Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 17:43:14 (5753)


[17:43]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi. Flm. að tillögunni ásamt mér eru þingmennirnir Jón Helgason, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Pálmi Ólason, sem sat hér á þingi sem varamaður hv. 7. þm. Norðurl. e., Sigbjörns Gunnarssonar, þegar tillagan var flutt en Sigbjörn var í hópi flm. á síðasta þingi.
    Þessi tillaga okkar fjögurra var lögð fram skömmu fyrir þinglok sl. vor en komst þá ekki til umræðu. Þó að svo færi þá tók forsætisnefnd þingsins mér vitanlega málið fyrir og hefur nokkuð verið um það fjallað á vettvangi nefndarinnar en þar sem ekkert hefur, mér vitanlega, gerst raunhæft í málinu frá því að tillagan var flutt á fyrra þingi er hún nú flutt óbreytt.
    Það er rétt, virðulegur forseti, að ég kynni tillöguna sjálfa en efni hennar er svofellt, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd þingsins að tryggja að sjónvarps- og útvarpssendingar frá fundum Alþingis nái til landsins alls eigi síðar en við upphaf nýs þings í haust.``
    Í greinargerð er rakið í stuttu máli hvernig að því var staðið að vorið 1992, í aprílmánuði, hóf sjónvarpsstöðin Sýn útvarpssendingar frá fundum Alþingis. Það er mál manna að þær útsendingar hafi vakið mikla athygli. Hins vegar er sá galli á að útsendingarnar ná aðeins til suðvesturhorns landsins og íbúar landsbyggðarinnar utan þessa svæðis eiga þess ekki kost að fylgjast með þessum útsendingum.
    Þegar samningar voru gerðir milli stjórnar þingsins og sjónvarpsstöðvarinnar Sýn 8. apríl 1992 var gert ráð fyrir því að unnið yrði að stækkun dreifingarsvæðis Sýnar, en lítið virðist hafa gerst í því máli.
    Skrifstofustjóri Alþingis hefur góðfúslega veitt mér aðgang að bréfaskiptum sem fram hafa farið milli forustu þingsins og Ríkisútvarpsins sem og sjónvarpsstöðvarinnar Sýn, bæði í aðdraganda þess að sendingar hófust á vegum Sýnar frá fundum Alþingis sem og á sl. sumri. Ég þakka fyrir það. Jafnframt hef ég með höndum bréf frá fjórum þingflokkum Alþingis sem sendu forsætisnefnd þingsins erindi í aðdraganda þess að hafnar voru sjónvarpssendingar frá fundum þingsins. Í þessum erindum þingflokkanna er yfirleitt á það lögð áhersla að hið fyrsta verði séð til þess að sendingar þessar takmarkist ekki við suðvesturhorn landsins heldur nái sem fyrst til annarra landshluta.
    Ég tel því að það séu mjög gildar ástæður fyrir því að þetta mál er nú tekið upp hér með flutningi þessarar tillögu. Ég vil minna á það að þegar þingsköp voru endurskoðuð á Alþingi eftir síðustu kosningar og þingið tók að starfa í einni deild, þá var þetta eitt af þeim málum sem kom til umræðu til breytinga á þingsköpum. Í nefndaráliti um frv. til laga um þingsköp Alþingis frá 114. löggjafarþingi, áliti sem gefið var út 29. maí 1991 og undirritað, má ég segja, af öllum fulltrúum í þeirri nefnd sem um þau fjallaði segir, með leyfi forseta, undir liðnum ,,Stöðugt útvarp frá Alþingi``:
    ,,Nefndin leggur til að forsætisnefnd láti kanna sem fyrst tæknilega möguleika og kostnað við að útvarpa stöðugt á sérstakri rás umræðum á Alþingi. Bendir nefndin á að slíkt verður auðveldara þegar Alþingi er komið í eina málstofu.``
