir.
    Ég er ekki sammála því sem kom fram í máli hv. 18. þm. Reykv. áðan að það yrði þá að láta reyna á það fyrir dómstóli hvort lögin halda. Ég tel að Alþingi hljóti að verða að vanda sitt verk eins vel og hægt er til þess að til slíkra vinnubragða komi ekki.
    Ég minntist hér á ágreining um það hversu langt þessi lög munu ná. Ég nefndi það að hæstv. utanrrh. sagði að þetta mundi aðeins ná til næstu áramóta. En í greinargerð sem fylgir frhnál. 1. minni hluta landbn., II. fylgiskjali, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Verði breytingartillögurnar samþykktar standa þær sem innlend lög þar til þeim verður breytt aftur af Alþingi. Leiði Úrúgvæ-samningur GATT til þess að heimildir Íslands til að beita verðjöfnun eða til að leggja gjöld á innfluttar vörur verði t.d. þrengdar ber landbrh. að taka tillit til þess við beitingu verðjöfnunargjaldaheimildanna.``
    Mér skildist á hv. formanni landbn. þegar hann mælti fyrir sínu frhnál. við upphaf þessarar umræðu að þar með mundi þessi lagabreyting gilda einnig um Úrúgvæ-samning GATT og það sem hér er sagt gefi það í skyn. Ég vildi gjarnan fá það alveg skýrt hvort sá skilningur minn er réttur að út af fyrir sig séu þessi lög einnig fyrir Úrúgvæ-samning GATT eða hvort fullyrðing hæstv. utanrrh. sé rétt að þetta gildi ekki nema til næstu áramóta eða þegar Úrúgvæ-samningur GATT gengur í gildi sem hann virðist reikna með að yrði um næstu áramót.
    Það er annað sem vakti athygli mína í máli hv. formanns landbn. Hann sagði eitthvað á þá leið að við höfum í erlendum samningum heimildir til verðjöfnunar og dettur nokkrum í hug að slíkar heimildir verði þrengdar í íslenskum lögum? Ég þori ekki að fullyrða hvort þetta er orðrétt eftir haft og það er sjálfsagt alls ekki en þetta er sá skilningur sem ég fékk af orðum hans.

    Í 72. gr. laganna segir, eins og hún verður ef þetta frv. verður samþykkt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjárhæð verðjöfnunargjalds má að hámarki vera mismunur annars vegar á innlendu verði hráefnis, sem ákveðið er skv. 1. tölul., og hins vegar erlendu viðmiðunarverði, sem ákveðið er skv. 2. tölul.``
    Hér er verið að setja hámark. Þrengir þetta ekki heimildir samkvæmt íslenskum lögum? Reyndar var útreikningsheimildum samkvæmt Úrúgvæ-samningi GATT kippt út þegar tölul. 2.4 í þessari grein var breytt og tölul. 2.5 felldur út. Þar með er sú útreikningsheimild ekki lengur fyrir hendi í frv. Er þetta ekki hvort tveggja til þess að þrengja þær heimildir sem við vorum þó búin að fá í gegnum Úrúgvæ-samninginn og þá viðurkenningu sem við fengum? Eða er þetta kannski undirstrikun á því atriði að þetta frv. og þessi lög munu ekki gilda nema til áramóta eða þegar Úrúgvæ-samningurinn gengur í gildi?
    Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á þessu og því vildi ég gjarnan að hv. formaður landbn. gæfi skýringar á.
    Við 2. umr. vakti ég athygli á málsgrein í nál. 2. minni hluta landbn. þar sem hann taldi að með undanþágu sem féll niður við gildistöku laga um gjaldeyrismál 23. nóv. 1992, þá hefðum við afsalað okkur rétti til að endurvekja innflutningstakmarkanir. Þetta er tvímælalaust í mínum huga alvarlegasta atriðið í nál. 2. minni hluta landbn. og ég vil því spyrja hv. formann landbn. hvort landbn. hafi ekki fundist ástæða til þess að mótmæla þessu kröftuglega, hvort það hafi ekki verið tekið til meðferðar í landbn. Að vísu er reynt að ómerkja þetta nál. með brtt. sem Ólafur Þ. Þórðarson og fleiri flytja með því að leggja áherslu á gildi nál. 1. minni hluta. Þar með segir það að ekki skuli tekið mark á nál. 2. minni hluta. Það fór ekkert milli mála að hv. formaður landbn. er ekki reiðubúinn til þess að ómerkja nál. 2. minni hluta með þeim hætti sem sú brtt. gerir ráð fyrir. En ég tel ákaflega mikilvægt atriði að þessu sé harkalega mótmælt og hefði talið fulla ástæðu til að hæstv. landbrh. væri hér við og gæfi afdráttarlausa yfirlýsingu um þetta atriði við þessa umræðu. Þetta vegur það þungt í mínum huga.
