Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 18:10:57 (5758)


[18:10]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að lýsa stuðningi mínum við þá tillögu sem hér hefur verið mælt fyrir. Það hafa mörg viturleg orð fallið í þessari umræðu en mér finnst þessi tillaga fyrst og fremst eiga rétt á sér og vera nauðsynleg vegna lýðræðisins í landinu. Til þess að fólkið í landinu geti fengið rétta mynd af því hvað er að gerast í þessari stofnun og hvernig hið pólitíska ástand er á hverjum tíma. Vald fréttamanna er ákaflega mikið og ég er ekki viss um það að menn geri sér grein fyrir því hvað vald fréttamanna í þessu litla þjóðfélagi okkar er mikið. Við hugsum okkur að við búum við þrískiptingu valdsins, þ.e. við löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, en stundum finnst mér að það megi bæta við

fjórða valdinu, þ.e. valdi fréttamanna. Við eigum fjöldann allan af færum fréttamönnum og það kemur fyrir þegar ég hitti þá á morgnana á göngum eða í kaffistofu að ég spyrji þá hvað þeir ætli að láta gerast í dag því það skiptir í raun og veru sáralitlu máli hvað við segjum og gerum hér, þingmenn og ráðherrar, það er það sem berst til þjóðarinnar af því sem hér gerist sem máli skiptir og það er ekkert víst að þjóðin fái rétta mynd af því sem hér gerist, jafnvel þótt einstakir fréttamenn séu yfirburðamenn á sínu sviði og ég efa það ekki að þeir eru fullir af samviskusemi og vilja gjarnan bera héðan réttar fréttir. Þá er að sjálfsögðu dómgreind hinna einstöku fréttamanna kannski dálítið afstætt orð. Sumum fréttamönnum kann að vera eitt viðfangsefnið hugleiknara en önnur og segja þá fremur af því. Þeim er skapaður naumur tími eða stuttir dálkar til þess að segja frá því sem er að gerast og síðast en ekki síst hefur sú þróun orðið að það er einn stjórnmálaflokkur sem hefur hið raunverulega vald yfir hér um bil allri fjölmiðlun á Íslandi.
    Ég er ekki að segja að þessu valdi sé öllu misbeitt og við fáum prýðilega þjónustu hjá fjölmiðlum í eigu sjálfstæðismanna. En við erum þá líka upp á þeirra náð komnir að vissu leyti. Stundum er fjölmiðlunum stýrt með næsta einkennilegum hætti. Sjónarmið eru útilokuð eða falin. Ég hygg að skýrasta dæmið um þetta sé Morgunblaðið. Stundum hefur Morgunblaðið, og sem betur fer mjög oft, verið í fararbroddi með fréttir frá Alþingi. Ég minnist yfirburða blaðamanna sem þar hafa starfað svo sem eins og Stefáns Friðbjarnarsonar. Þó hann væri náttúrlega mjög ákveðinn flokksmaður og á tímabili mikill foringi í sinni heimabyggð í Sjálfstfl. þá gætti hann hlutleysis og samviskusemi og var mjög fljótur að greina kjarnann frá hisminu og kom fréttum í Morgunblaðið mjög rækilega þannig að það bar af öðrum fjölmiðlum í hans tíð með fréttaflutning frá Alþingi. En það hefur orðið breyting á í seinni tíð og ég tel að það hafi sigið á ógæfuhlið. Fréttir sem ritstjórn Morgunblaðsins þykja óþægilegar eða hættulegar eru annaðhvort ekki sagðar í blaðinu eða þá faldar aftarlega í blaði og látið lítið á þeim bera.
    Ég ætla ekki að ræða í löngu máli um fréttastofur sjónvarpsstöðvanna. Ég hef stundum gert athugasemdir við fréttastofu Ríkissjónvarpsins eða vinnubrögð þar, sérstaklega um tiltekin mál. Þó eiga þeir sínar góðu stundir líka. Undanfarið hefur fréttastofa Stöðvar 2 að mínum dómi staðið sig býsna vel. Þó finnst mér eiginlega nokkuð broslegt að fylgjast með síðustu daga þó það komi kannski ekki Alþingi við þá skiptir það stjórnmálalífið í landinu nokkru. Það er broslegt hvernig fréttastofa Stöðvar 2 undanfarna daga hefur baslað við að auglýsa upp nýjan borgarstjóra í Reykjavík. Það er aldeilis með ólíkindum að fylgjast með þeim fréttaflutningi. Ég segi þetta svona sem dæmi um það hver hætta getur verið á vandræðagangi hjá fjölmiðlunum.
    Ég tel að það hafi verið stórkostlegt framfaraspor fyrir lýðræðið í landinu þegar forráðamenn Stöðvar 2 fóru að sjónvarpa á Sýn frá Alþingi á sínum tíma og það hefur verið lýðræðinu verið mjög til framdráttar. Nú er ég ekki að segja að við höfum alltaf rétt fyrir okkur, við sem ekki erum sjálfstæðismenn á Alþingi. ( Gripið fram í: Miklu oftar.) Miklu oftar, kallar hv. þm. og ég er honum að vissu leyti sammála um það. Það er mitt viðhorf. En ég tel að báðir aðilar eigi hinn fyllsta rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri eða þá vera dæmdir fyrir þá vitleysu sem við förum með í ræðustólnum ef svo ber undir. En því miður nær Sýn ekki nema til hluta þjóðarinnar og það er náttúrlega ástand sem ekki er viðunandi og alls ekki viðunandi til frambúðar. Það var mjög mikið framfararspor þegar Sýn fór að sjónvarpa en útbreiðslan er of lítil. Ég er sammála því sem hér hefur komið fram að ég tel að Ríkisútvarpinu beri skylda til að sinna þessu máli og Ríkisútvarpið eigi ekki að þurfa að prísa það með þeim hætti sem hér hefur komið fram.
    Frú forseti. Ég styð sem sagt eindregið þessa tillögu.