Rannsóknir á heimilisofbeldi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 17:27:34 (5750)


[17:27]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil í örfáum orðum lýsa yfir stuðningi mínum við þessa tillögu og fagna því að hún skuli vera hér fram komin. Hér er um mjög alvarlegt en áríðandi efni að ræða og ég tek undir þau orð fyrsta flm. að könnun á ofbeldi gegn konum, orsökum þess og afleiðingum, er mjög brýn.
    Ég minnist þess að fyrir allmörgum árum var samþykkt hér á hinu háa Alþingi að gera úttekt á nauðgunarmálum, meðferð þeirra í dómskerfinu og víðar, og var sett á laggir nefnd sem kannaði þau mál. Sú könnun leiddi til ákveðinna úrbóta í þeim málum sem reyndar tók langan tíma að fá í gegn og ég hygg að ef staðið yrði að málum á svipaðan hátt í því máli sem hér er til umræðu, ofbeldi gegn konum, þá mundi það leiða til tillagna og úrbóta á þessu sviði.
    Það vill svo til að ofbeldi gegn konum og reyndar börnum líka er alþjóðlegt fyrirbæri, en það er reyndar líka sögulegt fyrirbæri, þetta er mjög gamalt og þekkt úr sögunni. Ég minnist þess í Grágás, lögum þjóðveldisins, er ákvæði um það að karlmönnum sé heimilt að lemja eiginkonu sína með priki sem megi þó ekki vera þykkara en þumalfingur en séu þær barnshafandi þá megi þó ekki sjá á þeim. Þannig hljóðar ákvæði í Grágás. Ég minnist þess að það hafi verið svipuð ákvæði í rússneskum lögum sem heimila ofbeldi gegn eiginkonum. Þannig að við erum hér að ræða um mjög gamalt fyrirbæri sem þótti sjálfsagt á

sínum tíma. En það er ekki þar fyrir að það er að finna í þjóðfélaginu mikið dulið ofbeldi, bæði líkamlegt og andlegt. Það er mjög brýnt að fá það fram hversu víðtækt það er, hvort það er meira eða minna hér á landi en annars staðar, um það höfum við enga hugmynd, og ekki síst að greina það hverjar eru orsakirnar því að við komumst aldrei fyrir þennan vanda öðruvísi en vita hverjar orsakirnar eru. Hvað er það sem veldur því að karlmenn grípa til líkamlegs ofbeldis og reyndar andlegs í miklu ríkara mæli heldur en konur gera? Það hefur verið kannað að hlutfallið þarna á milli er aldeilis himinhrópandi. Það er ekki síður brýnt að átta sig á því hvað hægt er að gera til að aðstoða menn sem þannig haga sér því að það gefur auga leið að á bak við það að beita ofbeldi liggur mikil vanlíðan. Það er auðvitað mjög brýnt að aðstoða konur og hefur verið unnið þrekvirki í því hér á landi þó að reyndar þurfi að gera miklu meira, en það þarf líka að snúa sér að körlunum og kanna hvað býr að baki og hvernig hægt er að hjálpa mönnum sem eiga við slík --- mér liggur við að segja veikindi að stríða að finnast þeir þurfa að beita líkamlegu ofbeldi.
    Ég hygg að þarna séum við að fást við mjög djúpar orsakir ef þannig mætti að orði komast. Við erum bæði að tala um líðan einstaklinga og þeirra aðstæður, en við erum líka að tala um hefðir, viðhorf og félagsmótun sem fólk verður fyrir og þjóðfélagsgerð. Þó er reyndar, eins og ég kom inn á áðan, ofbeldi gegn konum alþjóðlegt fyrirbæri og virðist litlu máli skipta hvers konar þjóðfélög eru þar á ferð. Það hefur m.a. komið fólki á óvart sem hefur verið að kanna afrísk samfélög, þar sem staða kvenna hefur jafnvel virst betri heldur en víða annars staðar, hversu mikið er þar um líkamlegt ofbeldi. Við erum því að tala hér um mjög gamalt félagslegt fyrirbæri sem tengist þeim karlveldissamfélögum sem eru algengust á okkar jörð.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég minnast á það að þau samtök sem hér hafa orðið til, þ.e. Kvennaathvarfið og Stígamót, sem hafa unnið alveg gríðarlega gott starf, þau þurfa á miklu meiri stuðningi að halda heldur en þau fá nú þegar til þess að þau geti sinnt sínu starfi og til þess að þau geti sjálf staðið fyrir einhverjum könnunum. En það breytir ekki því að það sem í þessari tillögu felst er mjög af hinu góða og það þarf að gera slíka víðtæka könnun til þess að við getum betur áttað okkur á því hvað gera þarf til úrbóta.
    Allra síðast langar mig til að vekja athygli á því að þessi umræða um ofbeldi í samfélaginu byrjaði á því að vakin var athygli á ofbeldi gegn konum. Síðan beindist umræðan mjög að ofbeldi gegn börnum og þá ekki síst kynferðislegu ofbeldi, en síðasti angi þessarar ofbeldisumræðu sem ég hef heyrt um er ofbeldi gegn gömlu fólki. Það er eitt af þeim fyrirbærum sem hefur verið að koma fram. Það er margt sem kemur fram þegar farið er að skoða fjölskyldumunstrið og mér vitanlega hefur þetta ekkert verið kannað hér á landi en þyrfti að gefa gaum. Þarna er oftast um það að ræða, eftir því sem kannanir í Noregi sýna, að börn beita aldraða foreldra sína ofbeldi. Og oft er það þar sem foreldrar búa með fullorðnum börnum sínum eða jafnvel börnin eru flutt að heiman en það myndast eitthvert slíkt samband eða aðstæður að börn beita gamalt fólk ofbeldi. Þetta er enn einn angi þessa leiðindamáls sem þarf líka að gefa gaum.