    Er hæstv. landbrh. í húsinu? ( PP: Hann var í kaffistofunni áðan.)
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill upplýsa að hæstv. ráðherra er í húsinu og verða nú gerðar ráðstafanir til að ná í hann.)
    Ég hefði viljað fá tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra um þetta atriði.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti vill upplýsa að hæstv. ráðherra er kominn í salinn.)
    Ég þakka fyrir. Ég var að spyrja hv. formann landbn. hvort ekki hefði verið tekið til umræðu í nefndinni atriði sem ég vakti athygli á við 2. umr. málsins. Þar sem ekkert hefur komið fram um þetta hér taldi ég mjög æskilegt að hæstv. landbrh. lýsti einnig skoðun sinni á þessu atriði. Til þess að hæstv. ráðherra átti sig á því hvað ég er um að ræða, þá ætla ég að lesa þetta upp, með leyfi hæstv. forseta. Þetta er á bls. 7 í nál. 2. minni hluta landbn.:
    ,,Þetta þýðir að núgildandi GATT-samningur setur ströng skilyrði fyrir því að beita megi innflutningstakmörkunum á landbúnaðarvörur. Ísland var undanþegið þessari samningsskuldbindingu með ákvæði í bókun um aðild sína að GATT (svokölluðu ,,afaákvæði`` eða ,,grandfather clause``). Þar segir að Ísland skuli beita II. hluta samningsins (þar á meðal framangreindri 11. gr.) að svo miklu leyti sem hann er ekki í ósamræmi við lagaákvæði í gildi við dagsetningu bókunarinnar (þ.e. 30. júní 1967). Á þeim tíma var innflutningur á flestum landbúnaðarvörum bannaður með reglugerð nr. 3/1967, sbr. lög nr. 30/1960, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála.
    Framangreind undanþága féll niður 23. nóv. 1992 með gildistöku laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992. Þau felldu úr gildi lög um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, nr. 63/1979, sem komu í stað fyrrnefndra laga nr. 30/1960, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála. Ekki er heimilt samkvæmt GATT að endurvekja innflutningstakmarkanir sem hafa verið felldar niður.
    Samkvæmt þessu er eingöngu heimilt samkvæmt núgildandi GATT-samningi að takmarka innflutning á landbúnaðarvörum sem eru háðar framleiðslustýringu, þ.e. hrárri mjólk og kindakjöti. Ekki er heimilt að takmarka innflutning á öðrum mjólkurvörum en mjólk eða öðru kjöti en kindakjöti. Fjölmargir GATT-úrskurðir hafa fallið sem skýra þetta nánar. Nægir að nefna deilu Bandaríkjanna við Kanada varðandi innflutningstakmarkanir á ís og jógúrt. GATT-panelúrskurður féll í málinu í október 1989.``
    Þetta er í nál. sem kom skýrt fram við 2. umr. um málið að mundi að miklu leyti vera byggt á upplýsingum frá utanrrn. Hér er um svo alvarlega fullyrðingu að ræða af hálfu utanrrn. að ef hæstv. landbrh. ætlar að taka þessu með þögninni og samþykkja það þannig, þá er ég hættur að skilja hvernig menn ætla að halda á hagsmunamálum þjóðarinnar.
    Ég veit ekki hvaða ástæða er til að rekja mikið meira önnur atriði en þau sem ég hef verið að bera fram spurningar um. Það var margt í ræðum hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. við 2. umr. málsins sem menn hljóta að hrökkva við að skuli koma fram hjá ráðherrum í ríkisstjórn. T.d. vék hæstv. landbrh. að því að með dómi Hæstaréttar væri landbúnaðarlöggjöfin í uppnámi og það hefði valdið miklum glundroða í þessum málum og valdið því að menn væru mjög að setja landbúnaðarmálin í heild sinni í spéspegil og væru með útúrsnúninga, lagaþrætur og tilbúning. Það er vissulega alvarlegt þegar hæstv. landbrh. viðurkennir að þannig er á málefnum þessa atvinnuvegar haldið að niðurstaðan verður þessi.
    Ég vil að lokum taka undir það sem hv. 18. þm. Reykv. sagði áðan að við þær gífurlegu breytingar sem eru að verða á aðstæðum er að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir bændur að vita við hvaða aðstæður þeir eiga að búa. Ég hef vakið athygli á því áður. Því er það hörmulegt að með málefni þeirra skuli farið á þann veg sem hefur orðið síðasta ár á sama tíma og vandinn fer vaxandi. Og í staðinn fyrir að reyna að styðja þá í að vinna sig út úr honum, þá skuli vera haldið þannig á málum að niðurstaðan verði þessi.