    Þarna kom þessi vilji fram þegar vorið 1991. Það er síðan ári síðar og á þinginu á eftir sem fjallað er um þetta efni sem leiddi til núverandi skipunar, þ.e. að sjónvarpsstöðin Sýn hóf þessar útsendingar. Áður hafði verið um þessi mál rætt við Ríkisútvarpið en samningar voru ekki gerðir við það sem margir hefðu þó e.t.v. talið eðlilegt. Það fóru fram bréfaskipti við Ríkisútvarpið og viðræður á þeim tíma og ég hef hér afrit af erindi frá Ríkisútvarpinu frá 17. mars 1992 varðandi stöðugt útvarp frá Alþingi til allra landsmanna þar sem er að finna úttekt tæknideildar Ríkisútvarpsins. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Af henni verður ráðið`` --- þessari úttekt --- ,,að heildarstofnkostnaður vegna rásar er útvarpar stöðugt frá Alþingi til allra landsmanna nemi kr. 400 millj. eða þar um bil. Árlegur rekstur landsrásar Alþingis er talinn munu verða um 35 millj. kr.`` Þar segir jafnframt: ,,Ekki verður annað ráðið af ofangreindum bréfum og nefndaráliti`` --- það var m.a. það nefndarálit sem ég vitnaði til hér áðan --- ,,en ætlunin sé að útvarpa um Ísland allt. Staða Alþingis er reyndar slík að að útvarpa til hluta þjóðarinnar kemur vitaskuld ekki til álita.`` --- Þetta segir útvarpsstjóri í þessu bréfi. --- ,,Því eru kostnaðaráætlanir miðaðar við heildardreifikerfi er tekur nánast til allra byggðra bóla líkt og Ríkisútvarpið, rás 1.``
    Í bréfaskiptum sem fram hafa farið milli forsætisnefndar þingsins við sjónvarpsstöðina Sýn eftir að tillaga þessi var flutt fyrst sl. vor kemur m.a. fram að ástæðurnar sem Sýn ber við að hafa ekki fylgt eftir þeim óskum að færa út dreifingarsvæðið frá því sendingar hófust vorið 1992 eru þær að sjónvarpsstöðin sé að bíða eftir nýju frv. til útvarpslaga og afgreiðslu Alþingis á því. Ég vil ekki leiða neinum getum að því hvaða tengsl séu þarna á milli en þetta kemur skýrt fram í erindum frá útvarpsstjóra Sýnar. Virðist sem hann telji það vera helstu hindrunina í vegi þess að Sýn yfirleitt taki afstöðu til þess að verða við þeim óskum sem margítrekaðar hafa verið um að sjónvarpa víðar heldur en verið hefur og að séð verði til þess að sendingar nái til landsins alls hið fyrsta. Ég leyfi mér hér, virðulegur forseti, að vitna í bréf frá 21. sept. 1993 til skrifstofustjóra Alþingis frá útvarpsstjóra Sýnar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar samningur Sýnar og Alþingis um sjónvarpssendingar var undirritaður þann 8. apríl 1992 var við því búist að frv. til nýrra útvarpslaga yrði lagt fram og jafnvel afgreitt á Alþingi á haustþingi það sama ár. Á grundvelli nýrra útvarpslaga var ætlunin að taka ákvörðun um framtíðarskipan mála hjá Sýn þar með talið um stækkun á dreifikerfi.``
    Síðar í erindinu segir: ,,Á meðan ekki er ljóst hver sá lagarammi verður sem Sýn verður gert að starfa í er ekki tímabært að taka stefnumarkandi ákvarðanir um dagskrá Sýnar og útbreiðslu. Af hálfu Sýnar er gert ráð fyrir því að þangað til línur skýrast í þessu efni verði Sýn áfram heimilt að sjónvarpa frá þingfundum í samræmi við samkomulagið frá 8. apríl 1992.``
    Þarna kemur þessi afstaða skýrt fram og hún er raunar ítrekuð aftur í erindi frá Sýn 15. nóv. sl. Hér er því greinilega um verulega fyrirstöðu að ræða að taka yfirleitt á málinu af hálfu sjónvarpsstöðvarinnar sem fékk þessa heimild í apríl 1992.
