Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 18:03:24 (5755)


[18:03]
     Björn Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. flm. málsins fyrir að hreyfa þessu máli hér. Það er tímabært að ræða þetta á þeim forsendum sem hér eru kynntar. Eins og við vitum og fram hefur komið hefur þegar um nokkurt skeið verið sjónvarpað héðan beint fyrir tilstilli sjónvarpsstöðvarinnar Sýnar. Það ber að hafa það í huga þegar litið er á þetta mál að kröfur um að útvarpa frá Alþingi hafa löngum verið hafðar uppi án þess að til þeirra væri tekið af Ríkisútvarpinu. Sérstakar nýjar forsendur sköpuðust að sjálfsögðu þegar þingið varð að einni málstofu. Þá varð það allt umsvifaminna, ef svo mætti að orði komast, að halda uppi útvarpi frá Alþingi. Það hefði því mátt ætla að þá ykist áhugi jafnframt hjá Ríkisútvarpinu, sem á jú að veita sem besta þjónustu og starfar með háleit markmið eins og við öll vitum, að sinna þessari þjónustu, að nýta sér þetta tækifæri sem gafst þegar Alþingi varð að einni málstofu til þess að bjóða hlustendum sínum slíka þjónustu. Það hefur ekki orðið og þeir sem riðu á vaðið eru einkaaðilar. Það er ekki fyrr en eftir að einkaaðilar koma til sögunnar sem þetta frumkvæði kemur. Það var ekki frumkvæði Alþingis heldur var það frumkvæði eigenda stöðvarinnar sem réði því að í þetta var ráðist og Alþingi samþykkti það. Nú höfum við haft þessa tilraun, ef þannig mætti að orði komast, því ég lít þannig á að þetta sé tilraun á meðan útsendingarnar ná ekki til stærri hóps og líka er óvíst um framtíð sjónvarpsstöðvarinnar því það kann að breytast einnig hjá eigendum hennar til hvers þeir nýta þennan geisla sem þeir nota til að senda héðan.
    Þetta tvennt finnst mér því að beri að hafa í huga, þ.e. annars vegar að það þurfti frumkvæði einkaaðila til að þetta yrði og einnig breyttust forsendur þegar Alþingi kom í eina málstofu.
    Ég verð að lýsa því yfir að ég er undrandi á því hvernig Ríkisútvarpið hefur tekið á þessum málum um langt skeið. Þegar þær yfirlýsingar komu um að það kostaði 400 millj. kr., jafnvel aðeins hljóðvarpssendingar, héðan úr þinghúsinu þá finnst mér það með miklum ólíkindum að það skuli vera komið til Alþingis með þau skilaboð þegar um þetta er spurt að það sé hægt að verða við þessum tilmælum en það kosti bara 400 millj. kr. Ég hélt nú að tæknin væri orðin þannig og henni hefði fleygt svo fram við að nota ljósvakann að það þyrfti ekki að efna til slíks kostnaðar þótt menn gerðu tilraunir til að leyfa öllum landslýð að fylgjast með því sem hér gerist í beinni útsendingu á hljóðvarpi því ég held að það sé lengra í land að unnt verði að koma upp sjónvarpskerfi sem nær til landsins alls þegar það kerfi sem við búum við núna nær ekki einu sinni til allrar höfuðborgarinnar eins og fram hefur komið.
    Ég lít þannig á að hér beri Ríkisútvarpinu sérstök skylda í þessu máli og það þýði ekki þegar Alþingi hreyfir því við Ríkisútvarpið að veita hlustendum þessa þjónustu að koma til þingsins og segja að það kosti 400 millj. kr. Ég held að 400 millj. kr. kostnaður sé í nánd við tölur sem menn eru að tala um ef Íslendingar ætla að fá aðgang að gervihnattarás til að nýta til útsendinga á sjónvarpsefni og hljóðvarpsefni og það sé í þeim tölum sem menn eru að tala þegar þeir nefna þessar fjárhæðir. Það hlýtur að vera unnt með kostnaðarminni hætti að að verða við þeim sjálfsögðu óskum sem héðan koma um að þessu verði sinnt. Sjálfur hefði ég átt von á því að Ríkisútvarpið sæi sóma sinn í því að hafa meira frumkvæði í þessu máli heldur en raun ber vitni um og liti á það sem skyldu sína að veita hlustendum sínum þessa þjónustu.
    Ég vildi láta þetta koma fram, frú forseti, að mér finnst að það sé svo sjálfsagt mál að það þurfi ekki að vera að velkjast með það lengi. Ég sat í forsætisnefnd fyrir tveimur árum og þá var þetta mál á dagskrá þar og það hefur hvað eftir annað verið hér á dagskrá en alltaf virðist það stranda á því að Ríkisútvarpið kemur með gagntilboð sem hljóðar upp á 400 millj. kr. ef ekki hærri fjárhæðir þegar þingmenn hreyfa þessu máli.