Átak við að koma raflínum í jarðstreng

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 19:41:11 (5780)


[19:41]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að þakka hv. flm. fyrir að flytja þessa þáltill. og mér er heiður af því að hafa fengið að vera með honum við flutning tillögunnar. Á undanförnum árum hefur allt of lítið fjármagn verið veitt til dreifikerfis í sveitum og dreifikerfið hefur liðið fyrir það. Það er sífellt verið að gera við gamlar línur. Þegar óveður hefur brotið niður tugi staura og fellt línu niður þá er rokið til og farið að reyna að tjasla upp á þetta í staðinn fyrir að gera átak í því að koma þessum línum í jörð. Ég tek undir það með hv. 1. flm. að bæði af öryggissjónarmiðum og umhverfissjónarmiðum er þetta alveg bráðnauðsynlegt verkefni.
    Hann nefndi þrjár leiðir sem hægt væri að fara til að fjármagna þetta verkefni. Það væri að hækka gjaldskrá, skattleggja orkufyrirtækin eða koma með framlag úr ríkissjóði sem dygði til þess að vinna þetta verk.
    Ég tel að tvö fyrstu atriðin komi ekki til greina, hvorki að hækka gjaldskrá til að standa undir þessu né að skattleggja orkufyrirtækin því við höfum verið að berjast við það, eins og oft hefur komið fram, að reyna að halda gjaldskrá niðri, að reyna að jafna hana en ekki að hækka hana nema það væri þá jafn skattur á alla. Hins vegar mundi það líklega verða til þess að þau fyrirtæki sem helst þyrftu að standa í því, þ.e. dreififyrirtækin úti um landið, yrðu að hækka sína gjaldskrá og það tel ég ekki koma til greina. Þannig tel ég hvorki hægt að fjármagna þetta verk með hækkun á almennri gjaldskrá né skattlagningu á orkufyrirtækin.
    Það er því alveg fyrir séð að það verður að koma til framlag úr ríkissjóði og það þarf að taka myndarlega á í því sambandi til þess að hægt sé að fjármagna þetta.
    Það er vonandi óhætt að treysta því þegar það er stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar sem beitir sér fyrir þessu máli að það fái sinn framgang. Ég trúi ekki öðru en hæstv. iðnrh. ásamt flm. muni beita sér fyrir því að fjármagn verði á næstu árum til að ljúka þessu verkefni.