    Ég tel að það megi ekki dragast af hálfu forustu þingsins að taka á þessu máli, hvort sem um er að ræða gagnvart Sýn eða á samningum við aðra aðila, eins og Ríkisútvarpið sem ítrekað hefur verið fjallað um þessi efni við og m.a. á síðasta ári að bréf gengu þar á milli. Fram hefur komið vilji og áhugi af hálfu Ríkisútvarpsins til að taka á þessu efni þó þar séu tæknilegar hindranir að tryggja það með skjótum hætti að fundum Alþingis verði útvarpað og sjónvarpað til landsins alls á vegum Ríkisútvarpsins.
    Ég skal ekki leggja mat á þá greinargerð sem ég vitnaði til varðandi kostnað sem fram kom hjá útvarpsstjóra í því erindi sem ég vitnaði til hér áður en ég tel fulla ástæðu til þess að láta endurmeta þann þátt málsins og skoða það betur. Vissulega er þar um allnokkrar upphæðir að ræða í sambandi við tilkostnað en jafnframt verður að hafa í huga að það er algert frágangsatriði að halda áfram þeirri skipan sem verið hefur að heimila sjónvarpssendingar frá Alþingi sem ná aðeins til höfuðborgarsvæðisins og lítils háttar út fyrir það. Í rauninni eingöngu til svæða við Faxaflóa. Það er mín skoðun að þetta sé með öllu óviðunandi og óboðlegt landsmönnum að una þeirri skipan. Ég tel að það hafi allt of lengi dregist í raun að tekið væri stefnumarkandi á málinu af forustu þingsins og á þessu verði að ráða bóta hið allra fyrsta og þannig, eins og tillagan gerir ráð fyrir, verði tryggt að fyrir upphaf næsta þings, þ.e. fyrir 1. okt. 1994, verði séð til þess að hér verði breyting á og helst, eins og tillagan kveður á um, að sjónvarps- og útvarpssendingar frá fundum Alþingis nái til landsins alls eigi síðar en við upphaf komandi þings.
    Ég held, virðulegur forseti, að ég þurfi ekki að rökstyðja þetta sjónarmið mikið frekar. Mér finnst það svo augljóst --- ég vil ekki nota stór orð um það þó þau séu nærri minni tungu en ég tel að það sé þannig viðhorf sem endurspeglast til fólks utan þessa aðalþéttbýlissvæðis að það geti í rauninni ekki endurspeglað raunverulegan vilja manna hér á Alþingi. Ég vil ekki trúa því.
    Spurningin um það hvort útvarpssendingar eða hljóðvarpssendingar einar sér séu til bóta hefur komið fram. Ég hef heyrt ýmsa nefna þann möguleika. Það er mitt sjónarmið að það væri veruleg bót að því að hljóðvarpssendingar næðust til landsins alls jafnhliða auðvitað, sem æskilegt er, að sjónvarpssendingar nái einnig til allra landsmanna. En ég bendi á það að ýmsir geta hagnýtt sér hlustun á mælt mál héðan frá Alþingi, bæði á ferðalögum og jafnvel samtímis því sem þeir sinna öðrum störfum fyrir utan það að hlýða á slíkt í frístundum eftir því sem hugur manna stendur til.
    Ég vil því hvetja forustu þingsins eindregið til þess að taka nú alveg á næstunni á þessu máli og leita til þingflokka eftir því sem ástæða er talin til að gert verði. En í rauninni tel ég að sjónarmið þingsins liggi fyrir og hafi komið fram strax vorið 1991 þegar þingið var sameinað í eina málstofu og á þessu verði nú að verða skjót breyting. Fjármunir mega ekki ráða úrslitum. Hér er um svo stórt mál að ræða og

stefnumarkandi mál gagnvart þjóðinni að fjármunir mega ekki ráða úrslitum vegna þess að það er ekki hugur neins að á þessu verði einhver verulegur dráttur. Það getur ekki verið hugur manna.
    Ég legg til, virðulegur forseti, að þessu máli verði vísað að lokinni umræðu til síðari umr. En ég vil jafnframt óska eftir því að forsætisnefnd Alþingis fái tillöguna til skoðunar á milli umræðna þannig að þegar málið kemur til síðari umr., vonandi fyrir þinglok, þá liggi fyrir stefnumarkandi álit og tillögur af hálfu forsætisnefndar þingsins um málið.