Sumartími, skipan frídaga og orlofs

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 20:22:42 (5792)

[20:22]
     Flm. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um sumartíma, skipan frídaga og orlofs. Ásamt mér flytja þessa tillögu hv. þm. Árni R. Árnason, Einar K. Guðfinnsson, Árni M. Mathiesen og Gísli S. Einarsson.
    Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri könnun á breytingu á tímareikningi, skipan frídaga og orlofs í því skyni að auka framleiðni í atvinnulífinu. Nefndin skal m.a. fjalla um hvort eftirfarandi breytingar séu skynsamlegar:
    a. að taka upp sumartíma á Íslandi,
    b. að flytja fimmtudagsfrídaga yfir á helgar,
    c. að gera að lagaskyldu að tiltekinn hluti orlofs sé ekki tekinn á hefðbundnum sumarleyfistíma.``
    Öll þessi þrjú atriði sem nefnd eru í tillögunni hafa verið til umfjöllunar á vettvangi viðskiptalífsins og aðila vinnumarkaðarins um alllangt skeið án þess að niðurstaða hafi fengist. Þessi mál hafa ekki oft komið til umræðu á hinu háa Alþingi en rétt er að því sé hreyft hér og því að umfjöllun um þessi mál sé komið í fastan farveg á vegum stjórnvalda þannig að þingið geti tekið skipulega á þessu máli.
    Rökin fyrir sumartíma eru einkum þau að á tímabilinu frá síðasta sunnudegi í mars og fram í september/október er tveggja tíma munur á milli Íslands og Vestur-Evrópu, þ.e. meginlandsins. Þetta þýðir að samskiptatíminn milli Íslands og þessa hlutar Evrópu verður afar lítill. Hinn stutti samskiptatími hefur orðið til þess að mjög erfitt getur verið að stunda viðskipti milli Íslands og þessara landa á þessum tíma. Því hefur það komið upp sem einróma álit þeirra sem stunda viðskipti við þessi lönd að Ísland taki upp sumartíma með þeim hætti að það verði alltaf klukkutíma munur á milli Íslands og Vestur-Evrópu. Þetta mundi í raun þýða það að hið náttúrlega hádegi sem við höfum stillt af klukkan hálftvö mundi á þessu tímabili frá síðasta sunnudegi í mars til fjórða sunnudags í október flytjast til hálfþrjú. Þetta þýðir að við mundum njóta mun betur hins stutta íslenska sumars og það mundi skapa allt aðra sumarstemningu hjá fólki sem þarf að vinna á þessum tíma.
    Nú er það svo að hinar ýmsu þjóðir haga mjög vinnutíma sínum og hvíldartíma eftir þeim aðstæðum sem ríkja í hverju landi. Þannig er það mjög algengt á hinum heitari landsvæðum að það sé tekið mjög langt hádegisverðarhlé, það sé byrjað snemma morguns að vinna, síðan er langt hádegisverðarhlé og síðan tekið aftur til vinnu og síðan vaka þessar þjóðir kannski fram á rauða nótt að okkur finnst og fá sér þess vegna kannski tvo svefntíma yfir daginn. Við Íslendingar kynntumst þessu kannski best þegar við hófum ferðir til Spánar og kynntumst orðinu ,,siesta`` og því hugtaki. Þess vegna er það mjög algengt að þjóðir hagi sínum vinnutíma og sínum hvíldartíma eftir því sem hentar þeim best og ég hygg að ef Íslendingar almennt höguðu vinnutíma sínum á sumrin með því að byrja fyrr og stilla hádegið þannig af að sólin væri nokkuð hátt á lofti þegar fólk kemur úr vinnu þá mundi það skapa hér miklu betra andrúmsloft á sumrin og gefa fólki kost á að njóta sumarsins betur.
    Enn fremur tel ég að þetta hefði töluverða þýðingu fyrir sölu matvæla, sérstaklega kjöts, þar sem þetta mundi auka eftirspurn eftir kjöti m.a. til grillunar á sumrin en sem kunnugt er er sumartíminn að verða einn aðalsölutími lambakjöts og kjöts á Íslandi.
    Mál númer tvö sem hér er hreyft er það að flytja fimmtudagsfrídaga yfir á helgar og þá kannski fyrst og fremst horft til sumardagsins fyrsta. Málið er að það eru einkum tveir fimmtudagsfrídagar, þ.e. uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti sem slíta vinnuvikuna í sundur þannig að fólk fær ekki samfellda helgi, langa helgi eins og tíðkast marga aðra frídaga heldur er frí á fimmtudegi, síðan þarf að vinna á föstudegi og svo er aftur frí á laugardegi og sunnudegi. Það hefur margoft verið rætt í tengslum við kjarasamninga að það væri heppilegt að flytja þessa fimmtudagsfrídaga nær helgum, annaðhvort yfir á föstudag eða mánudag þannig að það kæmi þriggja daga fríhelgi. Ég hygg að það væri rétt að fara yfir þetta mál og kanna hvort m.a. næðist ekki samstaða um þetta við aðila vinnumarkaðarins.
    Þriðja málið sem hér er hreyft er vetrarorlof en það hefur komist á sú skipan hér á landi að orlofið er orðið 24 virkir dagar venjulega og jafnvel lengra þegar fólk hefur meiri starfsreynslu. Það þarf ekki að orðlengja hversu bagalegt það getur verið fyrir viðskiptalíf landsmanna ef allt þetta orlof er tekið að sumri til og því er ástæða til þess að huga að því hvort ekki sé rétt að a.m.k. hluti af orlofinu sé tekinn

á vetrum.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu máli verði vísað til meðferðar í hv. efh.- og viðskn. og til síðari umræðu.