Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 18:52:37 (5769)


[18:52]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur farið fram um málið og þátttöku margra hv. alþm. í umræðunni og jákvæðar undirtektir við þessa tillögu. Það kom mér vissulega ekki á óvart að það væri áhugi á því hjá fleirum en okkur flm. að ráða bót á því ástandi sem nú ríkir í þessum efnum að aðeins hluti þjóðarinnar á þess kost að fylgjast með störfum Alþingis í beinni útsendingu og ég treysti því að á þessu verði ráðin bót mjög fljótlega.
    Ég met það mikils að forseti þingsins hefur tekið þátt í þessari umræðu og lýst viðhorfum sínum

til málsins og að forsætisnefnd mun taka tillöguna til umfjöllunar þegar hún berst nefndinni. Ég vænti þess fastlega að áður en Alþingi verður frestað að vori, þá liggi fyrir afgreiðsla á þessu máli og það liggi fyrir viðhorf forsætisnefndar jafnframt og ábendingar um það hvernig megi ná þeim markmiðum sem við höfum sameinast um í orði að þurfi að nást fram hið allra fyrsta.
    Ég tek einnig undir það sjónarmið sem hér hefur komið fram að auðvitað þurfa sendingar frá Alþingi og frá íslenskum ljósvakamiðlum að ná sem víðast um íslenskt yfirráðasvæði, þ.e. til fiskimiðanna, og er það mál út af fyrir sig hversu illa hefur gengið í þeim efnum, þar á meðal sú veiking á langbylgjusendingum sem orðið hefur á undanförnum árum þannig að þjónusta sem áður var í þessum efnum er ekki til staðar í sama mæli og áður var.
    Ég tók líka eftir því að einstaka þingmenn viku að því að það væri ekki séð fyrir fjölmiðlun frá þinginu, ekki einu sinni yfir á skrifstofur alþingismanna. Þetta eru auðvitað ekki viðunandi aðstæður. Ég get sagt frá því til gamans að ég leysti þetta vandamál á minni skrifstofu með því að taka gamalt og lélegt sjónvarpstæki í svart/hvítu einfaldlega til þess að geta heyrt mál manna en ekki til að njóta myndar. Ég býst við að fleiri hafi brugðið á það ráð til þess að geta á sínum skrifstofum fylgst með því sem hér er að gerast í þingsal jafnframt því sem þeir eru að sinna öðrum verkum meðan á þingfundi stendur.
    Það kom fram ábending frá formanni þingflokks Framsfl. í umræðunni að til greina komi að hliðra til fundartíma Alþingis. Þó er ég þeirrar skoðunar að menn ættu helst að geta ákvarðað fundartíma þingsins án þess að blanda því saman, en vissulega er það alveg réttmæt ábending að það gætu skapast möguleikar á því að reglubundnum fundum þingsins væri sjónvarpað í gegnum Ríkissjónvarpið án þess að miklu væri til kostað og ber auðvitað ekki að forsmá slíka möguleika þó að það skipti einnig miklu máli að sent sé frá öllum fundum þingsins. Ég er viss um að það þætti heldur hversdagslegt ef svo væri að hluti af umræðu hér í þingsal bærist út en annað ekki og þá eftir því hvernig stæði á dagstíma.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Ég þakka fyrir undirtektir við tillöguna og ég vænti þess að hún verði til þess að ráðin verði bót á því með jákvæðum hætti sem á skortir í þessum efnum.