Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 17:14:08 (5746)



[17:14]
     Frsm. 1. minni hluta landbn. (Egill Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Útreikningsreglurnar eru grundvöllur að þeirri niðurstöðu sem menn leita eftir hverju sinni og þær taka mið af þeim skýru viðmiðunum sem gilda með verðjöfnunargjöld að þar er um að ræða jöfnun á verði. Út af því sem hér kom fram í ræðu hv. 2. þm. Suðurl. um að það hafi verið þrengt að landbúnaðinum í sambandi við vörulistana I og II þá minnist ég þess að hv. þm. var þátttakandi í störfum landbn. þegar sérstaklega var fjallað um viðauka I og II. Þar var það samdómaálit landbn. að leitast yrði við að haga gerð þeirra lista þannig að þeir væru bundnir við markmið laganna um að tryggja samkeppnisstöðu landbúnaðarins og fara ekki þar út fyrir. Það er svo annað mál að heimildirnar gagnvart þessum vörum eru eftir sem áður fyrir hendi og verða væntanlega framkvæmdar af öðrum ráðuneytum. En það hefur verið alveg skýrt í mínum huga og ég vona að það sé sameiginlegur skilningur á því að viðauka I og II ætti sérstaklega að miða við þá sérstöku áréttingu að tryggja samkeppnisstöðu landbúnaðarins sem slíks.